Staða smáríkja í Evrópusamstarfi

- Útdráttur úr erindi Einars Páls Tamimi, lektors í HR, á Iðnþingi

Einar Páll sagði m.a. að mikilvægt væri að gera sér grein fyrir því að staða smáríkja í Evrópusamstarfinu og borgara þeirra hefði ekki þróast með sama hætti óháð því hvort þau tilheyra ESB eða EFTA. Reyndar væri munurinn svo mikill að rétt væri að fjalla um hina ólíku stöðu hvora í sínu lagi.

Einar Páll sagði m.a. að mikilvægt væri að gera sér grein fyrir því að staða smáríkja í Evrópusamstarfinu og borgara þeirra hefði ekki þróast með sama hætti óháð því hvort þau tilheyra ESB eða EFTA. Reyndar væri munurinn svo mikill að rétt væri að fjalla um hina ólíku stöðu hvora í sínu lagi.

Einar Páll sagði að fyrir tilkomu Maastricht samningsins hefði flestar mikilvægar ákvarðanir í Efnahagsbandalaginu þurft að taka með einróma ákvörðun í ráðherraráðinu. Þar sem meirihluta var ætlað að ráða hefði framkvæmdin verið sú að meirihlutavaldi hafði ekki verið beitt ef eitt aðildarríki lýsti því yfir að um mikilvæga hagsmuni þess væri að ræða. Á þeim tíma hafði ráðherraráðið verið nánast einvaldur þegar kom að löggjöf í EB. Í reynd hefði hvert og eitt aðildarríki þess í raun haftneitunarvald í flestum mikilvægum málum, annaðhvort að lögum eða í raun. Staða smáríkja hefði því verið mjög hagstæð en breyttist í veigamiklum atriðum þegar Maastricht samningurinn kom til sögunnar. Fram að þeim tíma hefði vægi smáríkja í EB verið úr hófi fram mikið og ekki í neinu samræmi við pólitískan og efnahagslegan styrk þeirra að ekki væri talað um íbúafjölda.

Aukin völd þingsins áfall fyrir smærri ríki ESB

Einar Páll sagði að Maastricht samningurinn hefði breytt þessu landslagi í veigamiklum atriðum. Þeim málaflokkum, þar sem meirihlutavald réð úrslitum við atkvæðagreiðslu í ráðherraráðinu fjölgaði mjög og Evrópuþingið hefði fengið neitunarvald gagnvart löggjöf af ýmsu tagi. Hin auknu völd þingsins urðu nokkurt áfall fyrir stöðu smærri ríkja innan þess sem þá orðið hét Evrópusambandið enda þingmenn þeirra sárafáir samanborið við þingmenn stærri ríkja. Einar taldi að stækkun Evrópusambandsins og ríkjandi viðhorf þess bentu öll í sömu átt og þróun síðustu ára héldi áfram og málaflokkar, þar sem einstök ríki hefðu neitunarvald og þar sem þingið væri áhrifalaust, týndu tölunni á endanum.

Minnkandi völd smáríkja ekki tengd efnahag þegnanna

Einar Páll taldi athyglisvert að minnkandi áhrif smáríkjanna virtust ekki endurspeglast í versnandi efnahag borgara þeirra. Þannig virtust hin pólitísku áhrif ríkjanna í Evrópusambandinu ekki vera með neinum hætti tengd efnahagslegri afkomu þegnanna og nefndi Lúxemborg og Finnland sem nærtæk dæmi. Efnisleg velferð borgara einstakra ríkja réðist því fyrst og fremst af því hvernig fyrirtækjum í ríkjunum hefði tekist að hagnýta innri markaðinn sér til hagsbóta. Mikil áhersla lögð á smá og meðalstór fyrirtæki Einar Páll sagði enn athyglisverðara að undanfarin ár hefðu tilteknir þættir í stefnu ESB orðið smáríkjunum hlutfallslega hagfelldari en stærri ríkjunum. Í smærri ríkjunum væru fyrirtæki að jafnaði minni en í þeim stóru. Smærri ríkjunum hefði orðið til sérstakra hagsbóta að ESB sneri af þeirri braut að leggja sérstaka áherslu á stórfyrirtæki sem gætu gert ESB samkeppnishæft á alþjóðamörkuðum. Nú væri allt gert til að smá og meðalstór fyrirtæki gætu þrifist og blómstrað enda ekki ný sannindi að stærsti hluti þjóðarframleiðslu yrði til í slíkum fyrirtækjum.

Smáríki í ESB ekki með öllu áhrifalaus

Þegar metin væri staða smáríkjanna sjálfra, annars vegar í Evrópusambandinu en hins vegar í EFTA, blasti við að áhrif þeirra á ákvarðanatöku um þær reglur sem gildi í ESB og gjörvöllu Evrópska efnahagssvæðinu, hefðu minnkað verulega frá því í aðdraganda EES-samningsins og á fyrstu árum hans. Helstu beinu áhrif smáríkjanna í ESB fælust í að öðru hverju lentu þau í oddaaðstöðu þegar reynt væri að ná saman svonefndum vegnum meirihluta í ráðinu. Vegna þessa reyndu stærri ríkin í ESB að hafa smáríkin góð með því að taka sérstakt tillit til mikilvægra hagsmuna þeirra og reyndu að ná samkomulagi um sem flest atriði. Þannig væru smáríkin ekki algerlega áhrifalaus þar sem þau sætu við borðið og gætu tekið þátt í pólitískum hrossakaupum.

Pólitísk staða smáríkja hefur versnað en efnahagur þeirra batnað

Einar Páll sagði að það sem eftir væri af áhrifum smáríkjanna í ESB kristallaðist hins vegar í algeru áhrifaleysi smáríkjanna í EFTA. Þau kæmu hvergi nærri borðinu og hefðu engin atkvæði til að versla með í ráðinu. Þau nytu engrar tillitssemi sem hugsanlegir handhafar atkvæða sem fellt gætu mál fyrir stærri ríkjum síðar og hefðu ekki önnur tromp á hendi. Þannig hefði staða smáríkja bæði í ESB og EFTA versnað í Evrópusamstarfinu en sýnu meira í EFTA. Spurningin væri hins vegar hvort þetta skipti nokkru máli og hvort ekki ætti frekar að horfa til hagsmuna borgaranna en hagsmuna ríkja. Væri það gert benti allur raunhæfur samanburður í tíma og rúmi til þess að efnahagur þeirra hefði batnað umfram hag borgara stærri ríkjanna. Staða smáríkja í ESB hefði óneitanlega breyst en ekki endilega versnað en slæm staða EFTA borgara hefði breyst í óásættanlega stöðu hvað varðaði lýðræðislega þátttöku í stjórnkerfinu sem þeir væru settir undir. Íbúar í smáríkjum ESB gætu vel unað við sinn hlut en hvað varðaði íbúa smáríkja EFTA væri þeim, sem fyndist efnahagsleg velferð mikilvægari en lýðræði, engin vorkunn en þeir, sem legðu áherslu á þátttöku í stjórn eigin málefna, gætu vart verið með öllu ánægðir.

Sjá nánar um erindi Einars á Iðnþingi 2004.

Þóra Kristín Jónsdóttir tók saman