Útdráttur úr erindi Helga Magnússonar formanns SI

Útdráttur úr erindi Helga Magnússonar nýkjörins formanns SI á Iðnþingi 2006
2006-Helgi&Vilmundur

Helgi Magnússon nýkjörinn formaður SI og Vilmundur Jósefsson fráfarandi formaður.

Helgi Magnússon, nýkjörinn formaður SI, ávarpaði Iðnþing og sagði m.a. að ný stjórn Samtaka iðnaðarins tæki við góðu búi. Innan þeirra raða væri fjöldi iðnmeistara og stórra sem smárra fyrirtækja en styrkur Samtakanna lægi ekki síst í breiddinni en hún gæti líka haft í för með sér vandamál en þau væru einungis viðfangsefni til að leysa. Hlutverk SI væri m.a. að samræma ólík sjónarmið og vinna með öllum félagsmönnum. Þegar hagsmundir fari ekki saman sé reynt að miðla málum og þeir sem til þekkja viti að farsælla sé að skiptast á skoðunum á sameiginlegum vettvangi og komast að ásættanlegri niðurstöðu og í því m.a. fælist styrkur SI.

Sömu starfsskilyrði fyrir alla

Helgi sagði að atvinnureksturinn ætti almennt að sækjast eftir sömu starfsskilyrðum og þeir sem næðu bestum samningum í stað þess að horfa öfundaraugum til þeirra sem best tækist til í því efni. Íslendingar þurfi að nýta allar auðlindir sínar ef áfram á að halda uppi lífsgæðaþjóðfélagi, miklum hagavexti og áframhaldandi góðæri. Til þess þurfi að nýta hugvit, frumkvæði fólks og nýta auðlindir náttúrunnar hverju nafni sem þær nefnast en við eigum ekki að þurfa að velja á milli.

Verkefni SI mikilvæg og andasöm

„Verkefni SI framundan eru mikil, mikilvæg og um margt vandasöm.“ Áfram verði spurt hvort Íslendingar eigi að sækjast eftir inngöngu í Evrópusambandið. Komi til þess verði meginástæðan sú að íslenska krónan valdi miklum vanda og dragi úr stöðugleika enda hafi það sýnt sig á undanförnum mánuðum og misserum að við getum ekki reitt okkur á hið smáa myntkerfi til frambúðar. Menn velti því fyrir sér hvort við getum tekið upp evru eða tengst henni eins og Danir en í nýlegri skýrslu hagfræðistofnunar HÍ um fyrirkomulag gengismála segi að það sé ekki hægt nema ganga fyrst í ESB. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi hins vegar varpað því fram að við ættum að semja beint um upptöku evru og stytta okkur þar með leið. Ráðherrann hafi hins vegar fengið kaldar kveðjur vegna þessa. Hugmynd af þessu tagi muni að endingu væntanlega snúast um pólitískan vilja eins og reyndin var þegar Íslendingar gengu í EES.

„Treystum á okkur sjálf“

Helgi sagði spennandi tímar framundan í iðnaðinum og miklu varði hvernig til tekst. Íslendingar fáist við óeðlilega sterka krónu, allt of háa vexti, mikla þenslu og viðskiptahalla en á móti komi mikill hagvöxtur og framfarahugur í þjóðfélaginu. Fyrir liggi að náðst hafi svo mikill árangur í atvinnulífinu almennt að íslensku þjóðfélagi hafi verið umbylt á nokkrum árum og það svo að varkárir menn stígi fram og segi okkur að ganga hægt um gleðinnar dyr. Í lokin hvatti Helgi til eftirfarandi: „Stöndum okkur í hagsmunagæslunni fyrir félaga í SI án þess að verða græðgisvæðingunni og peningahyggjunni að bráð en umfram allt treystum á okkur sjálf annars gerist ekki neitt!“