• Valgerður Sverrisdóttir

Ræða Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra

Samtök iðnaðarins fagna tíu ára afmæli sínu um þessar mundir. Samningurinn um Evrópska  efnahagssvæðið, EES-samningurinn, öðlaðist gildi á Íslandi um svipað  leyti og samtökin voru stofnuð.

Iðnþing, föstudag 12. mars 2004

Ágætu Iðnþingsgestir

I.

Samtök iðnaðarins fagna tíu ára afmæli sínu um þessar mundir. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, EES-samningurinn, öðlaðist gildi á Íslandi um svipað leyti og samtökin voru stofnuð, eða í ársbyrjun 2004. Ég hef það á tilfinningunni að tilkoma Samtaka iðnaðarins og EES-samningurinn hafi hvort tveggja verið eðlilegt svar við kalli tímans. Tilkoma þeirra hafi átti sér rætur í almennri kröfu í upphafi tíunda áratugarins um - opnun viðskiptalífsins; - aukinn hagvöxt; - bætt lífskjör; og - skilvísari stefnumótun og framkvæmd á öllum sviðum.

Það fer varla á milli mála að EES-samningurinn markaði straumhvörf í íslensku atvinnulífi. Þetta hefur komið fram í auknu frelsi, t.d. varðandi frjálst flæði - vöru; - þjónustu; - fjármagns; og - fólks. Samningurinn opnaði okkur einnig aðgang að veigamiklu samstarfi á sviði rannsókna- og nýsköpunar og stuðlaði að framförum á sviði samkeppnismála og vinnumarkaðslöggjafar - svo fáein dæmi séu tekin.

Það fer ekki á milli mála að EES-samningurinn var mikið gæfuspor fyrir íslenskt samfélag. Ég er þeirrar skoðunar að samstarfið við Evrópu sé okkur Íslendingum ákaflega dýrmætt og að áherslan á það muni enn aukast á næstu árum. Atvinnulífið hefur fundið rækilega fyrir þessu og mörg hagsmunasamtök hafa mótað sér sjálf eigin hugmyndafræði í þessum efnum með góðum árangri. Að mörgu leyti hafa Samtök iðnaðarins verið í fararbroddi í þeim efnum hér á landi og ég veit að sú vinna hefur skilað miklum og góðum árangri.

Á þessu tíu ára tímabili höfum við óhikað tekið til hendinni við endurbætur í eigin ranni eins og hinar stórkostlegu breytingar á fjármálamarkaðinum eru til vitnis um. Gjaldeyrishöft hafa verið afnumin og löggjöf fjármálamarkaðarins hefur tekið stakkaskiptum. Við þetta hefur hann eflst svo um munar sem hefur skilað sér til atvinnulífsins með margvíslegu móti. Gleggst sést það af þeim gríðarkrafti sem hefur verið leystur úr læðingi við einkavæðingu bankanna og þeirri útrás sem henni hefur verið samfara.

Auðvitað hefur þessi þróun ekki verið án vaxtarverkja og þeir eru ófáir sem óttast að samþjöppun á tilteknum sviðum viðskiptalífsins geti leitt til tímabundins óhagræðis fyrir neytendur. Þær áhyggjur eru ekki ástæðulausar. Ég tel þó að allir sjái að vextir og önnur almenn viðskiptakjör verða að vera sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum og að ekki geti ríkt skefjalaus ásókn í hámarksgróða án samfélagslegrar ábyrgðar.

Með aukinni umræðu um þessi mál hefur að mínu mati skapast meiri skilningur á því að stórfyrirtækin hafa samfélagslegu hlutverki að gegna. Áhugi þeirra fyrir menningu og menntun hefur orðið sýnilegur og eru prófessorstöður við háskóla sem kostaðar eru af atvinnulífinu og opnun "Klink og Bank" í Brautarholtinu um síðustu helgi dæmi um þá jákvæðu þróun. Einnig hefur áhugi þeirra fyrir fjárfestingum í nýsköpun atvinnulífsins verið nokkur og vænti ég þess að þau geti orðið veigamikill hluti af fjármögnun sprotafyrirtækja í framtíðinni.

II.

Nýsköpun atvinnulífsins hefur átt nokkuð undir högg að sækja frá miðju ári 2000. Þá hafði vandi sprotafyrirtækja, einkum framsækinna tæknifyrirtækja, verið að koma í ljós og netfyrirtækin lagt upp laupana hvert á fætur öðru. Þessi þróun var ekkert séríslenskt fyrirbæri. Þvert á móti urðu afleiðingar þessar mun skelfilegri víða erlendis en hér á landi. Í tvö ár hélt Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins striki sínu og var nánast eini framtaksfjárfestirinn sem sinnti nýjum fjárfestingur fram til 2002. Einkum var erfitt að sjá eftir þeim fjöldamörgu einkafjárfestum sem áttu ekki annars kost í stöðunni en að beina kröftum sínum alfarið að því að verja eldri fjárfestingar sínar.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur verið einn helsti burðarstólpi nýsköpunarinnar frá því að hann tók til starfa í ársbyrjun 1998. Frá upphafi hefur Nýsköpunarsjóður fjárfest í rúmlega 100 fyrirtækjum og á nú eignarhlut í 70 fyrirtækjum. Staða Nýsköpunarsjóðs er aftur á móti mjög erfið um þessar mundir og geta hans til að sinna hlutverki sínu lítil.

Iðnaðarráðuneytið hefur reynt að finna lausn á þessu í samvinnu við aðra aðstandendur sjóðsins. Á ríkisstjórnarfundi í morgun kynnti ég tillögur um breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð. Ég vænti þess að frumvarp verði lagt fram á Alþingi á næstu dögum. Tilgangur þess yrði að efla starfsemi Nýsköpunarsjóðs þannig að sjóðurinn geti tekið þátt í nýjum fjárfestingum í samræmi við hlutverk sitt.

Það hefur lengi staðið atvinnulífinu fyrir þrifum að fjármagn til að styðja við tækniþróun og nýsköpun hefur verið af mjög skornum skammti. Við höfum haft rannsóknasjóði til að styðja við grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir en eftir að þeim lýkur og við tekur þróun viðskiptahugmyndar hefur lítill stuðningur verið fáanlegur. Úr þessu hefur nú verið bætt og fyrir hálfum mánuði var auglýst eftir umsóknum um styrki úr Tækniþróunarsjóði. Þar með er miklum áfanga náð og starfsemi Tækniþróunarsjóðs verið ýtt úr vör.

Þessi nýi sjóður verður rekinn af Rannís samkvæmt samningi við iðnaðarráðuneytið. Hann mun gegna veigamiklu hlutverki við fjármögnun nýsköpunarverkefna. Frumstig nýsköpunar hefur verið í algeru fjársvelti og lítið sem ekkert fé verið fáanlegt til að veita álitlegum hugmyndum brautargengi og þróa þær á það stig að þær verði áhugaverðar fyrir framtaksfjárfesta.

Hlutverk Tækniþróunarsjóðs er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að því að efla nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Líta má á að hlutverk sjóðsins hefjist þegar hugmynd hefur orðið til sem leitt getur til efnahagslegs ávinnings og endurnýjunar og bættrar samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs.

Tækniþróunarsjóður hefur 200 milljónir kr. til ráðstöfunar á þessu fyrsta starfsári sínu. Framlag til hans fer stigvaxandi og verður orðið 500 milljónir kr. árið 2007 ef áætlanir ganga eftir. Það er því ljóst að hér er um að ræða mjög miklvæga og löngu tímabæra lyftistöng fyrir íslenskt atvinnulíf.

III.

Víkjum þá aðeins að raforkumálunum. Fyrir réttu ári síðan samþykkti Alþingi ný raforkulög sem byggja m.a. á tilskipun Evrópusambandsins um aðskilnað samkeppnis- og einkaleyfisþátta í starfsemi raforkufyrirtækja. Samfara þessari lagasetningu var ákveðið að skipa 19 manna nefnd til að fjalla um umfang og stærð flutningskerfisins og jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Segja má að góð samstaða hafi náðst í nefndinni. Í næstu viku mun ég mæla fyrir þremur frumvörpum á Alþingi sem byggja á tillögum nefndarinnar. Ég vænti þess að þetta viðamikla mál verði til lykta leitt á þessu þingi. Það er mikilvægt fyrir orkufyrirtækin og viðskiptavini þeirra að eyða þeirri óvissu sem ríkt hefur um starfsskipulag þessarar mikilvægu atvinnugreinar.

Meginágreiningurinn hefur staðið um það hversu langt eigi að ganga varðandi jöfnun kostnaðar við flutning og dreifingu raforku. Ljóst er að við höfum ætíð búið við nokkra jöfnun á flutningskostnaði á raforku og hefur ríkt almenn sátt um hana. Í fyrirliggjandi tillögum er flutningskerfið stækkað nokkuð frá því sem nú er og dreifikerfið minnkað að sama skapi. Það hækkar nokkuð kostnaðinn við flutningskerfið en lækkar að sama skapi kostnaðinn við dreifikerfið. Sameiginlegt flutningskerfi er forsenda þess að hægt verði að koma á samkeppni í framleiðslu og sölu á raforku.

Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi er gert ráð fyrir að flutningskerfið afhendi raforku á 56 stöðum á landinu. Raforkan verður afhent til dreifikerfa á sama verði á öllum þessum stöðum. Allir þeir sem ætla að eiga viðskipti með raforku munu því taka jafnan þátt í kostnaði við rekstur og endurnýjun flutningskerfisins. Þetta er eðlilegt vegna samkeppnissjónarmiða.

Það er mat Orkustofnunar að þessi breyting þurfi ekki að leiða til kostnaðarhækkana í kerfinu. Hins vegar er ljóst að það verður kostnaðartilfærsla milli flutnings og dreifingar. Þá er gert ráð fyrir að sett verði arðsemisviðmið á starfsemi flutnings- og dreififyrirtækja.

Verðmyndun á raforku hér á landi hefur verið ógagnsæ. Með þessu nýja fyrirkomulagi verður hægt að sjá hvað greitt verður fyrir einstaka þætti frá framleiðslu til sölu. Það mun auðvelda Orkustofnun að annast eftirlitshlutverk sitt með starfsemi flutnings- og dreififyrirtækja þegar búið verður að koma á bókhaldslegum aðskilnaði milli einstakra þátta. Í Evrópu þar sem komin er nokkur reynsla á þetta nýja fyrirkomulag þá hefur það leitt til lækkana á raforkuverði til fyrirtækja en síður til heimila. Framtíðin ein sker úr um það hver verður þróun mála hvað þetta varðar hér á landi, en það er sannfæring mín að þessar róttæku breytingar sem við nú göngum í gegnum verði okkur öllum til hagsbóta.

Viðskiptaumhverfið er sífellt að verða fjölbreyttara, fyrirtæki eru orðin öflugri og útrás íslenskra fyrirtækja hefur vakið mikla athygli.

Enginn vafi leikur á því að þróunin síðustu tíu árin hefur leitt til betri lífskjara þjóðarinnar. Þessi góði árangur er engin tilviljun. Markvisst hefur verið unnið að því að styrkja samkeppnisgrundvöll atvinnulífsins, laða hingað til lands erlent fjármagn, auka fjárfestingar og efla fyrirtækin í landinu með breytingum á skattaumhverfinu. Margt af þessu hefur verið umdeilt, eins og þær virkjana- og stóriðjuframkvæmdir sem ákveðnar hafa verið og eru að hluta til hafnar.

Aukin hagræðing og hraðar breytingar á eignarhaldi fyrirtækja hafa hins vegar leitt til meiri samþjöppunar og minni samkeppni í einstökum atvinnugreinum. Þá hefur einnig verið mikil umræða um stjórnunarhætti hlutafélaga í kjölfar ýmissa viðskipta á verðbréfamarkaði.

Til að bregðast við nýjum aðstæðum í viðskiptalífinu hef ég nýlega skipað nefnd um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis. Nefndinni er meðal annars ætlað að skoða hvernig bregðast megi við aukinni samþjöppun og með hvaða hætti þróa megi reglur þannig að viðskiptalífið sé skilvirkt og njóti trausts. Vinna nefndarinnar gengur vel, en ætlunin er að hún ljúki störfum og skili tillögum eigi síðar en 1. september næstkomandi.

Ég vil að lokum óska Samtökum iðnaðarins til hamingju með tíu ára afmælið og þakka fyrir gott samstarf þau ár sem ég hef gegnt starfi iðnaðar- og viðskiptaráðherra.