• Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra

Erindi iðnaðarráðherra á Iðnþingi 2006

Erindi Valgerðar Sverrisdóttar iðnaðar- og viðskiptaráðherra á Iðnþingi 17. mars 2006

Erindi Valgerðar Sverrisdóttar iðnaðar- og viðskiptaráðherra á Iðnþingi 17. mars 2006

Ágætu Iðnþingsgestir

I.

Í samræmi við yfirskrift Iðnþings 2006 - Framtíðarsýn fyrir atvinnulífið – nýsköpun í hnattvæddum heimi - mun ég að þessu sinni fyrst og fremst leggja áherslu á það stefnumótunarstarf sem unnið hefur verið að í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum og lýtur að eflingu íslensks atvinnulífs. Sú vinna hefur aðallega snúið að endurskipulagningu á öllu því stuðningsumhverfi atvinnulífsins sem fellur undir verksvið ráðuneytanna.

II.

Starfsemi rannsóknastofnana atvinnuveganna var í meginatriðum mótuð árið 1965 – eða fyrir 40 árum - þegar rannsóknastofnanir - iðnaðar, - landbúnaðar, - byggingariðnaðar og - fiskiðnaðar voru settar á stofn. Þar með hófst mikilvægt uppbyggingarskeið í rannsóknum með tilsvarandi framförum í nýsköpun atvinnulífsins, enda voru rannsóknir annarra en ríkisins litlar sem engar á þeim tíma. Þessar rannsóknastofnanirnar hafa síðan skilað drjúgu dagsverki og lagt mikið af mörkum til þróunar atvinnulífsins og efnahagslegra framfara á Íslandi.

Framhjá því verður þó ekki litið að starfsemi stofnanana hefur verið sniðin að þröngri skilgreiningu atvinnuvega sem ekki á alls kostar við í samfélagi nútímans - og hefur það hamlað þróun þeirra. Hér er að sjálfsögðu átt við hinar þrjár svokölluðu hefðbundnu atvinnugreinar, þ.e. iðnað, sjávarútveg og landbúnað. Nýjar atvinnugreinar hafa ekki fylgt þessari afmörkun og í raun hefur krafturinn verið hvað mestur í greinum sem gengið hafa þvert á þessa skiptingu, eins og upplýsingatækniiðnaður, líftækniiðnaður og ýmiss konar þjónusta, líkt og fjármálaþjónusta, eru gott dæmi um.

Áherslurnar og umfjöllunin hefur því breyst og á þeim rúmlega 6 árum sem ég hef verið iðnaðarráðherra hefur hugtakið iðnaðarstefna – ekki oft borið á góma. Aftur á móti hefur því meira verið fjallað um nýsköpun og tækniþróun, svo og áherslur í þágu einstakra greina, einkum þekkingargreina. Auðvitað hafa rannsóknastofnanirnar fylgt þessari þróun og aðlagað sig að nýjungum í vísindum og tækni og tekið upp nútímaleg stjórntæki.

En þrátt fyrir það er ljóst að unnt er að ná meiri árangri - og að því er stefnt. Það er einkum fernt sem knýr á um þetta.

- Í fyrsta lagi er þörf fyrir nýjar áherslur í rannsóknum og tækniþróun. Bráðnauðsynlegt er að skapa svigrúm fyrir rannsóknir á nýjum fræðasviðum sem munu hafa afgerandi áhrif á tækni- og atvinnuþróun næstu ára, eins og í efnis- og örtækni. Til að mæta þessu verður ríkinu að vera unnt að hætta að leggja áherslu á starfsemi sem aðrir geta sinnt, t.d. einkaaðilar.

- Í öðru lagi er mikilvægt að tengja saman rannsóknir sem nú eru dreifðar en gætu skapað samlegðaráhrif í meiri nálægð eða með sameiningu. Sameining matvælarannsókna hjá fjórum opinberum rannsóknastofnunum í eitt fyrirtæki er dæmi um slík samlegðaráhrif. Einnig myndi sameining Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins leiða til aukins árangurs fyrir framsæknar rannsóknir.

- Í þriðja lagi er þátttöku okkar í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum stefnt í hættu, eins og t.d. þátttaka í vísinda- og tækniþróunaráætlunum Evrópusambandsins, ef við styrkjum ekki rannsóknastofnanir okkar og gerum þær áhugaverðari samstarfsaðila fyrir sambærilega erlenda rannsóknaaðila og fyrirtæki.

- Í fjórða lagi eru kröfur íslensks atvinnulífs aðrar en áður og þarf að taka tillit til þess í opinberri stefnumótun og verkefnavali.

III.

Þótt rannsóknir og þróunarstarfsemi í þágu atvinnulífsins sé einn veigamesti hornsteinn opinbera stuðningskerfisins þá spannar það mun víðtækara svið. Hjá Iðntæknistofnun er starfrækt nýsköpunarmiðstöð undir heitinu IMPRA. Hún þjónar jafnt fyrirtækjum í rekstri sem frumkvöðlum sem vinna með nýsköpunarverkefni eða vilja stofna til fyrirtækjareksturs. Þessi starfsemi hefur reynst ákaflega vel og var hún því útvíkkuð fyrir fáeinum árum með rekstri Impru á Akureyri - til að geta betur sinnt nýsköpunarverkefnum og sprotafyrirtækjum á landsbyggðinni.

Impra sækir styrk sinn m.a. í öflugt bakland innan Iðntæknistofnunar sem nýtist nú nýsköpun á öllu landinu betur en áður. Það bakland verður enn öflugra ef af sameiningu Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnunar verður.

Starfsemi Impru tengist starfsemi þróunarsviðs Byggðastofnunar þótt ekki sé um beina skörun að ræða. Ljóst er að kalla má fram aukinn árangur með samþættingu eða sameiningu þessara tveggja stuðnings-verksviða.

Í stærra samhengi viljum við í iðnaðarráðuneyti horfa til framtíðaruppbyggingar opinberra rannsókna í nábýli við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík í Vatnsmýrinni. Mikils ávinnings er að vænta af nánara samstarfi við háskólarannsóknir og með samnýtingu vísindamanna og sérfræðinga og með sameiginlegum rekstri í tæknigörðum. Auk rannsóknastarfseminnar yrði þar væntanlega þungamiðja stuðnings við nýsköpun og atvinnuþróun á landinu öllu.

Í iðnaðarráðuneytinu tölum við um – þekkingarsetur - og er þar vísað til nábýlis og samstarfs háskólakennslu og rannsókna; - opinberra rannsóknastofnana; nýsköpunarmiðstöðva; starfsemi sprotafyrirtækja og ekki síður sterkra fyrirtækja. Þessa hugmynd um þekkingarsetur viljum við sjá jafnt á höfuðborgarsvæði sem landsbyggð. Þannig má sjá fyrir sér að á nokkrum stöðum á landsbyggðinni yrðu til þekkingarsetur þar sem áherslur í rannsóknum og nýsköpun tækju mið af styrkleika viðkomandi svæða og möguleikum á nýrri atvinnusókn.

IV.

Allt hverfist þetta auðvitað um fjármagn. Tilkoma Tækniþróunarsjóðs var mikil lyftistöng fyrir nýsköpun atvinnulífsins og brýnasta verkefnið nú er að tryggja samfellu hans við frumstig fjárfestinga sem er á verksviði Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Ljóst er að endar ná ekki saman á milli þessara tveggja sjóða, einkum vegna þess að mjög hefur dregið úr fjárfestingum í sprotafyrirtækjum síðustu árin. Það er þó von mín að viðbótarframleg frá ríkinu til Nýsköpunarsjóðs um síðustu áramót verði verulega til bóta. Engu að síður er það skoðun margra að efla þurfi Tækniþróunarsjóð til að veita styrki nær markaðinum en gert hefur verið – þ.e. til sprotafyrirtækja sem áður var sinnt af frumfjárfestum – en sem hafa þann bakhjarl ekki lengur.

Mikilvægt er að allt þetta stuðningskerfi fylgi markvissri stefnumótun. Stefnumótun um opinberan stuðning við atvinnuþróun er þó ekki einkamál iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta heldur nær það til margra fleiri. Reynslan hefur sýnt að starfsemi Vísinda- og tækniráðs hefur borið góðan árangur þar sem áherslur margra málaflokka og ráðuneyta hefur verið felld í einn farveg. Við teljum því álitlegt að útvíkka starfsemi ráðsins og í stað þess að hún sé einskorðuð við vísindi og tækniþróun þá verði þar fjallað um atvinnuþróun og nýsköpun í mun víðara samhengi. Útkoman gæti orðið heildstæð stefna ríkisstjórnarinnar um vísindi, nýsköpun og atvinnuþróun.

Slík stefna væri leiðbeinandi fyrir starfsemi og áherslur í - tæknirannsóknum; - fjármögnun nýsköpunar og atvinnuþróun; - aðgerðum til að jafna lífsgæði; - og til að ná efnahagslegum markmiðum ríkisstjórnarinnar.

V.

Mótun þessara hugmynda er á lokastigi og hafa þær verið kynntar fyrir fulltrúum flestra hagsmunaaðila. Undirtektir hafa almennt verið mjög jákvæðar, enda er það viðurkennt að samkeppnisstaða Íslands muni í auknum mæli ráðast af tæknilegri getu og færni til að innleiða og taka upp nýja tækni, stjórnhætti og aðferðir við markaðssetningu. Til þess að íslenskt atvinnulíf geti staðið sig í alþjóðlegum samanburði þarf slík innleiðing að eiga sér stað fyrr eða samtímis hér á landi og hjá samkeppnisþjóðum okkar. Staðan hjá okkur er aftur á móti sú að kraftar okkar eru of dreifðir vegna margra og smárra eininga. Endurskipulagning, ný forgangsröðun og breyttar og sveigjanlegar áherslur eru ekki einungis nauðsynlegar til að aðlaga okkur að ytri breytingum sem þegar hafa gengið yfir - heldur miklu frekar til að stuðla að því að við verðum viðbúin því að mæta hinu óvænta í framtíðinni.

VI.

Orkufrekur iðnaður er ekki síðri nýsköpunar- og atvinnuþróunarmál en margt af því sem ég hef þegar vikið að. Það gleymist nefnilega oft í umræðunni að virkjun fallvatna og álframleiðsla voru fyrstu hátæknigreinarnar í íslensku atvinnulífi og eru enn sífelld uppspretta nýrra tækifæra á sviði rannsókna og þróunar. Ég get því ekki látið hjá líða á þessum vettvangi að fara nokkrum orðum um stóriðju og virkjunarframkvæmdir.

Góðir gestir,

Mikil umræða fer nú fram í þjóðfélaginu um svokallaða stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Sýnist sitt hverjum og ber nokkuð á gagnrýni eins og endranær. 

Ég ætla ekki að eyða tíma í það hér að rekja mótbárur , en bið menn um að hugleiða hvernig ástandið var í þjóðfélaginu á árunum fyrir 1995, þegar hér ríkti efnahagsleg stöðnun, atvinnuleysi var yfir 5%, fólki hríðfækkaði á landsbyggðinni allri og vonleysi ríkti í hugum manna. Stóriðjuframkvæmdir í Straumsvík og Hvalfirði með tilheyrandi virkjunarframkvæmdum gjörbreyttu efnahagsástandi þjóðarinnar og stöðunni á Suðvestur- og Vesturlandi. Um það tala staðreyndirnar sínu máli. Nú er sama saga að gerast á Austurlandi og líklegt að mannlíf þar verði mun bjartara að afloknum yfirstandandi framkvæmdum við uppbyggingu álvers í Fjarðabyggð og þegar varanleg margfeldisáhrif festa rætur í atvinnulífinu eystra.

Vissulega erum við að horfast í augu við tímabundinn vanda af völdum mikilla umsvifa í þjóðfélaginu. Er þá einkum litið til styrks krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum, vaxandi verðbólgu og viðskiptahalla. Það er rétt að fjárfesting í virkjunum og álverum á talsverðan þátt í tímabundinni aukningu þjóðarútgjalda og viðskiptahalla við útlönd. Staðreyndir málsins eru hins vegar þær að hágengið og aukin verðbólga verða ekki nema að hluta rakin til virkjana og álversframkvæmda.

VII.

Góðir gestir.

Á Iðnþingi fyrir ári síðan var mér afhent tilboð Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja til stjórnvalda, sem nefnt er „Þriðja stoðin" en markmið tilboðsins er að upplýsingatækni verði meginstoð í verðmætasköpun og gjaldeyristekjum Íslands árið 2010. Er óhætt að segja að stjórnvöld hafi tekið tilboðinu vel og að þau hafi í samvinnu við iðnaðinn lagt sig fram um að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem bæta munu almenn starfsskilyrði fyrirtækja hér á landi, ekki hvað síst fyrir fyrirtæki í hátækniiðnaði. Ýmislegt hefur þannig þegar áunnist og annað er í þeim farvegi að vænta má frekari aðgerða á næstunni.

Þá vil ég einnig nefna að s.l. vor skipaði ég starfshóp um fjármögnun nýsköpunar sem skilaði tillögum til mín í lok síðasta árs. Miðuðu þær einkum að skattalegum umbótum sem taldar eru nauðsynlegar til að auka aðgang nýsköpunarfyrirtækja að áhættufjármagni.

Vinna sem þessi er í takt við framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar fyrir íslenskt atvinnulíf, þ.e. að hér á landi byggist áfram upp fjölbreytt og arðvænleg atvinnutækifæri sem byggi á öflugri nýsköpun. Markviss stuðningur hins opinbera og einkaframtaks við nýsköpun skiptir án vafa miklu máli í þeirri baráttu okkar að íslenskt samfélag verði áfram í fremstu röð í hnattvæddum heimi.

 

Takk fyrir.