Erindi forsætisráðherra á Iðnþingi 2006
Erindi Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra á Iðnþingi 17. mars 2006
Fundarstjóri, ágætu fundarmenn,
Ég vil byrja á því að þakka Samtökum iðnaðarins fyrir að bjóða mér að ávarpa Iðnþing þetta árið og gera nýsköpun í hnattvæddum heimi að umræðuefni.
Áhrif hnattvæðingar á íslenskt efnahags- og atvinnulíf hafa lengi verið mér hugleikin. Nú síðast urðu þau mér ljós í ferð minni til Lundúna í síðasta mánuði þar sem ég tók hús á fyrirtækjum í íslenskri eigu. Vöxtur þeirra á erlendri grund hefur verið ævintýri líkastur. Á Bretlandi einu vinna um 70-80.000 manns hjá fyrirtækjum í íslenskri eigu og samkvæmt nýlegri úttekt Viðskiptablaðsins starfa tæplega 105.000 manns í 14 löndum á vegum íslenskra fyrirtækja, sem er sami fjöldi og stundar atvinnu hér á höfuðborgarsvæðinu.
Breytt þjóðfélag skapaði tækifæri
Hnattvæðingunni er ýmist hampað eða hallmælt og vissulega felast í henni jafnt tækifæri sem áskoranir. Ég hef þá tilhneigingu að horfa til tækifæranna í lífinu almennt og tel reyndar að íslenskt efnahags- og atvinnulíf hafi notið einkar góðs af þeim straumum og stefnum sem að jafnaði eru talin fylgifiskar hnattvæðingar. Ég nefni sölu á hlut ríkisins í fyrirtækjum í samkeppnisrekstri sem aukið hefur frjálsræði og fjölbreytileika í íslensku atvinnulífi til muna. Sala bankanna og vöxtur þeirra á óumdeilanlega hvað stærstan þátt í markaðssókn íslenskra fyrirtækja á erlendri grund og sala Landssíma Íslands hf. á síðasta ári gerir ríkisvaldinu kleift að greiða niður erlendar skuldir og styðja við ýmis þörf samfélagsleg verkefni. Alls hefur einkavæðing ríkisfyrirtækja á síðustu 14 árum skilað rúmum 140 milljörðum króna í ríkissjóð. Það er umtalsvert fé sem áður var bundið í rekstri fyrirtækja.
Ég nefni aðild okkar að evrópska efnhagssvæðinu og fjórfrelsið svokallaða sem tryggir okkur aðgang að innri markaði Evrópusambandsins. Þá nefni ég breytingar sem gerðar hafa verið á skattaumhverfinu hér á landi og atvinnulífið hefur notið góðs af. Fyrir vikið eru skattar á fyrirtæki og fjármagn meðal þeirra allra lægstu í Evrópu, en satt að segja finnst mér stundum að sú staðreynd fari fyrir lítið í allri umræðunni.
Vitanlega þurfti samstillt átak til að hrinda þessum breytingum í framkvæmd og þær hafa ekki alltaf verið auðveldar. En að mínu viti voru þessar aðgerðir óhjákvæmilegar svo íslenskt atvinnulíf gæti nýtt sér tækifærin sem felast í hnattvæðingunni.
Og ég fæ ekki betur séð en að íslensk fyrirtæki hafi nýtt sér tækifærin til fullnustu. Áður hef ég nefnt og orðið vitni að vexti og framrás fyrirtækja á erlendri grund. Virði hlutabréfa fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands hefur meira en þrefaldast síðustu þrjú ár og staða lífeyrissjóðanna hefur aldrei verið sterkari. Hvert fyrirtækið af öðru hefur lýst yfir methagnaði á síðasta ári og horfur til áframhaldandi vaxtar eru taldar góðar. Ísland telst samkeppnishæfasta ríki Evrópu og er í fimmta sæti á heimsvísu. Virtar alþjóðastofnanir og matsfyrirtæki staðfesta reglulega gott ástand efnahagsmála hér á landi, síðast í gær þegar Standard og Poor´s staðfesti óbreytt lánshæfismat íslenska ríkisins og óbreyttar horfur. Við erum vitanlega ekki þjóð án vandamála og sumar atvinnugreinar eiga erfitt uppdráttar í augnablikinu, en heildarmyndin er hagstæð og í henni felast mörg tækifæri, meðal annars á sviði nýsköpunar.
Öflug fjármálafyrirtæki forsenda útrásar
Í ljósi þessa skýtur nokkuð skökku við sú neikvæða umræða sem gætt hefur hérlendis og erlendis um stöðu íslenska bankakerfisins og jafnvel íslenska hagkerfisins. Staðreyndin er sú að staða bankanna er mjög traust. Það hefur margsinnis verið staðfest af hálfu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins á undanförnum mánuðum. Að mati þessara aðila hefur ekkert nýtt komið fram um stöðu bankanna sem breytir þessu áliti. Lagaleg umgjörð fjármálastarfseminnar hér á landi er traust og í fullu samræmi við alþjóðareglur. Enn frekari vitnisburð um sterka stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja er að finna í nýlegum umsögnum matsfyrirtækjanna Moody’s og Fitch um íslenska bankakerfið sem hafa bæði staðfest óbreytt lánshæfismat bankanna. Eiginfjárhlutföll þessara fyrirtækja hafa aldrei verið hærri og ljóst að þau geta mætt verulegum áföllum.
Ég vil líka vekja athygli á því, sem vill stundum gleymast, að ein helsta forsenda þess að Íslendingar geti tekið virkan þátt í hnattvæðingunni eru öflug fjármálafyrirtæki. Við höfum eignast þau. Fjármálafyrirtækin okkar hafa verið drifkrafturinn í vexti íslenskra fyrirtækja erlendis sem haft hafa djörfung og þor. Því hefur verið haldið fram að bankarnir og fjárfestar hafi farið of geyst og kunni ekki fótum sínum forráð. Ég er ekki sammála þessu. Styrkur íslenskra fyrirtækja í útrásinni og hnattvæðingunni er ekki síst sá að þau hafa kjark og burði til að taka skjótar ákvarðanir. Ég nefni sem dæmi Baug, Bakkavör, Fons, Actavis, Avion Group og FL Group sem náð hafa eftirtektarverðum árangri í fjárfestingum sínum erlendis. Halda menn til dæmis að Magasin du Nord og Iceland verslunarkeðjan væru í íslenskri eigu ef umræddir kaupendur hefðu sest niður og ætlað sér að skoða málið í rólegheitunum? Alveg örugglega ekki. Kauptækifærið hefði einfaldlega runnið þeim úr greipum. Lögmál hins hnattvædda viðskipta- og fjármálaheims eru einfaldlega gerbreytt og allt önnur en t.d. í stjórnmálum sem mér virðast því miður einkennast í auknum mæli af tækifærismennsku, villandi málflutningi og jafnvel málþófi, eins og við höfum séð á Alþingi undanfarna daga. Í heimi viðskipta hrökkva umræðustjórnmál hins vegar skammt.
Ég dáist að því hve mörg íslensk fyrirtæki hafa vaxið hratt. Ég dáist að djörfung margra. Ég harma hins vegar neikvæða og ósanngjarna umfjöllun um íslenskt atvinnulíf erlendis og hér heima. Hins vegar verður atvinnulífið líka að líta í eigin barm og draga sinn lærdóm, t.d. að því er varðar mikilvægi gegnsæis og þess að standa vel að allri upplýsingagjöf.
Framleiðslu- og hátæknigeirinn ekki andstæðir pólar
Umræðan um hugsanlegar stóriðjuframkvæmdir og áhrif þess á efnahags- og atvinnulífið ber um margt sömu merki og umræðan um bankana og útrás íslenskra fyrirtækja og er ekki alltaf málefnanleg og reyndar oft beinlínis villandi og byggð á miklum ranghugmyndum. Þannig er í fyrsta lagi rétt að undirstrika að engar ákvarðanir hafa enn verið teknar um frekari stóriðjuframkvæmdir. Í öðru lagi, komi til frekari uppbyggingar stóriðju hér á landi, verða slíkar framkvæmdir vandlega tímasettar með tilliti til áhrifa á efnahagslífið og aðrar atvinnugreinar. Hér munum við setja stöðugleikann í efnahagsmálum í öndvegi og ekki taka neinar ákvarðanir sem geta raskað honum. Þetta getur þýtt það að við þurfum að endurskoða einhverjar ákvarðanir um opinberar framkvæmdir og það munum við gera ef þörf krefur. Það er hins vegar ótímabært að ræða slík mál á þessari stundu, en menn hljóta að sjá hve mikilvægt er að horfa til allra tækifæra nú þegar grundvallarbreyting verður á einum stærsta vinnustað þjóðarinnar.
Mér finnst líka mjög villandi að tala um stóriðju og hátæknigreinar sem tvo andstæða póla þar sem menn geti bara valið annan kostinn. Þetta er að mínu mati alrangt. Þvert á móti eru stóriðjufyrirtækin háþróuð og afar tæknivædd fyrirtæki með vel launað og vel menntað starfsfólk. Við þurfum þess vegna að komast upp úr þeim hjólförum að framleiðsla og þjónusta geti ekki haldist í hendur. Höfum hugfast að það eru fyrst og síðast hinar hefðbundnu framleiðslugreinar sem lagt hafa grunninn að stórauknum hagvexti og stöðugleika í okkar efnahagslífi, sem aftur hefur gefið fyrirtækjum í þjónustugreinum tækifæri til vaxtar og útrásar. Á þessum stöðugleika þurfum við áfram að halda og byggja á.
Það er líka sjálfgefið, að mínu viti, að hlutur þjónustu- og hátæknigreina muni aukast á komandi árum. Það er beinlínis fýsilegt og að því er stefnt. En það þýðir ekki að uppbygging í hefðbundnum framleiðslugreinum stöðvist. Formaður Samtaka iðnaðarins hefur lýst þeirri skoðun sinni að uppbygging hátækniiðnaðar gerist ekki sjálfkrafa. Því er ég sammála, en ég vil bæta við að uppbygging greinanna geti vel farið samhliða. Allt helst þetta í hendur.
Mótlæti skapar tækifæri
Við megum heldur ekki líta framhjá því að mótlæti getur falið í sér tækifæri. Fræðikona orðaði það þannig í viðtali í vikunni að þegar ein hurð lokaðist opnuðust kannski nokkrar aðrar. Þessu er t.d. farið á Reykjanesi þar sem við blasir gífurleg uppstokkun á sviði atvinnumála við brotthvarf varnarliðsins á næstunni. Það er að sönnu mikið áfall fyrir byggðarlög þar í kring og þær hundruðir manna sem þar vinna og hafa jafnvel gert árum og áratugum saman. En við megum heldur ekki gleyma því að tækifærin eru líka margvísleg og að mikilvægt er fyrir okkur að horfa til framtíðar á eigin forsendum.
Sóknarfærin eru fjölmörg og uppbygging á sviði ferðaþjónustu og við flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur verið gríðarleg á undanförnum árum. Við eigum að horfa til enn frekari vaxtar á þessum sviðum, til tækifæra sem felast í forystu Íslendinga í alþjóðlegum flugrekstri og til metnaðarfullra áforma stjórnvalda um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð. Tækifærin eru hvarvetna.
Nýsköpun og menntun undirstaða vaxtar
Ég hef áður ítrekað mikilvægi menntunar og nýsköpunar fyrir framþróun í íslensku atvinnulífi í hnattvæddum heimi. Þegar á árinu 1996 mótaði ríkisstjórnin sér þá stefnu að staðsetja Ísland í fararbroddi þjóða í nýtingu upplýsingatækni. Nú er svo komið að tölvuvæðing og notkun fjarskiptatækni er almennari á Íslandi en víðast hvar annars staðar. Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að vinna með íslenskum fyrirtækjum að þróun hugbúnaðar við innleiðingu á rafrænni stjórnsýslu og innleiðingu nýrra lausna. Framgangur íslenskra athafnamanna er ekki síst því að þakka að Íslendingar voru fljótir að átta sig á þeim gjörbreyttu möguleikum í gagnavinnslu og alþjóðasamskiptum sem ný tækni hefur boðið upp á.
Menntakerfið þarf að þróast í takt við alþjóðlegar kröfur atvinnulífsins þar sem lögð er áhersla á skapandi hugsun, tungumálakunnáttu, raungreinar og siðferði og stutt sé við frumkvæði og framtakssemi einstaklingsins. Nemendum á háskólastigi hefur fjölgað um 75% frá árinu 1997 og rektor Háskóla Íslands sagðist á dögunum vilja skipa HÍ í röð þeirra 100 bestu í heiminum. Það er metnaðarfullt og verðugt markmið sem krefst samstillts átaks margra aðila.
Undir merkjum Vísinda- og tækniráðs hafa stjórnvöld á síðustu þremur árum meira en tvöfaldað framlög til opinberra samkeppnissjóða. Háskólar undirbúa nú fleiri nemendur en nokkru sinni áður til starfa sem krefjast vísindalegra vinnubragða, þekkingar og færni. Þá er verið að stokka upp skipulag og starfsemi rannsóknastofnana ríkisins með það að markmiði að efla nýsköpun í atvinnulífinu. Ég vil gjarnan sjá atvinnulífið verða virkari þátttakendur í þessu starfi rannsókna og þróunar með háskólum og rannsóknastofum. Ég vil þannig sjá atvinnulífið koma með auknum krafti inn í Vísinda- og tækniráð og taka þátt í að skipuleggja samræmda sókn ríkis og einkaaðila í menntun og vísindarannsóknum sem hafi það að markmiði að stórauka hlutfall hátæknigreina í útflutningstekjum Íslendinga á næstu árum.
Í kjölfar sölunnar á Landssíma Íslands hf. ákvað ríkisstjórnin að leggja 2,5 milljarða króna til nýsköpunar í atvinnulífinu á næstu árum. Þar af er áætlað að 1,5 milljarður renni í sjóð sem lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki og aðrir legðu verulegt fjármagn á móti. Ég vonast til að stofnfé slíks sjóðs gæti orðið á bilinu 6-10 milljarðar og hlutfall ríkisins yrði um 20-25%. Með þessu móti getur atvinnulífið komið sínum áherslum í nýsköpun og þróun á framfæri og stutt sprotafyrirtæki á fyrri stigum með nauðsynlegu áhættufjármagni. Þetta fyrirkomulag yrði í takt við óskir og þarfir atvinnulífsins og endurspeglar ennfremur þann vilja ríkisstjórnarinnar að atvinnulífið taki virkari þátt í nýsköpun, rannsóknum og þróun. Við höfum svo sannarlega dæmi um íslensk sprotafyrirtæki sem hafa komist á legg og nýtt sér tækifæri hnattvæðingarinnar. Ég nefni hér Marel og Össur sem dæmi. Við þurfum að fjölga slíkum dæmum og höfum forsendur til þess.
Ríkisstjórnin hefur staðið að fleiri umbótum í þágu nýsköpunar. Fyrr í vikunni var ákveðið að ráðast í skattalegar umbætur sem nýtast sérstaklega fyrirtækjum á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar. Þá verður skipuð nefnd sem leggja mun mat á reynslu annarra þjóða af því að veita slíkum fyrirtækjum sérstakar skattaívilnanir. Þá teldi ég eðlilegt að skoða frekar þann þátt virðisaukaskattkerfisins sem leitt getur til óeðlilegs samkeppnisforskots opinberra stofnanna og annarra sem utan kerfisins standa. Birtingarmynd þessa er t.a.m. uppbygging tölvudeilda innan opinberra stofnana sem gengur í berhögg við þá stefnu stjórnvalda að bjóða út þess konar þjónustu.
Endurskoðun á Stjórnarráðinu stendur fyrir dyrum í því augnamiði að heimfæra skipan ráðuneyta að breyttum þjóðfélagsháttum og þörfum atvinnulífsins. Sendiráð Íslands á Indlandi, sem sett var á fót í síðasta mánuði, er eitt dæmið enn um viðleitni stjórnvalda til að aðstoða viðskiptalífið í útrás sinni og vexti.
Staða Íslands í alþjóðasamfélaginu
Framtíðarsýn fyrir atvinnulífið á Íslandi og staða okkar í hinum hnattvædda heimi tengist umræðu um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég spáði því á Viðskiptaþingi í síðasta mánuði að Ísland verði fullgildur aðili að Evrópusambandinu árið 2015. Mörgum þótti það glannalegur spádómur og mér hefur reyndar verið legið á hálsi að vera ekki sérstaklega spámannlega vaxinn þar sem mér mistókst að spá réttilega fyrir um úrslit í leik Chelsea og Barcelona í Meistaradeildinni! Þar af leiðandi hljóti ég að spá ranglega fyrir um Evrópusambandsaðild!
Einungis tíminn leiðir það í ljós en ég stend við þennan spádóm minn og tel að ráðandi þáttur í ákvarðanatöku okkar verði þróun myntbandalagsins. Taki Bretar, Danir og Svíar upp evruna, og það skyldum við ekki útiloka í framtíðinni, mun hátt í þrír fjórðu af okkar vöruútflutningi vera í evrum. Þá verðum við að viðurkenna að sveiflur í gengi íslensku krónunnar eru vandamál, ekki síður nú í hinu hnattvædda hagkerfi, eins og nýleg dæmi sanna. Og það eru ekki síst sprotafyrirtækin og útflutningsfyrirtækin sem eru viðkvæmust fyrir gengissveiflum.
Það er skylda okkar allra að velta fyrir okkur stöðu Íslands í hnattvæðingunni og hvernig hagsmunum okkar verði best fyrir komið í framtíðinni. Eitt veit ég - á allra næstu árum mun fara fram umræða um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi, ekki síst vegna þess að á næstu vikum og mánuðum mun reyna á hvort og hvernig Bandaríkjamenn munu standa við varnarskuldbindingar sínar gagnvart Íslandi.
Ég hef gjarnan haft á orði að smáþjóðir þurfi að hugsa stórt. Heimsókn mín til Bretlands, sem ég vísaði til í upphafi máls mín, færði mér heim sanninn að íslensk fyrirtæki taka virkan þátt og eiga fullt erindi á markaðstorg heimsvæðingarinnar. Í okkur Íslendingum býr ennþá sú áræðni og kjarkur sem einkenndi landnámsmenn okkar á fyrri tímum og ég er þess fullviss að þessir eiginleikar skili atvinnulífinu, sem og þjóðinni allri, áframhaldandi og aukinni farsæld um ókomna framtíð.