Samtök iðnaðarins slíta barnsskónum

- Útdráttur úr ræðu Vilmundar Jósefssonar, formanns SI, á Iðnþingi

Vilmundur sagði m.a. að Samtök iðnaðarins væru að slíta barnsskónum þótt þau stæðu á gömlum merg. Starf þeirra á liðnum tíu árum hefði verið farsælt og tekist hefði að sinna fjölbreyttum og gerólíkum þörfum og óskum félagsmanna. Hafa bæri í huga að innan raða SI væru 26 fagfélög og 275 fyrirtæki eða samtals 1100 rekstraraðilar. Félagsmenn kæmu úr öllum greinum iðnaðar allt frá handverki til stóriðju, frá þeim smæstu til hinna stærstu.

Vilmundur sagði m.a. að Samtök iðnaðarins væru að slíta barnsskónum þótt þau stæðu á gömlum merg. Starf þeirra á liðnum tíu árum hefði verið farsælt og tekist hefði að sinna fjölbreyttum og gerólíkum þörfum og óskum félagsmanna. Hafa bæri í huga að innan raða SI væru 26 fagfélög og 275 fyrirtæki eða samtals 1100 rekstraraðilar. Félagsmenn kæmu úr öllum greinum iðnaðar allt frá handverki til stóriðju, frá þeim smæstu til hinna stærstu.

Stakkaskipti atvinnulífsins

Vilmundur sagði ekki fara milli mála að íslenska hagkerfið hefði tekið stakkaskiptum á sl. tíu árum. Hagvöxtur hefði aukist og ætti rætur að rekja til fjölbreyttari atvinnustarfsemi en áður. Ástæðurnar væru margþættar en tengdust fyrst og fremst breyttu starfsumhverfi fyrirtækja í kjölfar EES-samningsins. Hátæknigreinar hefðu verið í mikilli sókn og hlutdeild þeirra í framlagi iðnaðar til verðmætasköpunar hefði aukist úr um 3% í 16% á tíu árum. Það væri gleðilegt að Íslendingar væru í auknum mæli að beisla tækniframfarir og íslenska hagkerfið væri nú orðið mun áþekkara því sem þekktist í nágrannalöndum okkar.

Hlekkir hugarfarsins

Vilmundur sagði að hlutdeild einstakra greina í verðmætasköpun þjóðarbúsins hafa breyst mikið á tíu árum. Nú gegndi iðnaðurinn lykilhlutverki í verðmætasköpun þjóðarinnar. Það sýndi glöggt fimmtungur landsframleiðslunnar en ekki síður að rösklega fimmti hver vinnandi maður starfaði í iðnaði. Þótt þetta blasti við væri engu líkara en að þeir sem ráða ferðinni í stjórnmálum og fjölmiðlum vildu ekki trúa því. Viðfangsefni stjórnmálamanna og fjölmiðla snerust fyrst og fremst um landbúnað og sjávarútveg. Svo ramt kvæði að þessu að í huga flestra yrði til alröng mynd af íslensku samfélagi. Kannanir bentu til þess að Íslendingar ofmætu stórkostlega hlut og mikilvægi sjávarútvegs í efnahagslífinu. Mikilvægi EES-samningsins Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið væri ótvírætt langmikilvægasti og víðtækasti samningur sem Íslendingar hefðu gerð frá því að þeir tóku við stjórn eigin mála úr höndum Dana. Íslenskum lögum og reglum hefði þurft að breyta í mikilvægum atriðum og þær breytingar hefðu nú staðið í 10 ár. Því mætti segja með nokkrum sanni að ótrúlega stór hluti lagasetningarvaldsins á Íslandi væri nú í höndum ESB og aðildarríkja þess en ekki Alþingis.

Flestir sammála um ágæti EES-samningsins

Á sínum tíma hefði sitt sýnst hverjum um ágæti samningsins en flestir væru nú sannfærðir um ágæti hans eftir 10 ára reynslu. Þótt samningurinn hefði orðið íslensku atvinnulífi til góðs sannfærðust þó æ fleiri um að hann fullnægði ekki lengur kröfum og þörfum Íslands og Noregs og ógerlegt væri að gæta íslenskra hagsmuna vegna áhrifaleysis okkar við undirbúning og setningu reglna. Vilmundur sagði tillit og þolinmæði gagnvart þeim, sem standa utan ESB, fara þverrandi og einhliða vilji Íslands til að halda lífi í ESB til lengdar skipti engu. Íslendingar yrðu að horfast í augu við að eina leiðin til að þeir og íslenskt atvinnulíf mættu njóta jafnstöðu í samfélagi Evrópuþjóða væri að ganga í ESB. Hún væri bæði hin eina færa en jafnframt sú skynsamlegasta. Hvert skref sem við hefðum stigið í átt til aukinnar Evrópusamvinnu hefði reynst heilladrjúgt. Stuðningur við aðild Íslands að ESB færi vaxandi að nýju, bæði meðal almennings og félagsmanna, frá því að Gallup gerði könnun fyrir Samtökin fyrir ári. Þess vegna ætti ekki að vera neitt hik á íslenskum stjórnvöldum að fara þá leið og ekki eftir neinu að bíða.

Háir vextir og hátt gengi plaga iðnaðinn

Vilmundur vék máli sínu því næst að vaxta- og gengismálum og sagði iðnaðinn og aðrar samkeppnisgreinar hefðu borið sig illa undan háum vöxtum undanfarin misseri. Háir vextir bitnuðu mest á heimilum og fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni og fyrirtækin ættu erfitt uppdráttar vegna hás raungengis sem hefði þegar frá miðju ári 2002 orðið til að draga úr útflutningi á iðnaðarvörum og framleiðsla hefði ennfremur flust úr landi en miklar launahækkanir hefðu einnig ýtt undir þá þróun.

Valdabrölt í bönkum

Vilmundur sagði ár mikilla sviptinga að baki og þar hefðu bankarnir leikið aðalhlutverk. Það væri mikið áhyggjuefni að bankarnir væru farnir að berjast um völd og áhrif í stærstu fyrirtækjum landsins og það væri óþolandi. Hins vegar hefðu flestir fagnað einkavæðingu og útrás bankanna en hitt væri lakara að sú stækkun virtist fremur skila sér í auknum hagnaði þeirra sjálfra en lægri vöxtum og lægri kostnaði viðskiptamanna þeirra.

Samkeppni og samþjöppun

Vilmundur sagði samkeppni og stækkun íslenskra fyrirtækja af hinu góða. Atvinnulífið þyrfti að hagræða í rekstri til að vera samkeppnisfært á opnum alþjóðlegum markaði. Hins vegar teldu Samtökin að stjórnvöld ættu ekki að stjórna því hvernig atvinnulífið þróaðist og inngrip eins og bann við samruna fyrirtækja ættu ekki að koma til greina nema í undantekningartilvikum þegar mikil hætta væri á samkeppnisröskun. Hins vegar gæti verið rétt að setja sérstakar reglur um markaðsráðandi fyrirtæki og hindra þau í að misnota aðstöðu sína.

Alþjóðavæðing nýtist smáríkjum

Vilmundur sagði að smærri ríki innan ESB hefðu hagnast mest á frelsi í viðskiptum, skýrum leikreglum og stöðugleika í verðlagi og gengi en stórþjóðirnar væru sjálfum sér nógar um flest. Smærri ríkin högnuðust meira en þau stóru á óheftum aðgangi að mörkuðum milljónaþjóða en mest hefðu þau ríki að vinna sem hefðu búið við langvarandi óhagræði af verðbólgu og gengissveiflum.

Stoðirnar þrjár

Framundan væri nú frekari uppbygging stóriðju hér á landi. Ljóst væri að innan örfárra ára byggðust útflutningstekjur okkar á þremur nokkuð jafnöflugum stoðum: Áli og iðnaðarvörum – sjávarafurðum – og tekjum vegna flutninga-, ferða- og fjármálaþjónustu. Þetta væri grundvallarbreyting í íslensku atvinnulífi.

Lýðræðisleg samtök

Undir lok ræðu sinnar sagði Vilmundur m.a. að SI hefðu frá upphafi lagt mikla áherslu á að virkja félagsmenn í stefnumótun. Haldnir hefðu verið stefnumótunarfundir og niðurstöðurnar verið hafðar að leiðarljósi í starfinu. Með vorinu væri stefnt að því að enn verði lagðar línur með nýrri stefnumótun til næstu 10 ára. Tilgangurinn væri að hafa ávallt skýrar línur í starfinu til að vinna félagsmönnum og iðnaðinum í landinu sem best gagn.

Sjá nánar ræðu Vilmundar á Iðnþingi 2004.

Þóra Kristín Jónsdóttir tók saman