Úrslit kosninga á Iðnþingi

Helgi Magnússon var kjörinn formaður Samtaka iðnaðarins með rúmlega 90% atkvæða.
2006-Vilmundur_haettir

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra þakkar Vilmundi Jósefssyni fráfarandi formanni SI fyrir samstarfið á liðnum árum.

Helgi Magnússon var kjörinn formaður Samtaka iðnaðarins með rúmlega 90% atkvæða. Helgi tekur við formennsku af Vilmundi Jósefssyni, en formaður er kosinn til árs í senn. Samkvæmt lögum SI getur formaður ekki setið lengur en sex ár samfleytt og var því Vilmundur ekki lengur kjörgengur þar sem hann hafði verið formaður í sex ár.

Helmingur stjórnar er kosinn á hverju ári til tveggja ára í senn. Að þessu sinni náðu kjöri þau Anna María Jónsdóttir og Ingvar Kristinsson, sem eru ný í stjórninni, og Þorsteinn Víglundsson. Hreinn Jakobsson gekk úr stjórninni þar sem hann var ekki lengur kjörgengur skv. sex ára reglunni og Halla Bogadóttir sem ekki gaf kost á sér til endurkjörs.

Fyrir í stjórninni eru þau Aðalheiður Héðinsdóttir, Hörður Arnarson, Loftur Árnason og Sigurður Bragi Guðmundsson.

Þeir sex, sem næstir því voru að ná kjöri til stjórnar, taka sæti í ráðgjafaráði. Það voru þeir Bolli Árnason, Helgi Jóhannesson, Jakob K. Kristjánsson, Karl Þráinsson, Sveinbjörn Hjálmarsson og Vigfús Kr. Hjartarson.

Kosningaþátttaka var góð eða rúm 73% en kosningin er póstkosning sem fer fram dagana fyrir Iðnþing og eru atkvæði félagsmanna í samræmi við greidd félagsgjöld.

Stjórn Samtaka iðnaðarins hefur skipt með sér verkum og er Hörður Arnarson varaformaður en Aðalheiður Héðinsdóttir ritari.