• Hans Skov Christensen

Útdráttur úr erindi Hans Skov Christensen, framkvæmdastjóri Dansk Industri

Mikilvægt að færa sér hnattvæðinguna í nyt

Útdráttur úr erindi Hans Skov Christensen, framkvæmdastjóri Dansk Industri, á Iðnþingi 2006

Hans Skov Christensen sagðist þakklátur fyrir að fá að deila hugmyndum sínum og reynslu af því sem felst í hnattvæðingunni. Hann sagði m.a. augljóst að bæði norræn og önnur evrópsk iðnfyrirtæki sjái fram á mikla ögrun um þessar mundir. Brýnt sé að öll samtök iðnfyrirtækja leggi sig fram um að gera bæði almenningi og stjórnmálamönnum sem best ljóst hvernig þau tækifæri, sem felast í hnattvæðingunni, nýtist sem best.

Hans Skov sagði að skoðanakannanir sem gerðar voru í Danmörku fyrir hálfu öðru ári hafi leitt í ljós almenningi fyndist hnattvæðingin ógnvekjandi. Tveir af hverjum þremur Dönum hefðu viljað að stjórnmálamenn stöðvuðu hnattvæðinguna. Það hefði þó hvorki verið æskilegt né gerlegt. Þess vegna afréðu Samtök danskra iðnfyrirtækja að breyta afstöðu almennings til málsins.

Hans Skov gerði að umræðuefni skýrslu DI: „Ready for Globalization“ þar sem Ísland fékk góðaeinkunn. Hann sagði að Íslendingum hefði tekist að skapa heilbrigt viðskiptaumhverfi sem hefði leitt til mikils hagvaxtar og aukinnar velmegunar. Auk þess væri atvinnustigið hátt hér á landi eða um 90% sem væri mjög athyglisvert. Í Danmörku væri atvinnuþátttakan um 82% en auk þess hefði Íslendingum tekist að halda 82% þeirra sem eru á aldrinum 55-65 ára á vinnumarkaði en í Danmörku væru aðeins 58% fólks á  þeim aldri enn á vinnumarkaði.

„Síðast en síst hafa umbætur í skattamálum átt einna mestan þátt í að efla viðskiptalífið og auka hagvöxt hér á landi á sl. 10 árum og gert Íslendingum kleift að ná fótfestu erlendis og auka áhuga erlendra fjárfesta á að fjárfesta hér á landi.“

Styrkur Dana fælist hins vegar ekki síst í miklum sveigjanleika á vinnumarkaði en hann hefði náðst með samningum milli aðila vinnumarkaðarins og án nokkurra afskipta stjórnmálamanna enda spilltu þeir yfirleitt gagnkvæmum trúnaði í slíkum samningum. Lagasetning hefði verið óþörf til að ná umræddum sveigjanleika sem væri fyrirtækjum nauðsyn til að geta lagað sig að breyttum aðstæðum og nýjum tækifærum.

Hans Skov dró ekki dul á að fjölmiðlar hefðu átt sinn þátt í neikvæðri afstöðu Dana til hnattvæðingarinnar með því að einblína á neikvæðar hliðar hennar og því hefði verið nauðsyn að breyta. „Við verðum að auka skilning á að hnattvæðingin er jákvæð og kemur okkur öllum við,“ sagði Hans Skov. Þess vegna ákvað Dansk Industri að taka þátt í að marka stefnu til að bregðast við hnattvæðingunni og ráðast í átak til að breyta afstöðu almennings til hennar. Nokkrir þjóðfrægir Danir lögðu átakinu lið m.a. með því að segja álit sitt á hnattvæðingunni  og fyrirtæki buðu almenningi í heimsókn til að ræða málin. Ennfremur voru skipulagðir fundir með hluthöfum sem fengu að taka þátt í stefnumótun um hvernig bregðast skyldi við hnattvæðingunni. „Átakið þótti takast afar vel  en ekki síst vegna þess að áhugi fjölmiðla vaknaði og í kjölfarið breyttist afstaða þeirra til muna. Nú birtast fleiri jákvæðar frásagnir í fjölmiðlum af tækifærum erlendis en nokkru sinni fyrr og það hefur líka orðið til að breyta afstöðu almennings til hnattvæðingarinnar.“ 

Hans Skov taldi mikilvægt að almenningur í hverju landi fái að taka þátt í opinberri umræðum til að skapa skilning á því verkefni sem við blasir  að laga sig að og bregðast stöðugt við nýjum aðstæðum. „Aðalatriðið er að  líta á hnattvæðinguna sem tækifæri en ekki ógnun og færa sér hana í nyt í stað þess að  óttast hana,“ sagði Hans Skov Christensen.

Glærur Hans Skov Christensen (á PDF sniði)