Iðnþing 2007

Erindi formanns SI á Iðnþingi 2007

Ráðherra, fundarstjóri aðrir góðir fundarmenn!

Hvert stefnir íslenskt atvinnulíf og þjóðlíf eftir að hafa tekið stakkaskiptum á ótrúlega skömmum tíma?

Getum við vænst áframhaldandi góðs árangurs – eigum við von á FARSÆLD TIL FRAMTÍÐAR í þessu landi? Já, við getum vænst árangurs.

En til þess að svo megi verða, þarf flest að ganga upp.

Þá þurfum við að sigla gegnum næstu ár án stórra áfalla í efnahagsstjórnun og stjórnmálum bæði hér heima og erlendis.

Þá þurfum við stöðugleika, áframhaldandi hagvöxt, bærilega sátt um nýtingu og verndun náttúruauðlinda, við þurfum skilning á mikilvægi verðmætasköpunar í atvinnulífinu og það þarf að auka jafnvægi milli peningahyggju og velferðar.

Það þarf meiri umræðu og meiri sátt um það hvernig þjóðfélag við viljum hafa hérna – hvaða kröfur fá staðist á ýmsum sviðum og hvernig á að skapa verðmæti til að geta orðið við þeim kröfum. 

Okkur hefur flestum þótt sjálfsagt að sækja meira fé í sameiginlega sjóði til menntamála, heilbrigðisþjónustu, til almannatrygginga, samgöngumála og annarrar opinberrar þjónustu fyrir landsmenn. Samhliða þessu höfum við byggt upp eitthvert frambærilegasta lífeyrissjóðakerfi á Vesturlöndum.

Allt kostar þetta -  og peningarnir verða ekki til af sjálfu sér. Þeir verða til í atvinnu­lífinu og skattar til ríkis og sveitarfélaga koma frá fólki og fyrirtækjum af þeim tekjum sem þar verða til.

 

FYRIRTÆKI KOSIN BURT

Það er eins og þetta vilji gleymast – t.d. þegar hvatt er til þess að kjósa burt fyrirtæki sem veita og veitt hafa atvinnu og skapað tekjur í áratugi – eins og við þekkjum dæmi um. 

Það liggur fyrir hvar sú þróun kann að byrja – en hvar gæti hún endað? 

Við náum ekki árangri með því að kjósa burt iðnfyrirtæki eða önnur atvinnufyrirtæki.

Við Íslendingar þurfum á öllu okkar að halda ef við ætlum að viðhalda því velferðarsamfélagi sem gerð er krafa um. Til þess að standa undir þeirri samfélagsþjónustu, sem við hljótum að vilja, þurfum við tekjuöflun og verðmæta­sköpun.

Þá verðum við að nýta allar greinar atvinnulífsins til að skapa okkur verðmæti – jafnt til lands og sjávar. Við þurfum að virkja fallvötnin og jarðhitann. Við þurfum ekki síst að virkja hugvit fólksins og allir þættir og allar greinar þurfa að fá að njóta sín. 

Ef farið verður út á þá braut að hafna verðmætaskapandi fyrirtækjum - ef farið verður út á þá braut að kjósa fyrirtækin burt –  getum við varla vænst þess að hér verði fyrirmyndarþjóðfélag að því er varðar opinbera þjónustu.

Álverið í Straumsvík er bara eitt fyrirtæki – þótt stórt sé og mikilvægt. Verði það kosið burt,  má búast við að fólki finnist við hæfi að kjósa burt önnur fyrirtæki sem þykja fyrirferðarmikil, gróf eða ljót í umhverfinu. Hvað þá um loðnuverksmiðjur, fiskiðjuver og fyrirtæki í þungum og grófum iðnaði? 

Megum við þá ekki vænta þess að farið verði að kjósa þau í burtu hvert af öðru? 

Hugmyndir um að hrekja arðsöm fyrirtæki á brott eru nýjar á Íslandi. –  Hvers vegna skjóta þær upp kollinum einmitt nú?  Svarið við því er augljóst. 

Það er vegna þess að nú um stundir er ekkert atvinnuleysi og velmegun er með mesta móti. Við slíkar aðstæður virðast ýmsir gleyma – eða vilja ekki muna -  hvernig verðmætasköpunin í þjóðfélaginu byrjar. Hún byrjar í framleiðslunni. Hún byrjar í atvinnulífunu.

Um áratugaskeið höfum við lagt ofuráherslu á að byggja hér upp verðmætaskapandi atvinnulíf og við höfum þurft á því að halda til að afla þjóðinni tekna. Þegar illa hefur gengið og atvinnuleysi barið að dyrum,  virðast flestir hafa skilið mikilvægi þessa. 

Íslendingar hafa borið gæfu til að nota tímann og þau tækifæri sem hafa gefist til uppbyggingar.

 

AÐSTÆÐUR BREYTAST HRATT

En ég minni fólk á að það ber ekki allt upp á sama daginn. Aðstæður geta verið fljótar að breytast og þá gæti orðið afdrifaríkt að hafa hafnað blómlegum atvinnu­fyrirtækjum.

Talað er um að álver Alcan sé ofan í byggðinni í Hafnarfirði. Það er rétt en þannig var það ekki þegar álverið var reist fyrir 35 árum. Hafnfirðingar hefðu frekar átt að kjósa um það fyrir mörgum árum hvert þeir ættu að beina byggðinni í bænum – eftir að álverið var komið á sinn stað.  Dæminu hefur verið stillt upp með röngum hætti – það er byrjað á öfugum enda. Fólk verður að gera sér ljóst í hvaða tímaröð þessar ákvarðanir voru teknar. 

Ef Íslendingar telja að þeir eigi að kjósa fyrirtæki burt eins og álver Alcan og ef þeir telja að við eigum ekki að nýta vatnsafls- og jarðvarmaauðlindir okkar til frekari atvinnuuppbyggingar í landinu, þá þarf fyrst að móta almenna stefnu um það hvernig þjóðfélag við viljum hafa hér.

Viljum við e.t.v. ekki gera þessar miklu kröfur til samfélagsins? 

Þessu þarf að svara fyrst. Verði sú stefna ofan á að draga úr kröfum, er væntanlega ekki eins brýnt að nýta auðlindir okkar til tekjuöflunar.

Mér finnst reyndar ósennilegt að Íslendingar séu reiðubúnir að fórna kjörum með minni verðmætasköpun.

 

OF LANGT Í KOMIN PENINGAHYGGJUNNI?

Engu að síður er tímabært að staldra við og spyrja: 

Erum við e.t.v. komin of langt í peningahyggjunni – viljum við snúa af leið efnishyggjunnar og róa samfélagið niður og draga úr kröfunum? Er að birtast ný sýn á lífsgæði og lífsgildi hér á landi?

Norðmenn eru byrjaðir að spyrja spurninga af þessu tagi, eins og fram kom á aðalfundi norskra iðnrekenda í byrjun þessa árs.    

Ein af helstu niðurstöðum Norðmanna á fundinum var þessi:

„Noregur á meira en nóg af peningum - en peningar eru ekki allt. Okkur vantar höfuð og hendur sem breyta peningum í velferð og vinnu.  Við erum á eftir í kapphlaupinu um hugvitið.” 

Skyldu Íslendingar ekki þurfa að staldra betur við og spyrja spurninga af þessu tagi?

Ég leyfi mér að halda því fram að við séum þegar eitthvað farin að spyrja slíkra spurninga og að það sé bæði tímabært og brýnt.

 

Góðir fundarmenn!

Atvinnulífið á Íslandi hefur tekið stakkaskiptum á ótrúlega skömmum tíma. Atburðarásin er hröð og við erum fljót að gleyma hvernig var hér umhorfs fyrir fáeinum árum. Nú er spurt hvort framhald verði á og því er svarað játandi – að uppfylltum tilteknum skilyrðum um starfsumhverfi, stöðugleika og yfirvegun í landsstjórn. 

Á nokkrum árum hefur fjölbreytni atvinnulífsins aukist til mikilla muna. Stoðirnar eru nú miklu fleiri en áður að ekki sé talað um fjölbreytni.

Sjávarútvegur skipti þjóðina nánast öllu fyrir áratug. Nú skiptir hann áfram miklu máli og er ein af stoðunum en ekki eina meginstoðin. Upp að hlið hans hafa komið vaxandi iðnaður (hátækniiðnaður og stóriðja), stóraukin ferðaþjónusta og ört vaxandi fjármálastarfsemi sem hefur vaxið hraðar og af meira afli en nokkur þorði að spá um fyrir nokkrum árum. 

Stórhugur og dirfska hafa aukist. Fyrirtækin hafa í auknum mæli látið verkin tala – bæði hér heima og erlendis.

Sjálfstraust íslenska atvinnulífsins hefur vaxið mikið – menn trúa á mátt sinn og megin. Aukið frelsi hefur leyst afl og orku úr læðingi. 

Hvaðan hefur þetta frelsi og afl einkum komið?   Svarið er:

Með áhrifum EES samningsins og með einkavæðingu ríkisfyrirtækja – einkum ríkisbankanna - sem kom meiri hreyfingu á framvindu í viðskiptalífinu en áður hefur gerst á Íslandi. 

Landnám Íslendinga erlendis mun halda áfram, öllu íslenska atvinnulífinu til hagsbóta. Smáþjóðin hefur sýnt að hún getur þetta. Minnimáttarkennd hefur breyst í sjálfstraust – þreifingar hafa breyst í öguð vinnubrögð og fumlausa fagmennsku.

Nýjar greinar bætast við. Þannig beinist nú athygli að nýrri útflutningsstóriðju Íslendinga á sviði endurnýtanlegrar orku þar sem þekking er í fyrirrúmi. 

Tökum vel eftir nöfnum fyrirtækja á því sviði – hvort sem um er að ræða ENEX, Geysi Green Energy, HydroKraft Invest eða önnur sem eiga eftir að koma fram á sjónarsviðið.

Þessi fyrirtæki byggjast öll á íslenskri þekkingu og hefð á sviði orkuframleiðslu. Og þarna eru einkaaðilar komnir að verki. Það er einnig óskandi að í tengslum við þessa starfsemi þróist íslensk framleiðsla. 

Þau eru dæmi um árangur af því að Íslendingar hafa borið gæfu til að nýta auðlindir sínar. Ekki setið hjá – heldur framkvæmt, þróað og byggt upp til velfarnaðar.

Það gildir um orkunýtingu og útflutning þekkingar á þeim vettvangi, eins og flest annað, að til þess að ná víðtækum árangri þurfum við að hafa markaða stefnu um nýtingu auðlinda og við þurfum að hafa mikinn metnað varðandi eflingu þekkingar og menntunar í landinu – á öllum sviðum.

 

MENNTUN - MANNAUÐUR

Það er því engin tilviljun að Samtök iðnaðarins hafa að undanförnu lagt megináherslu á menntamál. Menntun og mannauð. 

Á síðasta starfsári gáfum við menntamálum forgang – ásamt umfjöllun um auðlindanýtingu og náttúruvernd og við blasir að þannig verði unnið áfram enda hafa þessir þættir grundvallarþýðingu fyrir framtíð atvinnulífsins.

Iðnaðurinn hefur um árabil barist fyrir eflingu verk-og tæknimenntunar í landinu og orðin ágengt.  Samtök iðnaðarins höfðu mikinn áhuga á að Tækniskóli Íslands efldist og félli í sem bestan farveg. Niðurstaðan varð sú að hann sameinaðist Háskólanum í Reykjavík, sem flestir telja mikið framfaraspor. Samtök iðnaðarins komu með virkum hætti að því verki og lögðu fram hlutafé til HR til að auðvelda  sameininguna. Við höfum einnig tilnefnt fólk úr iðnaði í háskólaráðið og það hefur  aukið tengsl milli aðila. 

Samtök iðnaðarins hafa haft frumkvæði að tilurð Iðunnar, sem er miðstöð endur-og símenntunar í iðnaði. Með stofnun hennar voru sameinaðar 5 einingar sem fengust við slík viðfangsefni. Með sameiningu hefur orðið til mun öflugri stofnun og fleiri aðilar hafa gengið til liðs við hana. Iðan er ekki orðin eins árs en reynsla af henni er þegar mjög góð.

Samtök iðnaðarins hafa ákveðið að verja 10 m.kr. á ári í fjögur ár í styrki til námsefnisgerðar og ákveðið fjárframlög til vinnustaðakennslu sem hefur verið olnbogabarn. Þá eiga samtökin samstarf við Háskóla Íslands varðandi styrki og þátttöku í Alþjóðamálastofnun, sama gildir um Evrópufræðasetrið á Bifröst og loks er um að ræða samstarf við Háskólann á Akureyri gegnum aðild að Þekkingarverði ehf. 

Með samstarfi við þessa fjóra íslensku háskóla í formi styrkja og verkefna, sem Samtökin hafa falið þeim að vinna, teljum við okkur auka á mikilvæg tengsl iðnaðarins við skólana, öllum aðilum til gagns.

Menntamálaráðherra vinnur nú að sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskólans með eindreginni hvatningu frá Samtökum iðnaðarins og samtökum atvinnurekenda í útgerð sem eru reiðubúin að leggja fram umtalsvert hlutafé til að auðvelda sameiningu þessara skóla enda teljum við að samruni þeirra yrði mjög til góðs og ætti að geta fært verk-og tæknimenntun í landinu til nútímalegra horfs. 

Samtök iðnaðarins munu halda áfram á þessari braut enda er  menntun og mannauður meðal grundvallarþátta samfélagsins og lykill að áframhaldandi uppbyggingu og framvindu í iðnaði og öðru atvinnulífi hér á landi.

Án vel menntaðs fólks á hinum ýmsu sviðum verður ekki mikið úr sprota-og hátæknifyrirtækjum í iðnaði, sem svo miklar vonir hafa verið bundnar við og hafa alla burði til að leggja áfram grunn að nýsköpun og frumkvöðlastarfi í atvinnulífinu. 

Til þess að draga þetta saman, gætu Samtök iðnaðarins ráðstafað 100 m.kr. á þessu ári til mennta- og mannauðsmála. Við lítum þannig á að með því sé verið að efla iðnþróun í landinu.

 

AUÐLINDANÝTING OG NÁTTÚRUVERND

Hinn meginþátturinn, sem Samtök iðnaðarins hafa að undanförnu litið á sem grundvallarviðfangsefni, er stefnumótun í auðlindanýtingu og náttúruvernd.

Við efndum til tveggja mikilvægra funda sl. haust til að fjalla um þessi mál og veltum því m.a. fyrir okkur hvort ætla mætti að unnt yrði að ná sátt í þjóðfélaginu um nýtingu og verndun. Eitt brýnasta úrlausnarefni Íslendinga um þessar mundir er að ná sátt um skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda og ná jafnvægi milli verndar og nýtingar. Hér er um afar viðkvæmt og vandasamt mál að ræða. Að mati Samtaka iðnaðarins getum við ekki lifað góðu lífi í þessu landi nema nýta náttúruauðlindir á landi og sjó til verðmætasköpunar – en við megum heldur ekki vaða yfir og spilla dýrmætum náttúruperlum í þeirri viðleitni. 

Við erum ekki neinir talsmenn þess! 

Þær deilur sem uppi eru í þjóðfélaginu þarf að leysa eins hratt og kostur er. Of langt er að bíða til ársins 2010 eftir nýtingar-og verndaráætlun. Henni þarf að ljúka mun fyrr og eyða þeirri óvissu sem nú ríkir bæði um verndun landsvæða og stöðu þeirra sem hyggja á nýtingu auðlinda. Eðlilegt er að stjórnvöld setji reglur og ramma um nýtingu orkulinda en fyrirtæki í einkaeigu sjá um beislun þeirra og greiði fyrir nýtingu. Það á að gilda um allar auðlindir þjóðarinnar.

Í nýlegri umsögn Samtaka iðnaðarins til Alþingis um frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á  auðlindum, segir m.a. að fram hafi komið hugmyndir um stofnun Íslenska auðlindasjóðsins sem eignaðist allar nýtanlegar náttúruauðlindir Íslendinga, en Víglundur Þorsteinsson, stjórnarformaður BM Vallár, hreyfði þeirri hugmynd á opnum fundi SI í nóvember síðastliðnum. Þar lagði hann til að hluthafar sjóðsins yrðu allir íslenskir ríkisborgarar búsettir á Íslandi. Við það yrði miðað að hluthafarnir fengju greiddan arð af hlutafé sínu. Svipuð hugmynd hefur orðið að veruleika í Kanada með góðum árangri. 

Á Sprotaþingi Samtaka iðnaðarins þann 2. febrúar sl., tók Hjálmar Árnason, alþingismaður, undir þessi sjónarmið og lagði fram tillögu um að stofnaður yrði Auðlindasjóður sem hefði það að markmiði að fjármagna brýn samfélagsverkefni og styðja við nýsköpun og atvinnuþróun á Íslandi. Við sama tækifæri tók Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra, undir hugmyndir um stofnun Auðlindasjóðs. Ráðherra nefndi að sjóðurinn gæti tekið virkan þátt í að efla nýsköpunar-og sprotakerfi og látið beinar greiðslur renna til almennings þegar svo ber undir. Þannig yrði arðinum af auðlindum Íslendinga varið til að byggja undir framtíðarárangur.

Í umsögn sinni tóku Samtök iðnaðarins undir þau sjónarmið að stofa skuli Auðlindasjóð. 

Bæði iðnaðarráðherra og Víglundur Þorsteinsson eru meðal ræðumanna hér í dag og ekki þyrfti að koma á óvart þótt þeir gerðu fram komnar hugmyndir um Auðlindasjóð að umtalsefni.

 

MIKIL BREIDD

Samtök iðnaðarins einkennast af breidd. Innan þeirra eru iðnmeistarar og handverksfólk í hinum ýmsu greinum, margskonar fyrirtæki í verksmiðjuiðnaði, byggingarverktakar, jarðvinnufyrirtæki, tölvu-og hugbúnaðarfyrirtæki, flókin tæknifyrirtæki, matvælaframleiðendur, prentsmiðjur, efnaiðnaður og stóriðjufyrirtæki svo að nokkuð sé nefnt. 

Við verðum þess vör að stundum er reynt að etja saman mismunandi hagsmuna­hópum og halda því fram að tilteknar greinar skemmi fyrir öðrum.

Ég tel að þetta sé í meginatriðum rangt. Við vinnum miklu frekar saman þannig að fyrirtæki finni stuðning  hvert frá öðru en þegar um hagsmunaárekstra kann að vera að ræða, þá er það hlutverk Samtaka iðnaðarins að miðla málum.  Stefnan er sú að allir fái að njóta sín – hvort sem þeir eru stórir eða smáir, óháð því við hvað þeir fást og hvar á landinu. 

Samtök iðnaðarins berjast fyrir bættum starfsskilyrðum og uppörvandi starfs­umhverfi allra.

Við finnum í vaxandi mæli fyrir aukinni þörf á samstarfi í öllum atvinnugreinum – langt út fyrir iðnaðinn. Þannig þarf framleiðsla á bönkum að halda, fjármálafyrirtækin gera ekki mikið án viðskiptavina og fyrirtæki innan verslunar og þjónustu selja gjarnan framleiðsluvörur iðnaðarins, að ekki sé talað um framleiðslu iðnaðar á vélum, búnaði og rekstrarvarningi fyrir sjávarútveg og landbúnað. Oft hafa þessar vörur verið þróaðar í nánu samstarfi milli atvinnugreina. 

Í tengslum við þetta finnum við vaxandi nauðsyn þess að hér verði eitt atvinnuvegaráðuneyti í stað margra hólfaskiptra út frá gamaldags – og um margt úteltri – greiningu atvinnuveganna í iðnað, sjávarútveg, landbúnað, ferðaþjónustu, verslun o.fl. Þessi þörf fer vaxandi. Samtök iðnaðarins hafa hvatt til breytinga á stjórnarráðinu um árabil með eitt atvinnuvegaráðuneyti í huga.

Á móti megum við þá búast við því að spurt verði hvort ekki sé að sama skapi tilefni til að sameina atvinnurekendasamtökin í eitt í stað SI, LÍÚ, SVÞ o.fl. 

Þá er rétt að hafa í huga að nýlega hefur átt sér stað mikil og vel heppnuð uppstokkun á okkar vettvangi.  Þegar Samtök iðnaðarins urðu til fyrir 12 árum, runnu 6 samtök og félög saman í ein. Einnig urðu Samtök atvinnulífsins til úr gamla VSÍ og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Reynslan af þessum samtökum er góð en engu að síður verða slík mál ætíð til skoðunar og við erum ekkert hafin yfir gagnrýni frekar en aðrir.

 

Góðir fundarmenn!

Til þess að við getum vænst FARSÆLDAR TIL FRAMTÍÐAR á Íslandi, teljum við að eftirfarandi þurfi að ganga eftir með viðunandi hætti:

 

ÁKVÖRÐUN UM EVRÓPU

Það er kominn tími til að Íslendingar fái botn í áralanga umræðu um það hvort við ætlum að sækjast eftir aðild að ESB og taka upp evru eða sigla okkar sjó um alllanga framtíð með íslensku krónuna sem framtíðargjaldmiðil.

Umræðan um þessi mál hefur verið algjörlega óviðunandi hér á landi. Hún hefur því miður ekki farið fram af neinni yfirvegun og skynsemi. Hún hefur verið  sundurlaus og hættuleg. Því miður hefur stundum skort á að menn gæti orða sinna og gefið yfirlýsingar sem hafa verið til þess fallnar að grafa undan trausti gagnvart Íslendingum.

Stærri fyrirtæki eru smám saman að segja skilið við krónuna með því að færa fjármál sín yfir í erlenda mynt, eðli viðskiptanna vegna,  og nú síðast að færa skráningu hlutabréfa sinna yfir í erlenda mynt. Þetta hefur verið orðað þannig að evran sé að koma inn bakdyramegin. 

Aðrir telja að með inngöngu værum við að framselja yfirráðarétt þjóðarinnar yfir fiskimiðum og öðrum nýtanlegum náttúruauðlindum og gætum misst tökin á efnahagsþróun í landinu. Talað er um að hagvöxtur hafi verið meiri á Íslandi en í Evrópusambandslöndum á liðnum árum og það séu gild rök fyrir því að halda óbreyttri stefnu.

Enn aðrir nefna að íslenska krónan sé örmynt sem fái engan veginn staðist til frambúðar. Það vantar rök fyrir ofurstyrk íslensku krónunnar sem veldur útflutningsgreinum búsifjum og eykur einkaneyslu. Bent hefur verið á það að í framtíðinni verði einungis  um 3-4 gjaldmiðla að ræða í heiminum, USD, EVRU og væntanlega öfluga ASÍU-mynnt.  Eigum við þá að gera ráð fyrir því að íslenska krónan verði fjórða meginmyntin?  Ætli það?  

Allt er þetta spurning um tíma. Er ekki rétti tíminn einmitt kominn á Íslandi fyrir vitræna umræðu um Ísland og Evrópu með ákvörðun - af eða á -  að markmiði. Er sá tími ekki strax eftir kosningarnar 12. maí? Við lítum þannig á að þessi mál eigi að leiða til lykta á næsta kjörtímabili.

Það er sú krafa sem við gerum til þeirra sem verða kjörnir til setu á Alþingi í vor og til þeirrar ríkisstjórnar sem þá verður mynduð. Ef góður meirihluti næst á Alþingi fyrir því að láta reyna á aðildarumsókn á grundvelli skilgreindra samningsmarkmiða og sé atvinnulífið og verkalýðshreyfingin því fylgjandi – þá á að láta til skarar skríða fyrr en seinna. 

Næsta þing og næsta kjörtímabil ráða útslitum. 

Verði ekki samhugur um það, getum við hætt að fjalla um þessi Evrópumál – í bili að minnsta kosti – því að umræðan eins og hún er núna gerir ekkert nema skaða samfélagið. 

Nýjar Gallup-skoðanakannanir sýna að tæp 60% þjóðarinnar styðja aðildarviðræður og 50% vilja taka upp evru (þótt það sé trúlega ekki hægt án aðildar). En nú er komið að því að taka þessi mál til málefnalegrar umræðu í þjóðfélaginu. Nýtt Alþingi í vor mun eiga næsta leik og Íslendingar verða að komast að niðurstöðu á næsta kjörtímabili.

 

LÆKKUN SKATTA

Það er eðli samtaka af þessu tagi að berjast fyrir lækkun skatta. En við teljum okkur hafa sterk rök fyrir því að lægri skattar leiði til velfarnaðar með því að auka framtakssemi, starfsvilja og athafnaþrá fólks og fyrirtækja.

Samtök iðnaðarins hafa um árabil barist fyrir lækkun virðisaukaskatts af matvælum,  matarskatts, og afnámi vörugjalda af iðnaðarvörum. Þann 1. mars sl. var stigið stórt skref í átt til lækkunar eins og kunnugt er. Við fögnum þessu skrefi og færum stjórnvöldum þakkir. Ekki síður fyrir þá yfirlýsingu fjármálaráðherra, Árna Matthiesen, sem hann gaf á fundi hjá okkur þann sama dag, að nú yrðu gerðar þær breytingar á virðisaukaskattslögum að frá og með næstu áramótum yrði farið að endurgreiða VSK af þjónustu til ríkisstofnana í tölvu-og hugbúnaðarviðskiptum. Hér er um að ræða baráttumál sem teygir sig áratug aftur í tímann en núverandi ástand hefur leitt til samkeppnishamlandi áhrifa sem verða afnumin, samkvæmt þessu loforði. Fyrsta skref segir ráðherrann og við treystum því. 

Skattamál verða endalaust deiluefni í þjóðfélaginu. Tekjuskipting er eilíft þrætumál.

Verstu skattar sem unnt er að leggja á, eru þeir sem draga úr athafnalöngun fólks og verðmætasköpun í fyrirtækjum. 

Reynsla sýnir að lækkun tekjuskatts á fyrirtæki hefur hvetjandi áhrif og getur skilað ríkissjóði meiri tekjum en hærri skattprósenta. Forsætisráðherra staðfesti þetta í ræðu á Viðskiptaþingi í síðasta mánuði. Hann benti á að árið 2001 hefði 30% tekjuskattur félaga skilað 5% af skatttekjum ríkisins, en á síðasta ári hefði 18% tekjuskattur skilað 10% af skatttekjum ríkisins og fór úr 9 milljörðum í 34 á þessu tímabili. Ljóst er að þessi umtalsverða lækkun tekjuskattsprósentu hefur reynst hvetjandi – þótt fleiri þættir hafi vitanlega áhrif á þessa mynd.

Fyrirkomulag á skattlagningu söluhagnaðar hlutabréfa fyrirtækja er nú óheppilegt að vissu marki. Það þarf að lagfæra, m.a. til að koma í veg fyrir að fyrirtæki telji heppilegt að færa starfsemi sína úr landi til að nýta sér hagstæðara skattumhverfi. 

Í fyrrnefndri ræðu lýsti forsætisráðherra skilningi á þessu og hefur greinilega ekki vilja til að hrekja fyrirtæki úr landi af skattaástæðum. Hann sagði:

„Jákvæð reynsla okkar af skattbreytingum á undanförnum árum styrkir mig í þeirri trú að ef við göngum enn lengra í þessum efnum munum við ná meiri árangri við að byggja hér upp öflug fyrirtæki sem aftur skila miklum skatttekjum. Við eigum ekki að vera í samkeppni við skattaparadísir um illa fengið fé. En íslensk stjórnvöld eiga að setja sér það markmið að vera með eitt samkeppnishæfasta skattaumhverfi í heimi og ganga helst aldrei skemmra en samkeppnisþjóðir okkar í umbótum. Ef við náum árangri í að laða hingað fjármagn skjótum við sterkari stoðum undir hinn opinbera rekstur og tryggjum öflugt velferðarkerfi þjóðarinnar.” 

Samtök iðnaðarins taka undir þessi viðhorf.

 

AÐ LOKUM

Hér að framan hef ég haldið því fram að Íslendingar geti vænst áframhaldandi velgengni þegar reynt er að rýna næstu 10-15 ár fram í tímann.  En þá þarf ýmislegt í umhverfinu að ganga upp með jákvæðum hætti eins og fram hefur komið:

 

  • Við verðum að búa við stöðugleika og frið á vinnumarkaði.
  • Vaxtastigið verður að fara hratt niður.
  • Það þarf festu í landsstjórninni. Stjórnarkreppa eftir kosningar í vor gæti hleypt verðbólgu á skrið og grafið undan kjörum fólks og fyrirtækja eins og við upplifðum á áttunda og níunda áratugnum. Forðumst endurtekningu á því.
  • Það er forgangsverkefni að ná viðunandi sátt um stefnu í auðlindanýtingu og náttúruvernd.
  • Á næsta kjörtímabili verður að fást niðurstaða varðandi stefnu Íslendinga í Evrópumálum.Tími yfirvegaðra skoðanaskipta í þeim málum er nú runninn upp.
  • Við þurfum að sýna fullan skilning á mikilvægi mannauðs og menntunar ef við ætlum ekki að  dragast aftur úr í harðri samkeppni nútímans.

 

Og síðast en ekki síst:

Við þurfum að tileinka okkur rétta hugarfarið. Gleymum ekki grundvallaratriðum. Við fjöllum hér mikið um verðmætasköpun – hún er vissulega undirstaða veraldlegrar velsældar og hagvaxtar.

Peningar skipta máli en peningar eru ekki allt. 

Við Íslendingar þurfum að auka jafnvægi  peningahyggju og velferðar til að ná aukinni sátt í hinu örsmáa samfélagi okkar.

- - -

Ég minni ykkur á gamlan húsgang. Hann er mikið umhugsunarefni nú á tímum:

 

Margur ágirnist meira en þarf,

maður fór að veiða skarf

hafði fengið fjóra.

Elti þann fimmta, en í því hvarf

niður fyrir bjargið stóra.

 

Góðir fundarmenn!

Verum bjartsýn og stöndum okkur vel í verðmætasköpuninni.

En látum græðgina ekki ráða för – svo að við hverfum ekki niður fyrir bjargið stóra.

 

Takk fyrir.