• Iðnþing 2004

Ályktun Iðnþings Samtaka iðnaðarins 2004

- 12. mars 2004

Ályktun Iðnþings Samtaka iðnaðarins 2004 liggur nú fyrir.

Tekist hafa kjarasamningar sem ætla má að marki stefnu fyrir kjarasamninga sem fylgja í kjölfarið. Eins og áður er teflt á tæpasta vað í þessum samningum, sérstaklega ef tekið er mið af þröngri stöðu samkeppnisgreina og miklum launahækkunum undanfarin ár.  Laun á Íslandi, sem hlutfall af virðisauka, eru orðin með því hæsta sem þekkist á byggðu bóli. 

Gera má ráð fyrir nokkru launaskriði og að verðbólgan fari í allt að 4% á næstu árum, sem eru efri mörk verðbólgumarkmiða. Fyrirtækin verða að auka framleiðni  verulega til þess að geta staðið undir þessum samningum. 

Framundan er mikil fjárfesting í stóriðju, gengi íslensku krónunnar verður hátt og vextir verða háir.  Við þessar aðstæður er líklegt að hefðbundinn iðnaður dragist saman  og  störfin færist í auknum mæli úr landi eða erlendu verkafólki fjölgi hérlendis á næstu árum. Síðari kosturinn er tvímælalaust vænlegri.   

Á undanförnum árum hafa íslensk fyrirtæki, sem byggjast á hátækni og hugviti, sótt fram á erlendum mörkuðum og náð ótrúlegum árangri á sviðum sem fæsta hefði áður órað fyrir. Forsendur þess árangurs eru frumkvöðlar, góðar hugmyndir, þrautseigja, menntun og þolinmótt fjármagn. Taka verður mið af þessum þörfum atvinnulífsins.  

Tilfinnanlegur skortur er á velmenntuðu fólki á sviði iðn-, verk-, tækni- og raungreina. Gera verður átak til þess að bæta hér úr.  

Ríkið hefur með réttu dregið sig af bankamarkaði. Það hefur hins vegar mikilvægu hlutverki að gegna til að tryggja fjármagn til nýsköpunar. Þar eiga lífeyrissjóðir einnig að leggja sitt af mörkum. Brýna þörf ber til að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins verði efldur og gerður að öflugum framtaksfjárfesti. Reynslan sýnir að sprotar eru lengi að vaxa en þeir eru engu að síður forsenda fyrir hagvexti framtíðarinnar.