• Vilmundur Jósefsson formaður SI 2000-2006

Erindi fráfarandi formanns SI á á Iðnþingi 2006

Nýsköpun í hnattvæddum heimi - Framtíðarsýn fyrir atvinnulífið

Erindi Vilmundar Jósefssonar fráfarandi formanns Samtaka iðnaðarins á Iðnþingi 17. mars 2006.

Góðir félagsmenn Samtaka iðnaðarins, forsætisráðherra, iðnaðarráðherra, framkvæmdastjóri Dansk Industri og aðrir gestir.

Ákveðum hvert við ætlum

Efni þessa Iðnþings er eins og oft áður helgað því sem framundan er og hvernig best er að takast á við breytingar og færa sér þær í nyt. Í dag verður rætt um framtíðarsýn fyrir atvinnulífið og gildi nýsköpunar í nýrri veröld sem kennd er við hnatt- eða alþjóðavæðingu. Okkur hjá Samtökum iðnaðarins er tamt, og hefur gefist ákaflega vel í störfum okkar , að gefa okkur tíma til þess að staldra við, horfa fram á veginn og koma okkur saman um hvað við viljum og höldum að framtíðin beri í skauti í sér. Síðan ákveðum við hvernig við ætlum að bregðast við og hvaða verkefni þarf að vinna til að framtíðarsýn okkar geti orðið að veruleika.

Sömu vinnubrögð þarf að taka upp í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs. Ákveða þarf hvert við viljum stefna, hvernig atvinnulífið á að þróast á næstu árum og móta síðan framkvæmdaáætlun um hvernig best verði tryggt að starfsskilyrði hér verði þannig að íslensk fyrirtæki geti byggt upp starfsemi hér á landi ekki síður en í öðrum löndum. Hér er enga tryggingu hægt að kaupa frekar en í annarri samkeppni. Hvorki stjórnvöld né samtök eiga að mæla fyrir um hvaða atvinnu­rekstur á að stunda eða hafa afskipti af honum og þaðan af síður á hið opinbera að fást við verkefni sem eru betur komin hjá einkaaðilum. Við eigum að sammælast um að hér verði til þjóðfélag sem tryggir þegnum sínum hagsæld sem byggist á framsæknu og samkeppnishæfu atvinnulífi sem getur staðist öðrum snúning hvað varðar viðskipti með vörur og þjónustu sem skila miklum virðisauka.

Harður slagur

Allar nágrannaþjóðir okkar keppast um að auka menntun og rannsóknir og gæta þess jafnframt að almenn starfsskilyrði fyrir atvinnurekstur séu sem allra best og alls ekki lakari en í nágranna- og samkeppnislöndum. Höfuðáherslan er lögð á að skapa sem flest hátæknistörf þar sem verðmætasköpunin stendur undir þeim kröfum sem við gerum um laun og lífskjör. Fyrirtæki í framleiðslu og þjónustu í ólíkum löndum eiga í harðri og óheftri samkeppni sín á milli. Um leið eiga ríkin sjálf, með sín fjarskipta- fjármála-, mennta- og skattkerfi, í harðri samkeppni um fjárfestingar, framleiðslu, fjármagn og fólk.

Gerist ekki af sjálfu sér

Meðal þeirra spurninga, sem við Íslendingar þurfum að spyrja okkur, eru þessar: Hvernig ætlum við að standa að því að treysta sveigjanleika á vinnumarkaði, auka hér verk- og tæknimenntun, efla rannsóknir og þróunarstarf, stuðla að nauðsynlegri nýsköpun, tryggja okkur aðgang að erlendum mörkuðum til frambúðar og síðast en ekki síst að tryggja stöðugleika í verðlagi og gengisskráningu og eðlilegt vaxtastig? Þetta gerist ekki af sjálfu sér en gerist það ekki hverfa fyrirtækin úr landi. Því miður fara þau bestu fyrst. Þá höfum við orðið undir í samkeppninni um verðmætustu störfin sem við þurfum mest á að halda. Þá hefur útrásin breyst í flótta, fyrst og fremst vegna hágengis og hárra vaxta. Það er algert forgangsverkefni að draga úr þessum sveiflum með öllum tiltækum ráðum.   Í þessu felst stærsti vandi okkar og um leið mesta hætta í hörðum heimi hnattvæðingarinnar.

Hér á eftir verður fróðlegt að heyra eftir hvaða sýn forsætisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafa í þessum efnum og ekki síður hvaða tökum Danir hafa tekið þessi mál en Hans Skov Christensen, framkvæmdastjóri Dansk Industri, hefur tekið virkan þátt í því starfi. Þeir setja markið hátt og hafa lýst því yfir að Danmörk eigi að verða samkennishæfasta samfélag í heimi árið 2015.

Alþjóðaviðskipti eru okkur nauðsyn

Við blasir að vöxtur stærstu og öflugustu fyrirtækja okkar hefur byggst á því að þau gátu leitað út fyrir landsteinana. Þetta er í daglegu tali nefnd útrás íslensks atvinnulífs og varla er nokkur maður sem dregur í efa að hún sé af hinu góða. Fyrir íslensk fyrirtæki er það að sjálfsögðu fyrst og fremst aðgangur að markaði milljónaþjóða sem sóst er eftir en einnig tækni- og markaðsþekking, bein fjárfesting erlendis, erlend fjárfesting hér á landi og síðast en ekki síst fyrirtækja­rekstur og framleiðsla erlendis í öðru rekstrarumhverfi og hagstæðara en hér er að finna.

Okkur hentar það sama og öðrum

Enginn vafi leikur á að atvinnulíf okkar hefur tekið stakkaskiptum hin síðari ár og ekki síður að hugarfar þjóðarinnar gerbreyttist með EES-samningnum fyrir 12 árum. Flestir eru nú sannfærðir um að almennar leikreglur Evrópusambandsríkja henta okkur og fyrirtækjum okkar ekki síður en þeim.

Margir góðir kostir við Ísland, en . . .

Allar kannanir sýna að lítið atvinnuleysi og sveigjanlegur vinnumarkaður er helsti styrkur okkar. Úrbætur á skattaumhverfi íslenskra fyrirtækja eru stórt skref í þá átt að gera Ísland að álitlegum stað til að fjárfesta og stunda atvinnurekstur. Sama er að segja um aðgang okkar að innri markaði ESB, aukna menntun þjóðarinnar og mikinn frumkvöðlaanda og kraft sem í þjóðinni býr.

Hins vegar fæla aðrir þættir frá og þar vegur áreiðanlega langþyngst hin óstöðuga og sveiflukennda mynt okkar. Undanfarið hafa svokölluð ruðningsáhrif verið mjög til umræðu. Þau eru nú eignuð stóriðjuframkvæmdum og áhrifum þeirra en flest bendir til þess að innstreymi fjármagns vegna þessara miklu fjárfestinga sé einungis hluti af skýringunni. Ruðningsáhrif eru ekki nýtt fyrirbæri á Íslandi því að árum og áratugum saman olli uppsveifla í sjávarútvegi því að raungengi krónunnar hækkaði upp úr öllu valdi og strádrap iðnaðinn. Nú er fjárfesting í iðnaði talin undirrót hágengis sem allt er að drepa í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Sams konar áhrif ruddu fólkinu á árum áður úr sveitinni til útgerðarbæjanna þar sem verðmætasköpun var meiri og þar með hægt að standa undir betri launakjörum og lífskjörum en í sveitinni.

Sambúð stóriðju og hátækniiðnaðar

Íslenskur hátækniiðnaður á undir högg að sækja um þessar mundir. Starfsskilyrði iðnaðarins eru erfið og gætt hefur flótta fyrirtækja úr greininni eftir að hafa vaxið með undraverðum hætti sl. 10-15 ár. Á síðustu árum hefur verið mikil uppbygging í ál- og orkuiðnaði. Margir andstæðingar stóriðjunnar telja að þarna á milli sé beint orsakasamband, þ.e. að stóriðjan ryðji hátækni úr landi. Að nokkru leyti má rekja sterkt gengi íslensku krónunnar til stóriðjuframkvæmda en þar kemur fleira til. Auk þess eru mörg önnur atriði í starfsskilyrðum hátækniiðnaðar sem brýnt er að lagfæra en þau tengjast hvorki stóriðju né háu gengi íslensku krónunnar. Hér má nefna endurgreiðslur á rannsókna- og þróunarkostnaði og fleiri atriði sem ég kem nánar að hér á eftir.

Samkeppnisiðnaður og hátækni eiga í vök að verjast

Gengisþróun síðustu misserin varð fyrirsjáanleg þegar ákvarðanir voru teknar í mars 2003 um stóriðju á Austurlandi. Þá þegar hefðu stjórnvöld átt að ráðast í mótvægisaðgerðir sem fólust í að bæta almenn starfsskilyrði annarra atvinnugreina sem vitað var að myndu eiga undir högg að sækja. Mistekist hefur að samstilla stefnu og aðgerðir ríkis, sveitarfélaga og Seðlabanka varðandi stjórn peningamála og útgjalda. Það hefur leitt til of sterkrar krónu og of hárra vaxta. Úr þessu verður að bæta. Þá er augljóst að starfskilyrði hátækniiðnaðar eru lakari en stóriðjunnar að því leyti að stjórnvöld hafa kappkostað að koma slíkum iðnaði á fót en á sama tíma hefur ekki verið hlúð nægilega að hátækniiðnaði.  Hér verður að gera bragarbót því að báðar þessar atvinnugreinar eru þjóðarabúinu mikilvægar og geta sem best stutt hvor við aðra.

Arðsemi ráði

Arðsemi og samkeppnishæfni eiga að ráða hvaða atvinnu­starfsemi er stunduð hér á landi og stjórnvöld verða að gæta gæta jafnræðis og forðast sértækar aðgerðir sem valda misvægi í atvinnulífinu. Það er rangt og ber að forðast að stilla atvinnugreinum upp sem óvinum eða andstæðingum eins og borið hefur á undanfarið með hátækni og stóriðju. Það er farsælast að láta markaðslögmálin ráða í hvaða atvinnurekstur er ráðist hverju sinni en það er sjálfsagt og eðlilegt að stjórnvöld stuðli að því með almennum hætti að jarðvegur fyrir starfsemi, sem skilar mestum virðisauka, verði sem frjósamastur og má þar benda á menntakerfið, hvata til rannsókna, þróunar og nýsköpunar.

Forskrift Norðurlandanna

Flestir eru sammála um að hingað til hafa Norðurlandaþjóðir staðið sig vel í harðnandi samkeppni sem hnattvæðingunni fylgir. Því er ekki að undra að samtök iðn- og atvinnurekenda á Norðurlöndunum ákváðu að fá hagfræðinga sína til að taka saman skýrslu um þetta efni sem fengið hefur heitið The Nordic Recipe for Global Success eða Forskrift Norðurlanda að árangri á heimsvísu. Hér gefst ekki tími til að rekja efni skýrslunnar en meginniðurstöðurnar má rekja í stuttu máli:

  •  Leggja þarf sérstaka áherslu á rannsóknir, þróunarstarf og nýsköpun innan fyrirtækja. Markmiðið er að auka framleiðni með allri  nýjustu tækni sem völ er á. Þannig verður til verðmætari framleiðsla þar sem verðmætasköpun á vinnustund getur staðið undir þeim launum og lífskjörum sem við gerum kröfur til.
  • Það þarf sveigjanlegan vinnumarkað með vel menntuðu fólki, ekki síst í verk- og tæknigreinum. Halda þarf launahækkunum innan eðlilegra marka. Þær mega ekki fara fram úr framleiðni- og virðisaukningu
  • Skatta- og bótakerfi eiga að fela í sér hvata til vinnu og menntunar. Umtalsverður munur þarf að vera á tekjum þeirra sem eru í starfi og hinna sem þiggja bætur. Vinna á að borga sig.

Innflutningur vinnuafls

Að undanförnu hefur verið hér á landi eitt mesta hagvaxtarskeið í sögu þjóðarinnar.  Um síðustu áramót voru 13.778 erlendir ríkisborgarar með lögheimili hér á landi eða 4,6% landsmanna. Áður en EES – samningurinn var gerður var sáralítið um að erlent vinnuafl leitaði hingað til lands.  Undanfarinn ártug hefur hlutur íbúa með erlent ríkisfang nær þrefaldast en þeir voru 1,8% þjóðarinnar árið 1996. Nú er hlutfall íbúa með erlent ríkisfang litlu lægra eða svipað og annars staðar á Norðurlöndunum.

Það er erfitt að ímynda sér hvers konar ástand hefði skapast hér á vinnumarkaði ef ekki hefði verið hægt að fá hingað til lands erlent vinnuafl við þessar aðstæður.  Mörg fyrirtæki innan Samtaka iðnaðarins hafa skipt við starfsmanna­leigur á undanförnum árum, einkum fyrirtæki í byggingariðnaði. Ólíkt því, sem margir halda, eru þær ekki nýtt fyrirbæri á evrópskum vinnumarkaði en á síðustu árum hefur þríhliða samband starfsmannaleigu, starfsmanns og notendafyrirtækis orðið ofan á sem form þessara samninga. Ekki síst vegna seinagangs og tregðu við afgreiðslu atvinnu- og dvalarleyfa.

Varað við réttaróvissu

Annmarkar þessa forms hafa komið fram hér á landi á síðustu misserum þar sem stjórnvöld hafa ekki sett skýrar reglur um skyldur og ábyrgð aðila í þessu sambandi.  Íslensk skattayfirvöld hafa kveðið upp úr um að notendafyrirtæki verði gerð ábyrg fyrir skattgreiðslum jafnvel þó að samningar við starfsmannaleigur kveði á um annað.  Í ljósi þessa gáfu Samtök iðnaðarins út viðvörun til aðildar­fyrirtækja sinna í nóvember 2005. Þar eru þau vöruð við því að skipta við starfs­manna­leigur vegna þessa skattalega umhverfis og bent á að öruggara sé að ráða starfsmenn beint. Þannig verður best komið í veg fyrir hugsanleg vandræði og óvænta bakreikninga. Nú fyrr í þessum mánuði féll dómur þar sem fyrirtæki með starfsmann frá starfsmannaleigu í sinni þjónustu var gert ábyrgt fyrir tjóni af völdum vinnuslyss.  Ný lög um starfsmannaleigur taka ekki á þessum vandamálum og virðist viðvörun Samtakanna því hafa átt fullan rétt á sér.  Þetta er hins vegar óþolandi réttaróvissa og ámælisvert að stjórnvöld skuli ekki taka hér af skarið með skýrum leikreglum.

Evrópumálin

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hefur hvatt til umræðu um aðild Íslands að ESB en þykir samtök atvinnurekenda heldur daufleg í þeim efnum. Kveður hér við heldur annan tón en hjá fyrirrennara hans, Davíð Oddssyni, sem verður varla sakaður um að hafa hvatt sömu samtök til dáða í þessum efnum.

Ég tek heilshugar undir með forsætisráðherranum að löngu er tímabært að hleypa krafti í umræðuna. Þar munu Samtök iðnaðarins ekki láta sitt eftir liggja frekar en hingað til. Skoðanir Samtaka iðnaðarins í þessum efnum eru skýrar og flestum kunnar. Þau telja hagsmunum Íslands best borgið með aðild að ESB og að evran verði tekin upp í stað íslensku krónunnar. Samtökin hafa ekki hrapað að þessari niðurstöðu og telja að umræðan á sínum vettvangi sé fullþroskuð en þau hafa alla tíð lagt sig fram um að efna til upplýstrar umræðu um Evrópumálin og lagt sitt af mörkum til þess að styrkja grundvöll þeirrar umræðu.

Það kann vel að vera rétt hjá forsætisráðherra að pólitískar forsendur til þess að taka ákvörðun um aðild Íslands séu ekki fyrir hendi á þessari stundu. Það bendir til þess að umræðan sé ekki nægilega þroskuð á vettvangi stjórnmálanna en þar getur Halldór Ásgrímsson gegnt lykilhlutverki sem oddviti ríkisstjórnarinnar.

Ég tel hins vegar að ekki sé eftir neinu að bíða. Við vitum alveg nóg um Evrópusambandið og evruna til þess að geta gert upp við okkur hvort aðild er æskileg eða ekki. Við munum hins vegar aldrei geta komist að því hvort samningar um aðild, sem við sættum okkur við, takist nema láta á það reyna með því að sækja um aðild og hefja samningaviðræður. Það þýðir ekki lengur að vera í sífelldum samningaviðræðum við sjálfan sig eða spyrja embættismenn í Brussel um hvað sé hægt og hvað ekki. Þeir svara auðvitað samkvæmt bókinni. Hitt hefur margsinnis verið bent á að í samningaviðræðum þar sem aðildarþjóðirnar koma að málum er oft gripið til málamiðlana eða nýrra textaskýringa til þess að ná samningum um aðild nýrra ríkja á forsendum sem eru ásættanlegar fyrir báða aðila. Á þetta verðum við að láta reyna – án þess komumst við aldrei að endanlegri niðurstöðu um hvort Ísland á heima í Evrópusambandinu eða ekki.

Uppbygging hátækni

Á undanförnum misserum höfum við hjá Samtökum iðnaðarins beitt okkur mjög fyrir umræðu og umbótum á starfsumhverfi hátæknifyrirtækja og nýsköpunar- og sprotafyrirtækja. Á síðasta Iðnþingi var lögð fram skýrsla um hátækni og einnig gerðu upplýsingatæknifyrirtæki stjórnvöldum tilboð um svokallaða Þriðju stoð. Við höfum haldið mörg hundruð manna fundi um framgang hátækniiðnaðar og lagt fram tillögur og áskorun til stjórnvalda. Nefnd iðnaðar- og viðskiptaráðherra  skilaði í lok síðasta árs hugmyndum sem varða nýsköpun og við höfum tekið heilshugar undir. Iðnaðarráðherra hefur talað fyrir því að tillögum nefndarinnar verði hrundið í framkvæmd. Við vitum að stjórnvöld hafa verið að skoða margt af því sem við höfum lagt til. Því er ekki að leyna að við vorum orðin býsna langeyg eftir því að stjórnvöld létu verkin tala og þess vegna er það gleðiefni að fyrr í þessari viku var tilkynnt að hrinda ætti í framkvæmd nokkrum mikilvægum þáttum.

Heimild til að nýta innskatt lengd úr sex árum í tólf

Ákveðið hefur verið að breyta reglugerð sem fjallar um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila þannig að lengdur verður tíminn sem aðilar í þróunarstarfi geta verið með fyrirfram skráningu á virðisaukaskattsskrá. Í stað sex ára verður hann nú lengdur í 12 ár. Breytingin mun ekki síst koma sér vel fyrir nýsköpunarfyrirtæki, sem byggjast á nýrri vísinda- og tækniþekkingu, en það tekur í flestum tilfellum mun lengri tíma en sex ár fyrir slík fyrirtæki að afla verulegra tekna.

Endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar

Meðal þeirra tillagna sem Samtök iðnaðarins hafa lagt mikla áherslu á að nái fram að ganga er fjárhagslegur hvati til rannsókna- og þróunarstarfs innan fyrirtækja líkt og Norðmenn, Svíar, Frakkar og fleiri hafa tekið upp. Að norskri fyrirmynd mætti koma á fót endur­greiðslu­kerfi vegna viður­kenndra rannsókna- og þróunar­verkefna. Endurgreiðslur geta numið allt að 20% kostnaðar en með tilteknu þaki. Skattkerfið verði nýtt í þessu samhengi þannig að þau fyrirtæki, sem greiða tekjuskatt, fá afslátt en þau sem ekki greiða skatt fá endurgreiðslur. Þetta kerfi hefur þann mikla kost að fela ekki í sér sértækar aðgerðir eða mismunun atvinnugreina eða landshluta. Kerfið er hlutlaust en felur í sér hvatningu til fyrirtækja til að leggja stund á rannsóknir og þróun og þar með nauðsynlega nýsköpun. Það eru því fyrirtækin sjálf sem ráða ferðinni um þau verkefni sem ráðist er í en ekki opinberar stofnanir eða háskólar. Þá hefur þetta kerfi þann kost að það hefur áhrif strax og mun  ekki kosta ríkissjóð mikið þegar upp er staðið. Stjórnvöld hafa ákveðið að fela sérstakri nefnd að skoða þessar hugmyndir og hljótum við að treysta því að hún vinni hratt og vel.

Lagfæringar á VSK kerfinu og útvistun verkefna

Við höfum sagt að gera þurfi tafarlausar úrbætur á virðisaukaskattkerfinu sem nú leiðir til óeðlilegs samkeppnisforskots opinberra stofnana og annarra þeirra sem eru utan virðis­aukaskatt­kerfisins. Fyrirtæki verða að leggja virðisaukaskatt á vörur sínar og þjónustu. Í sumum tilvikum fá opinberar stofnanir þann skatt (innskattinn) ekki endurgreiddan.  Í stað þess að kaupa þjónustu frá einka­fyrir­­tækjum er starfsemin byggð upp innan húss.  Virðisaukaskatturinn virkar þannig eins og 24,5% tollvernd fyrir tiltekna starfsemi á vegum opinberra aðila.  Mikill vöxtur opinberra tölvudeilda er ein afleiðing þessa.  Þessi þróun gengur í raun þvert á stefnu stjórnvalda um að bjóða út á sem flestum sviðum þróunar-, þjónustu- og rekstrarverkefni til fyrirtækja á almennum markaði og forðist þannig óskilvirka uppbyggingu innan eigin stofnana. Því miður hafa engin áform verið kynnt á þessu sviði.

Verk-, tækni-, og raungreinamenntun

Loks höfum við sagt að enn ríkari áherslu þarf að leggja á verk-, tækni-, og raungreinamenntun með markvissri uppbyggingu menntastofnana og fræðslu og áróðri sem miðar að því að hvetja til náms á þessum sviðum. Hátæknifyrirtækin þarfnast vel menntaðs starfsfólks í vaxandi mæli. Það er áhyggjuefni að þeim, sem leggja stund á tæknifræði, verkfræði og aðrar greinar raunvísinda, hefur fækkað hlutfallslega undanfarin ár.

Stuðningur við nýsköpun og atvinnuþróun

Endurskoðun á því kerfi, sem er ætlað að efla og styðja atvinnuþróun og nýsköpun, er löngu tímabær og því er það sérstakt fagnaðarefni að iðnaðar- og viðskipta­ráðherra skuli beita sér fyrir því um þessar mundir.

Við erum sammála iðnaðar- og viðskiptaráðherra um að sértækar aðgerðir til stuðnings atvinnulífi sem byggjast á mismunun fyrirtækja eftir staðsetningu eða atvinnu­greinum, eru hvorki vænlegar til árangurs né í takt við tímann. Stoðkerfi atvinnu­lífsins á að vera almennt og gegnsætt. 

Sameining atvinnuvegaráðuneyta

Hins vegar er hætt við að endurskipulagning stoðkerfis atvinnulífsins verði hvorki fugl né fiskur ef haldið verður áfram hólfaskiptingu stjórnarráðsins sem ber svip af samsetningu atvinnulífsins á árum áður. Fyrsta skrefið á þeirri braut ætti því að vera að setja á fót eitt atvinnuvegaráðuneyti til að auka skilvirkni í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja. Núverandi aðgreining er löngu úrelt, hefur margvísleg neikvæð áhrif á ákvarðanir stjórnvalda og veldur skaða og mismunun í atvinnu­lífinu.

 Þrjár stoðir – ein stefna

Af sama meiði eru hugmyndir okkar um að sameina rannsóknastofnanir atvinnulífsins í eina öfluga stofnun sem verður í nánu samstarfi við háskóla og fyrirtæki bæði á Íslandi og í útlöndum. Núverandi fyrirkomulag byggist á fortíð og er ekki til þess fallið að þjóna gjörbreyttu atvinnulífi eða stuðla að grósku innan nýrra greina.  Þarna er enn aðgreining á milli atvinnugreina og landshluta.  Á þessu mikilvæga sviði ráðgjafar og þjónustu fyrir atvinnulífið er enginn hornsteinn á borð við Tækniþróunarsjóð og Nýsköpunarsjóð til að byggja á.  Þarna er mest þörf fyrir uppstokkun.

Styrkjakerfið má byggja upp á þeim grunni sem Tækniþróunarsjóður er en hann þarf að efla meira og hraðar en nú er gert ráð fyrir. Á sama hátt er grunnur fyrir áhættufjárfestingar á frumstigi til staðar í Nýsköpunarsjóði.   Breyta þarf lögum um sjóðinn sem tryggja betur sjálfstæði hans og stöðugleika í starfsemi. Við teljum ekki skynsamlegt að steypa öllu stoðkerfinu saman í eina stofnun þar sem öllu verður grautað saman.

Þó að stuðningur við atvinnulífið verði, samkvæmt hugmyndum okkar, í stórum dráttum þrískiptur á hann að byggjast á einni stefnumótun og hugmyndir um að fela Vísinda- og tækniráði þá stefnumótun eru áhugaverðar.  Verði niðurstaðan sú þarf hins vegar að auka hlut atvinnulífsins í ráðinu.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Mér þykir rétt og nauðsynlegt að fjalla sérstaklega um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins en hann er fyrir margra hluta sakir sérstakur. Hann varð til með samkomulagi stjórnvalda og samtaka í iðnaði og sjávarútvegi þegar ákveðið var að gera róttækar breytingar á fjárfestingarlánasjóðum þessara atvinnugreina. Þó að í lögum um hann segi að hann sé sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins er það í raun einungis formsatriði þar sem ekki var hægt að benda á sérgreinda eigendur að gömlu fjárfestingarsjóðunum. Atvinnulífið fer samkvæmt lögum með meirihluta stjórnar sjóðsins og endurspeglar sú skipan fyrrgreint samkomulag um forræði atvinnulífsins yfir sjóðnum. Í Nýsköpunarsjóði hafa því mæst sjónarmið stjórnvalda og atvinnulífs um nauðsyn þess að bregðast sameiginlega við þeim markaðsbresti sem er á frumstigi áhættufjárfestinga.

Við hjá Samtökum iðnaðarins sperrum alltaf eyrun þegar við heyrum að ríkið segist eiga sjóðinn og geti gert við hann það sem því sýnist. Það er líka þreytandi að þurfa sífellt að takast á við nýja og óþreytta stjórnmála- og embættismenn sem vilja ráðskast með sjóðinn, ýmist rífa hann niður eða selja en þekkja ekkert til tilurðar hans og forsögu. Við teljum því tímabært að tryggja sjálfstæði hans enn frekar, t.d. sem sjálfseignarstofnunar eða hlutafélags. Við getum ekki sætt okkur við að sjóðurinn sé notaður sem skiptimynt þegar kemur að því að leysa vanda Byggðastofnunar.

Tilvist og starfsemi Nýsköpunar­sjóðs atvinnulífsins er ekkert einkamál stjórn­valda.  Starfsgrundvelli sjóðsins verður ekki breytt nema í fullri samvinnu og sátt við bakhjarla hans. Ég treysti því að þeir ráðherrar, sem hér eru staddir, sjái til þess. Annað væri rof á sáttagjörð stjórnvalda og atvinnulífs.

Að leiðarlokum

Ég hef notið þess að vera formaður í þessum sterku og mikilvægu samtökum í sex ár en þar á undan sat í ég í stjórn þeirra í önnur sex. Því má segja að ég hafi fylgst með þeim fram á fermingaraldur og tekið þátt í uppeldinu hingað til.

Það er með stolti sem ég lít til baka yfir farinn veg og þann árangur og miklu breytingar sem hafa orðið hjá Samtökum iðnaðarins en ekki síður í íslenskum iðnaði sem hefur gjörbreyst og eflst á þessum tíma. Það hefur ávallt verið samhentur hópur sem hefur stjórnað Samtökum iðnaðarins þó að þeir sem þar hafa setið hafi haft ólíkan bakgrunn og komið frá ólíkum fyrirtækjum. Þá hafa Samtök iðnaðarins á að skipa vaskri sveit starfsmanna sem hrindir í verk því sem stjórnin ákveður hverju sinni og þar fer fremstur í flokki framkvæmdastjórinn, Sveinn Hannesson.

Öllu þessu fólki kann ég bestu þakkir fyrir samstarfið og óska því, Samtökum iðnaðarins og íslenskum iðnaði velfarnaðar og hagsældar um langa framtíð.

 

Þökk fyrir