Ályktun Iðnþings 2006
Atvinnustarfsemi er undirstaða velferðar hvers þjóðfélags. Mikilvægast er að efnahagslegur stöðugleiki sé tryggður með náinni samvinnu ríkis, sveitarfélaga og Seðlabanka. Öll ríki keppast um að búa atvinnulíf sitt sem best undir að takast á við hnattvæðinguna og nýta þau tækifæri sem í henni felast. Stjórnvöld og samtök í atvinnulífi þurfa í sameiningu að móta stefnu um þróun atvinnulífsins í opinni og óheftri samkeppni framtíðarinnar. Hvorki stjórnvöld né samtök eiga hins vegar að mæla fyrir um hvaða atvinnurekstur á að stunda eða hafa bein afskipti af honum. Enn síður á hið opinbera að sinna verkefnum sem eru betur komin hjá einkaaðilum og gætu þar leitt til meiri ávinnings fyrir báða aðila. Hlutverk stjórnvalda er að skapa starfsskilyrði til að hér verði framsækið og samkeppnishæft atvinnulíf sem skilar miklum virðisauka. Leggja ber áherslu á að laða hingað til lands og halda fast í störf sem skapa nauðsynleg verðmæti til að standa undir þeim kröfum sem við gerum um laun og lífskjör.
Arðsemi og samkeppnishæfni eiga að ráða hvaða atvinnustarfsemi er stunduð hér á landi og stjórnvöld verða að gæta jafnræðis og forðast sértækar aðgerðir sem valda misvægi í atvinnulífinu. Mistök í sameiginlegri hagstjórn ríkis, sveitarfélaga og Seðlabanka eiga stærstan þátt í þeim vanda sem samkeppnis- og útflutningsgreinarnar eiga við að etja. Því er rangt að stilla hátækni og stóriðju upp sem andstæðum eins og borið hefur á undanfarið.
Stoðkerfi atvinnulífsins þarf að taka til endurskoðunar. Það á að vera almennt og gegnsætt. Sértækar aðgerðir til stuðnings atvinnulífi sem byggjast á mismunun fyrirtækja eftir staðsetningu eða atvinnugreinum, eru hvorki vænlegar til árangurs né í takt við tímann. Markmiðin eiga að vera skýr og samræmd. Einingarnar eiga að vera nægilega öflugar til þess að sinna hlutverki sínu og verkaskipting skýr milli þriggja stoða sem eru styrkjakerfi, ráðgjöf og áhættufjárfestingar. Endurskipulagningin á að hvíla á hornsteinum á borð við Tækniþróunarsjóð og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Halda á áfram að efla Nýsköpunarsjóð og auka sjálfstæði hans undir stjórn atvinnulífsins. Lagst er gegn öllum hugmyndum um að leggja sjóðinn undir nýja ríkisstofnun.
Hverfa verður frá hólfaskiptingu stjórnarráðsins sem ber svip af atvinnulífi liðinnar aldar. Eitt atvinnuvegaráðuneyti þarf til að auka skilvirkni í stoð- og starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja. Núverandi skipan er löngu úrelt, hefur margvísleg neikvæð áhrif á ákvarðanir stjórnvalda og veldur skaða og mismunun í atvinnulífinu.