Frjáls för vinnuafls – breytingar á vinnumarkaði

- Útdráttur úr erindi Árna Magnússonar, félagsmálaráðherra, á Iðnþingi

Árni Magnússon gat þess að við undirbúning EES-samningsins á sínum tíma hefði verið farið yfir Evrópulöggjöf á öllum sviðum. Þá var ljóst að stærsta breytingin gagnvart vinnumarkaði fælist í gildistöku tveggja Evrópureglugerða um frjálsa för og almannatryggingar launafólks. Markmið þeirrar síðarnefndu væri að viðhalda rétti sem fólk hefði áunnið sér í almannatryggingakerfinu þótt það flyttist milli aðildarríkja EES-samningsins.

Árni Magnússon gat þess að við undirbúning EES-samningsins á sínum tíma hefði verið farið yfir Evrópulöggjöf á öllum sviðum. Þá var ljóst að stærsta breytingin gagnvart vinnumarkaði fælist í gildistöku tveggja Evrópureglugerða um frjálsa för og almannatryggingar launafólks. Markmið þeirrar síðarnefndu væri að viðhalda rétti sem fólk hefði áunnið sér í almannatryggingakerfinu þótt það flyttist milli aðildarríkja EES-samningsins.

Samkvæmt fyrrnefndu reglugerðinni væri borgurum annarra aðildarríkja ESB heimilt að koma hingað til lands í vinnuleit án afskipta hins opinbera. Vinnumarkaðurinn hefði skyndilega orðið opinn fyrir vinnuafli frá 11 aðildarríkjum ESB og það hefði sett ugg að ýmsum. Niðurstaðan hefði orðið sú að Ísland gerði sérstaka bókun um að íslensk stjórnvöld áskildu sér rétt til að grípa til aðgerða ef upp kæmi ójafnvægi á vinnumarkaði vegna mikils aðstreymis erlends vinnuafls til afmarkaðra landsvæða, starfsgreina eða atvinnugreina. Á sl. tíu árum hefði fjöldi erlendra ríkisborgara tvöfaldast en nú væri full ástæða til að ætla að aðstreymi fólks hingað til lands héldi áfram að aukast og því þætti rétt að nýta tveggja ára aðlögunarfrest sem stendur til boða skv. samningnum um stækkun ESB.

Allgóð sátt um hóflegan vinnutíma ungmenna

Árni fjallaði einnig nokkuð um aðra þætti Evrópulöggjafar á íslenskan vinnurétt, lög og reglur um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Tvær tilskipanir hefðu einkum vakið athygli og umtal en þær lutu að skipulagi vinnutíma og vinnuvernd barna og ungmenna. Vinnutími á Íslandi hefði verið allt of langur en hefði styst undanfarin ár. Tilskipunin um vinnuvernd barna og ungmenna hefði raunar gengið þvert á þau viðteknu viðhorf á Íslandi að hæfileg þátttaka unglinga í atvinnulífinu væri af hinu góða. Ráðherrann sagðist þó telja að allgóð sátt hefði tekist um framkvæmd þeirrar tilskipunar sem heimilaði hóflega vinnu ungmenna.

Vaxandi áhrif Norðurlandaþjóða í ESB á sviði félags og vinnumála

Árni sagði að áhrif Norðurlandaþjóða Evrópusambandinu á sviði félags- og vinnumála hefði aukist og væru ef til vill sönnun fyrir auknum áhrifum þeirra í ESB. Sú róttæka breyting á tilurð Evrópulöggjafar á sviði félags- og vinnumála, sem átt hefði sér stað á allra síðustu árum undirstrikaði mikilvægi þess að íslensk heildarsamtök á vinnumarkaði tækju virkan þátt í Evrópusamstarfinu.

Litið til framtíðar

Árni sagði að á næstunni myndi reyna á hvort heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins næðu samningum um að innleiða tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2002 um upplýsingar og samráð við starfsmenn í fyrirtækjum. Sú tilskipun legði þær skyldur á herðar atvinnurekenda að upplýsa starfsmenn m.a um fjárhag og afkomu fyrirtækis og sennilega framvindu á því sviði og hvort hugsanlegur samdráttur gæti leitt til uppsagna starfsmanna. Hann sagðist hafa gefið heildarsamtökum aðila vinnumarkaðarins frest til loka júní til að ná samkomulagi um framkvæmd tilskipunarinnar ella yrði lagafrumvarp samið á vegum félagsmálaráðuneytisins og lagt fyrir Alþingi næsta haust.

Félagslegt réttlæti fylgi auknu frelsi fjármagns

Þá fór Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, nokkrum orðum um róttækar breytingar sem orðið hefðu á efnahagslífi heimsins. Við Íslendingar hefðum ekki farið varhluta af alþjóðavæðingunni og frjálsu flæði fjármagns en í hans augum væri ljóst að aldrei yrði sátt um aukið frelsi fjármagns nema því fylgdi félagslegt réttlæti. Þar bæru fyrirtækin ákveðna ábyrgð og yrðu að axla hana. Við þessar aðstæður hefðu rótgróin fyrirtæki skipt um eigendur og bankar væru orðnir virkir þátttakendur í íslensku atvinnulífi með eignarhaldi sínu og beinum afskiptum. Það væri reyndar raunverulegt umhugsunarefni með hvaða hætti starfshættir viðskiptabankanna hefðu breyst á undanförnum árum og spurði sem svo hvort eðlilegt væri að einstakir viðskiptabankar verðu mestum kröftum sínum og fjármunum að brytja niður fyrirtæki í íslensku viðskiptalífi til hagnaðar fyrir sjálfa sig. Merki væru um hringamyndun í viðskiptalífinu og umsvif einstakra aðila í atvinnulífinu væru að hans mati a.m.k. á mörkum þess að standast siðferðilega mælikvarða.

Mikilvægt að stjórnmálamenn standi vaktina

Undir lok ræðu sinnar sagði Árni m.a. að eitt mikilvægasta hlutverk stjórnmálamanna um þessar mundir væri að standa vaktina. Ábyrgð þeirra væri mikil en ábyrgð þeirra sem hann hefði fjallað um væri ekki minni. Stjórnmálamenn þyrftu að vera á varðbergi og yrðu það. Íslenska þjóðin þyrfti sömuleiðis að veita hinum nýju valdhöfum aðhald. Þeir ættu ekki að fá tæki-færi til að ofbjóða þjóðinni og sitja á einhvers konar friðarstóli.

Sjá nánar erindi Árna á Iðnþingi 2004

Þóra Kristín Jónsdóttir tók saman