• Bjarni Ármannsson

Bjarni Ármannsson forstjóri - Erindi á Iðnþingi 2004

Fjárfestingar og fjármagnsflutningar

Á þeim 10 árum sem liðin eru síðan samningurinn um evrópska efnahagssvæðið tók gildi hér á landi hafa orðið gífurlegar breytingar á fjármálalífi á Íslandi.

Viðskiptaráðherra, félagsmálaráðherra, aðrir góðir gestir á Iðnþingi.

Á þeim 10 árum sem liðin eru síðan samningurinn um evrópska efnahagssvæðið tók gildi hér á landi hafa orðið gífurlegar breytingar á fjármálalífi á Íslandi. Frjálsir fjármagnsflutningar og opnara viðskiptaumhverfi hafa skapað grundvöll fyrir einu mesta framfaraskeiði í sögu lands og þjóðar.

Helst mætti bera þennan tíma saman við það framfaraskeið sem hófst fyrir nákvæmlega eitt hundrað árum með heimastjórn á Íslandi og í kjölfarið stofnun Íslandsbanka hins gamla og Fiskveiðasjóðs ári síðar. Þetta var tímabil frjálsra viðskipta og erlent fjármagn streymdi inn í landið til uppbyggingar atvinnuveganna, einkum vélbátaútgerðar. Á þessum tíma var lagður grundvöllur fyrir þær ótrúlegu efnahagsframfarir sem Íslendingar áttu eftir að njóta á 20. öld.

Kreppuárunum fylgdi verulegt bakslag þar sem ríkisafskipti og haftastefna dró úr viðskiptafrelsi og frumkvæði einstaklinga. Þetta átti jafnt við um Ísland og umheiminn. Það tók áratugi að losa um þessi höft og óhætt að segja að meiri árangur hafi náðst á því sviði á tíu árum frá gildistöku EES samningsins en á nokkrum áratugum þar á undan.

Með nokkurri einföldun má skipta undanförnum tíu árum í þrjú tímabil. Stundum er talað um þrjú stig markaðsvæðingar á enskri tungu, það er að segja "liberalization", "privatization" og "rationalization". Á íslensku myndi þetta útleggjast sem afnám hafta, einkavæðing eða tilfærsla rekstrar frá opinberum aðilum til einkaðila og loks hagræðing.

Bjarni Ármannsson - 1993-1997

Glæra: 1993-1997

Hér miða ég við að afnám hafta hefjist við gildistöku EES samningsins til ársins 1997. Þetta er auðvitað nokkur einföldun þar sem vissulega voru stigin mikilvæg skref fyrr, svo sem með reglugerð um afnám hafta á fjármagnshreyfingar í áföngum frá árinu 1990. Hins vegar urðu merkileg þáttaskil við stofnun millibankamarkaðar með gjaldeyri árið 1993, fullu frjálsræði fjármagnshreyfinga til langs tíma 1994 og til skamms tíma ári síðar, og loks með lögum um beina erlenda fjárfestingu árið 1996. Með þessum breytingum tengdist innlendur fjármálamarkaður alþjóðlegu umhverfi og um leið var löggjöf fjármálamarkaðarins aðlöguð því sem gerðist í helstu viðskiptalöndum okkar. Hins vegar standa enn nokkrar hindranir eftir, svo sem bann við fjárfestingum erlendra aðila í sjávarútvegi.

Bjarni Ármannsson - 1998-2002

Glæra: 1998-2002

Eftir að verulega hafði verið dregið úr höftum í lagaumhverfinu hófst næsta tímabil, sem var skeið einkavæðingar og minnkandi ríkisumsvifa á samkeppnismarkaði. Við samruna fjárfestingarlánasjóða ríkisins í FBA árið 1997 og hlutafjárvæðingar FBA og ríkisviðskiptabankanna hófst undirbúningur viðamikillar einkavæðingar á fjármálamarkaði.

Bjarni Ármannsson - Þróun á fjármálamarkaði 1998 og 2004

Glæra: Þróun á fjármálamarkaði 1998 og 2004

Þá hafði ríkið yfirburðarstöðu á íslenskum fjármálamarkaði, ef frá voru taldir Íslandsbanki og sparisjóðirnir. Á árunum 1997-2003 var FBA, Landsbanki og Búnaðarbankinn einkavæddir í áföngum. Því voru stigin mjög stór skref í einkavæðingu fjármálakerfisins á Íslandi á þessu tímabili, þótt stærsti lánveitandi landsins, Íbúðalánasjóður, sé enn í höndum ríkisins. Ekki er útlit fyrir að ríkið hyggist einkavæða íbúðarlánakerfið í þessari hrinu.

Bjarni Ármannsson - 2003

Glæra: 2003-?

Að lokinni einkavæðingu er rökrétt að við taki tímabil hagræðingar. Eins og margoft hefur komið fram er íslenskt bankakerfi dýrt í rekstri í alþjóðlegum samanburði. Hagræðingarsjónarmið voru hins vegar ekki höfð að leiðarljósi við einkavæðingu ríkisviðskiptabankanna, heldur var óskilgreindum samkeppnissjónarmiðum haldið á lofti til þess að hindra þátttöku Íslandsbanka í því ferli. Reyndin er einnig sú að lítil hagræðing hefur átt sér stað í bankakerfinu í kjölfar einkavæðingar og tækifæri til lækkunar kostnaðar eru takmörkuð. Nýlegar lagasetningar, sem því sem næst ríkisvæddu sparisjóðina, auka heldur ekki möguleika til aukins hagræðis og munu tæpast verða sparisjóðunum og viðskiptavinum þeirra til góðs til lengri tíma litið.

Það er því ástæða til þess að brýna fyrir stjórnvöldum að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur á undanförnum árum og standa ekki í vegi fyrir því að einkavæðingin beri þann ávöxt sem henni er ætlað í betri nýtingu fjármuna, hagræðis fyrir neytendur og öflugri þjónustu.

Bjarni Ármannsson - Breytingar á hagstjórn

Glæra: Breytingar í hagstjórn

Ef við lítum á ný tíu ár aftur í tímann, var ljóst að ekki var nóg að opna landið fyrir erlendri samkeppni og aðlaga löggjöfina. Fleira þurfti að koma til ef íslenskt efnahagslíf átti að standast samkeppni í hinu nýlega alþjóðavædda umhverfi. Ekki einungis vegna opnunar hagkerfisins fyrir frjálsu flæði fjármagns, heldur einnig vegna frelsis í flutningi vinnuafls, vöru og þjónustu. Hagstjórnin var nú komin á vígvöll alþjóðamarkaða þar sem engin grið er gefin og aðaldið mikið.

Í hinu alþjóðavædda umhverfi varð jafnvel enn mikilvægara en áður að hið opinbera skapaði skilyrði fyrir stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Tekist hafði að beisla verðbólguna nokkrum árum áður og tryggja þurfti að hún færi ekki af stað á ný, m.a. með aðhaldi og lækkun skulda hjá ríki og sveitarfélögum. Mikilvægt var einnig að aðlaga umgjörð peningastefnunnar að þessu breyttu aðstæðum. Ljóst var að það kerfi fastgengis sem hafði verið við líði um hríð hentaði ekki í umhverfi frjálsra fjármagnsflutninga. Huga þurfi að öðru og sveigjanlegra kerfi. Loks var ákveðið að taka upp flotgengiskerfi og setja Seðlabankanum skilgreind verðbólgumarkmið. Með þessu var áhersla á stöðugleika í verðlagsmálum undirstrikuð og peningastjórnunin aðlöguð nýju umhverfi. 

En opnara viðskiptaumhverfi gerði kröfur um fleiri breytingar í hagstjórninni en hér hafa verið nefndar. Skattkerfið varð að endurskoða með tilliti til þess að með afnámi hafta gátu framleiðsluþættir færst úr landi án hindrana. Hagkerfið, og þar með vinnumarkaðurinn, var að taka örum breytingum og þurfti menntakerfið að mæta því með aukinni fjölbreytni og samkeppni. Miklar framfarir hafa átt sér stað á því sviði á undanförnum árum. Fleiri dæmi um nauðsynlegar breytingar mætti nefna - dæmi sem skýra að verulegu leyti það hagvaxtarskeið sem við höfum notið á umliðnum árum.

 

Bjarni Ármannsson - Fjármagnsflæði í kjölfar EES

Glæra: Um fjármagnsflæðið sem kom í kjölfarið

Flæði fjármagns inn og út úr landinu hefur verið umtalsvert frá því að opnað var fyrir aukið frjálsræði á því sviði. Bæði hafa innlendir aðilar sótt með fé sitt á erlenda markaði eða aflað fjármagns erlendis til innlendra nota. Einnig hafa erlendir aðilar fjárfest hér eða fengið fjármögnun frá íslenskum aðilum. Þetta flæði hefur aukist stig af stigi á undanförnum árum. Þannig hafa fjárfestingar erlendra aðila í innlendum skuldabréfum verið umfangsmiklar undanfarið, svo dæmi sé tekið, og að sama skapi hafa innlendir stofnanafjárfestar keypt mikið af erlendum verðbréfum frá því að opnað var fyrir slík viðskipti. Fyrir vikið er eignasafn innlendra aðila dreifðara en áður var og ávöxtun ætti að verða tryggari til lengri tíma litið. Einnig hafa innlendir aðilar fjárfest beint í erlendum rekstri og erlendir aðilar í innlendum rekstri. Þetta hefur fært með sér verðmæta reynslu og þekkingu á báða vegu. Þá hafa innlendir aðilar notið góðs lánshæfis erlendis þegar þeir hafa sótt þangað fé og hefur lánhæfið eflst með tilkomu þeirra breytinga sem aðildin að EES-samningnum hefur knúið fram.

 

Bjarni Ármannsson - Áhrif aðildar að EES

Glæra: Áhrif aðildar að EES

Eins og fyrr segir hefur fjárfesting erlendra aðila hér á landi í kjölfar aðildar Íslands að EES-samningnum ekki síst verið á innlendum skuldabréfamarkaði. Eftirspurn þessara aðila lét nokkuð á sér standa fram að en að undangenginni rækilegri kynningu á íslensku efnahagslífi og breytingum á umhverfi markaðarins létu erlendir fjárfestar áhuga sinn í ljós með umtalsverðum kaupum. Áhrifin hafa verið þau m.a. að langtímavextir hafa lækkað allnokkuð til hagsbóta fyrir þá sem þurfa að sækja langtímafjármagn inn á þennan markað, þar á meðal íbúðakaupendur.  

Opnun hagkerfisins og breytt umhverfi fjármagnsmarkaðarins og hagkerfisins í heild með aðild Íslands að EES-samningnum hefur ekki síst lýst sér í hækkun á virði innlendra fyrirtækja. Hækkanir á innlendum hlutabréfamarkaði síðastliðin 10 ár lýsir þessari þróun að hluta. Úrvalsvísitalan hefur nær sexfaldast á þessu tíu ára tímabili. Þá hefur raunvaxtastigið gjörbreyst.  Raunvextir í dag eru um helmingi lægri en þeir voru við gildistöku samningsins - og enn eiga raunvextir eftir að lækka. 

Verðbólga hefur verið um 3% að jafnaði síðastliðin 10 ár. Þetta verður að teljast hófleg verðbólga í samanburði við áratugina á undan. Krafa hins frjálsa markaðar á eflaust sinn þátt í þessari niðurstöðu. Stöðugleikinn skapaði möguleika á hagvexti, aukinni framleiðni og kaupmáttaraukningu sem ekki var til staðar þegar verðbólgan mældist í tveggja stafa tölu. Hagkerfið er því mun betur sett hvað þetta varðar en áður. 

Hagvöxturinn og kaupmáttaraukningin hér á landi síðastliðin tíu ár sýna að þær breytingar sem gerðar hafa verið á innlendu efnahagslífi samhliða aðild að EES-samningnum hafa skilað þjóðinni miklum ábata. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hefur þannig aukist að jafnaði um 2,4% á ári síðastliðin tíu ár samanborið við 1,2% að jafnaði áratuginn þar á undan. Nákvæma greiningu á ávinningnum af EES-samningnum mun þó seint vera hægt að framkvæmda með nákvæmni. Of mikil óvissa er um orsök eða afleiðingar einstakra þátta í efnahagsþróuninni til að slíkt mat sé mögulegt. Kannski er engin þörf á slíku mati, því sú sátt sem ríkir með þjóðinni með samninginn er líklega besta sönnun þess að hann hafi leitt til góðs.

 

Bjarni Ármannsson - Hagur hluthafa Íslandsbanka 1993-2004

Glæra: Hagur hluthafa Íslandsbanka 1993-2004

Fjármálaþjónusta er dæmi um grein sem hefur nýtt sér vel þá möguleika sem hafa falist í auknu frjálsræði og nýjum möguleikum. Hlutabréf Íslandsbanka voru skráð á hlutabréfamarkað einungis ári fyrir gildistöku EES samningsins. Síðan þá hafa orðið gífurlegar breytingar á starfsemi og styrk bankans. Með stækkun hans hefur hagræði aukist í rekstri, alþjóðleg starfsemi hefur byggst upp og þjónusta við viðskiptavini hefur stóraukist. Sá sem keypti hlutabréf í bankanum fyrir 11 árum hefur t.d. 11-faldað eign sína á tímabilinu.

 

Bjarni Ármannsson - Smæðin, veikleiki og styrkleiki

Glæra: Smæðin -  veikleiki og styrkleiki

Fyrirfram óttuðust margir að Íslandi stæði einkum ógn af opnara hagkerfi vegna smæðar markaðarins. Í smæð Íslands felast bæði styrkleikar og veikleikar. Veikleikarnir eru augljósir. Lítill heimamarkaður setur innlendum vexti skorður og erfiðara er að auka hagkvæmni með stækkun. Þetta er ein ástæða þess að íslenskt efnahagslíf snýst að verulegu leyti um útflutning og útrás inn á stærri markaði erlendis. Smæðin hindrar einnig vöxt fyrirtækja af samkeppnisástæðum, því þótt fyrirtæki teljist hafa yfirburðastöðu á íslenskum markaði getur það verið örsmátt á alþjóðavísu. Það getur svo dregið úr samkeppnisstöðu þess á alþjóðlegum markaði. Markaðir eru einnig grunnir í alþjóðlegum samanburði og seljanleiki minni, sem t.d. getur skapað hættu á meiri gengissveiflum. Það er því ljóst að þegar kemur að innviðum hagkerfisins getur smæðin verið dýr. 

Hins vegar hefur lítið samfélag aðra kosti sem stærri lönd og svifaseinni skortir. Samskiptaleiðir eru styttri og greiðari, svo sem á milli stjórnvalda, eftirlitsaðila, fyrirtækjastjórnenda og viðskiptavina. Menn eiga auðvelt með því að setja sig inni í mál og bregðast fljótt og markvisst við. Þetta eykur sveigjanleika og getu hagkerfisins til þess að bregðast hratt við innri eða ytri áföllum og breytingum.  

Samfélagið er einfalt og gegnsætt í samanburði við stærri þjóðfélög. Lífskjör eru góð og fjarlægðir stuttar og við höfum borið gæfu til þess að mennta þegna landsins vel. Forsendur til þess að auka framleiðni vinnuaflsins ættu því að vera til staðar. Allt þetta hefur skapað skilyrði til þess að byggja upp öflug fyrirtæki sem sækja óhikað fram í samkeppni á alþjóðavettvangi.

 

Bjarni Ármannsson - Tækifæri framtíðar

Glæra: Framtíðin

Við getum því litið bjartsýn fram á veginn. Fyrst þurfum við að ljúka því verki sem hófst fyrir 10 árum og ganga skrefið til fulls í frjálsræðis- og hagræðingarátt. Á fjármálasviðinu er a.m.k. ein stór einkavæðing eftir, sem er á sviði húsnæðismála.  Þar er mikið verk óunnið. Húsnæðiskaup, sem er stærsta fjárfesting flestra fjölskyldna, er enn í viðjum kerfis sem byggir á því að ríkið sé nauðsynlegur milliliður í þessum viðskiptum, m.a. með niðurgreiðslu vaxta vegna þeirra.  En eins og sjá mátti af raunvaxtaþróuninni á síðastliðnum 10 árum er mikilvægast að stjórnvöld einbeiti sér að trúverðugleika í peningamálum og ríkisfjármálum. Það skapar skilyrði fyrir lækkandi raunvaxtastigi og þar með greiðslubyrgði almennings af húsnæðislánum. Hagræðið felst því ekki í ríkisábyrgð á slíkum skuldbindingum. 

Þrátt fyrir að við höfum lagað umhverfi okkar að mestu að innri markaði Evrópusambandsins stöndum við enn utan sambandsins. Brýnt er að við nýtum þá stöðu okkur til hagsbóta og frekari ávinnings.  Með skattalækkunum til fyrirtækja var til að mynda skapað hagfellt umhverfi fyrir viðskiptalífið og þar með góð almenn lífskjör í landinu.  Við þurfum að skapa grundvöllinn fyrir framtaki einstaklinganna og skilyrði til vaxtar og viðgangs fyrirtækja.  

 

Bjarni Ármannsson - Bítlarnir

Glæra: Bítlarnir

Því það getur stundum verið erfitt að sjá fram í tímann. Við vitum aldrei hvar tækifærin munu verða til, hvenær þau munu ná að blómstra eða í hvaða atvinnugrein. Fyrirfram hefði ég t.d. ekki þorað að veðja á að lyfjaþróun væri sú atvinnugrein sem mestan auð myndi búa til í markaðsverðmæti undanfarin 3-5 árum.  Við þurfum hins vegar að skapa skilyrðin til að hlutirnir gerist en ekki hindranir. Sjálfsagt grunaði þessa áhorfendur í "kjallaranum" í Liverpool ekki að þeir væru að upplifa grunninn að menningar og viðhorfsbyltingu í vestrænu samfélagi þegar þeir hlustuðu á þessa pilta.  Enda yfirleitt erfitt að átta sig á breytingunum í upphafsfasa þeirra. Það sem við getum hins vegar gert er að byggja upp umhverfi þar sem einstaklingar fá notið sín og sinna hæfileika til hagsbóta fyrir okkur öll.