Fjárfestingar og fjármagnsflutningar

- Útdráttur úr erindi Bjarna Ármannsonar, forstjóra Íslandsbanka, á Iðnþingi

Bjarni Ármannson sagði m.a. að á þeim 10 árum sem liðin væru síðan samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tók gildi hér á landi hefðu orðið gífurlegar breytingar á fjármálalífi á Íslandi. Frjálsir fjármagnsflutningar og opnara viðskiptaumhverfi hefði skapað grundvöll fyrir einu mesta framfaraskeiði í sögu lands og þjóðar.

Bjarni Ármannson sagði m.a. að á þeim 10 árum sem liðin væru síðan samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tók gildi hér á landi hefðu orðið gífurlegar breytingar á fjármálalífi á Íslandi. Frjálsir fjármagnsflutningar og opnara viðskiptaumhverfi hefði skapað grundvöll fyrir einu mesta framfaraskeiði í sögu lands og þjóðar.

Þennan tíma mætti helst bera saman við það framfaraskeið sem hófst fyrir réttum hundrað árum með heimastjórn á Íslandi og í kjölfar þess stofnun Íslandsbanka hins gamla og Fiskveiðisjóðs ári síðar. Þá hefði erlent fjármagn streymt inn í landið og grundvöllur lagður að þeim ótrúlegu efnahagsframförum sem Íslendingar áttu eftir að njóta á 20. öld.

Breytingar á fjármálamarkaði á sl. 10 árum

Bjarni sagði m.a. skipta mætti sl. tíu árum í þrjú tímabil - afnáms hafta, einkavæðingar og hagræðingar. Á árunum 1993-2004 hefðu orðið merkileg þáttaskil við stofnun millbankamarkaðar með gjaldeyri, fullu frjálsræði fjármagnshreyfinga til langs og skamms tíma og loks með lögum um beina erlenda fjárfestingu. Hins vegar stæðu enn nokkrar hindranir eftir svo sem bann við fjárfestingum erlendra aðila í sjávarútvegi. Árið 1998 hefði hafist tímabil einkavæðingar og minnkandi ríkisumsvifa á samkeppnismarkaði sem lyktaði með einkavæðingu ríkisbankanna í áföngum og þar með hefðu verið stigin mjög stór skref í einkavæðingu fjármálakerfisins á Íslandi þótt stærsti lánveitandi landsins, Íbúðalánasjóður, væri enn í höndum ríkisins. Tímabil hagræðingar Bjarni sagði rökrétt að í framhaldi af einkavæðingu tæki við tímabil hagræðingar. Reyndin væri sú að lítil hagræðing hefði átt sér stað í bankakerfinu í kjölfar einkavæðingar og tækifæri til lækkunar kostnaðar væru takmörkuð. Því væri ástæða til þess að brýna fyrir stjórnvöldum að standa vörð um þann árangur sem náðst hefði á undanförnum árum.

Breytingar í hagstjórn

Ljóst væri að ekki hefði verið nóg að opna landið fyrir erlendri samkeppni og aðlaga löggjöfina. Fleira hefði þurft til að íslenskt efnahagslíf stæðist samkeppni í hinu alþjóðavædda umhverfi. Brýnt hefði verið að hið opinbera skapaði skilyrði fyrir stöðugleika í íslensku efnahagslífi og tryggja þurfti að verðbólgan færi ekki af stað á ný og mikilvægt að laga umgjörð peningastefnunnar að breyttum aðstæðum. Kerfi fastgengis hefði ekki hentað í umhverfi frjálsra fjármagnsflutninga og því var að flotgengiskerfi tekið upp og Seðlabankanum sett verðbólgumarkmið. Með þessu hefði verið lögð áhersla á stöðugleika í verðlagsmálum. Hagkerfið og vinnumarkaðurinn hefðu tekið miklum breytingum og menntakerfið þurfti að mæta því með aukinni fjölbreytni og samkeppni og miklar framfarir hefðu átt sér stað á því sviði á undanförnum árum.

Aukið flæði fjármagns

Bjarni sagði m.a. að flæði fjármagns inn og út úr landinu hefði aukist mikið frá því að opnað var fyrir aukið frjálsræði á því sviði. Eignasafn innlendra aðila væri dreifðara en áður var og ávöxtun ætti að vera tryggari til lengri tíma litið. Innlendir fjárfestar hefðu einnig fjárfest beint í erlendum rekstri og erlendir í innlendum. Þetta hefði fært með sér verðmæta reynslu og þekkingu á báða vegu.

Hagkerfið betur sett en áður

Opnun hagkerfisins og breytt umhverfi fjármagnsmarkaðar og hagkerfisins í heild með aðild Íslands að EES-samningnum hefði ekki síst lýst sér í hækkun á virði innlendra fyrirtækja. Úrvalsvísitalan hefði sexfaldast á þessu tíu ára tímabili og raunvaxtastigið gerbreyst. Nú væru raunvextir um helmingi lægri en við gildistöku samningsins og ættu enn eftir að lækka. Verðbólga hefði að jafnaði verið um 3% sl. 10 ár og teldist hófleg í samanburði við áratugina á undan. Stöðugleikinn skapaði mikla möguleika á hagvexti með aukinni framleiðni og meiri kaupmætti. Hagvöxturinn og kaupmáttaraukningin hér á landi sl. tíu ár sýndu að breytingarnar, sem gerðar hefðu verið á innlendu efnahagslífi samhliða aðild að EES-samningnum, hefðu skilað þjóðinni miklum ábata.

Styrkur og veikleiki felast í smæð landsins

Bjarni sagði að í smæð Íslands fælust bæði styrkur og veikleiki. Lítill heima markaður setti innlendum vexti skorður og erfiðara væri að auka hagkvæmni með stækkun. Þetta væri ein ástæða þess að íslenskt efnahagslíf snerist að verulegu leyti um útflutning og útrás inn á stærri markaði erlendis. Smæðin hindraði einnig vöxt fyrirtækja af samkeppnisástæðum. Því væri ljóst að þegar kæmi að innviðum hagkerfisins gæti smæðin verið dýr. Hins vegar hefði lítið samfélag aðra kosti sem þau stærri og svifaseinni skorti.

Litið fram á veginn

Bjarni sagði Íslendinga geta horft bjartsýnum augum fram á veginn. Fyrst þyrfti að ljúka því verki sem hafið var fyrir 10 árum og stíga skrefið til fulls í átt frjálsræðis og hagræðingar en brýnast væri þó að stjórnvöld einbeittu sér að trúverðugleika í peningamálum og ríkisfjármálum. Það skapaði skilyrði fyrir lækkun raunvaxtastigs og þar með greiðslubyrði almennings af húsnæðislánum. Hagaræðið fælist ekki í ríkisábyrgð af slíkum skuldbindingum. Þótt við hefðum lagað umhverfi okkar að mestu að innri markaði ESB stæðum við enn utan þess og brýnt væri að við nýttum þá stöðu okkur til hagsbóta og frekari ávinnings. Með skattalækkun fyrirtækja hefði t.d. verið skapað hagfellt umhverfi fyrir viðskiptalífið og þar með góð almenn lífskjör í landinu. Skapa þyrfti grundvöll fyrir framtak einstaklinga og skilyrði til vaxtar og viðgangs fyrirtækja.

Sjá nánar um erindi Bjarna á Iðnþingi 2004.

Þóra Kristín Jónsdóttir tók saman