Efni tengt Iðnþingi 2008

Erindi iðnaðarráðherra á Iðnþingi 2008

Ágætu Iðnþingsgestir,

Yfirskrift þessa Iðnþings er: "Mótum eigin framtíð."

Ég veit vel, að vextirnir eru alltof háir, gengið of óstöðugt, og Evrópusambandið kanski í dapurlegri fjarlægð.

Fyrir iðnaðinn eru samt góðar fréttir af framtíðinni!

Ísland er allt í einu farið að þokast inn á radar alþjóðlegra hátæknifyrirtækja, sem vilja eignast sameiginlegar hosur með okkur og gera þær grænar.

Er það meiri en áhugi? Sannarlega.

Hlutirnir eru byrjaðir að gerast.

Sjáum Becromal.

Á síðasta sumri tókust samningar um nýtt hátæknifyrirtæki á Íslandi. Hið norður-ítalska Becromal í samvinnu við sunnlenska fjárfesta rak tjaldhæla sína í jörðu við hliðina á gömlu Krossanesverksmiðjunni á Akureyri.

Skoðum Verne.

Um leið og ríkisstjórnin tók af skarið um lagningu nýs sæstrengs, hvenær hann skyldi lagður og hvert hann skyldi liggja, þá opnaðist um leið farvegur fyrir nýja atvinnugrein á Íslandi, nýja tegund fyrirtækja, gagnaver.

Ég get trúað ykkur fyrir því að ýmsir kollegar mínir á hinu háa Alþingi sumir í þessum sal sem þið sitjið í núna gerðu góðlátlegt grín að því í þinginu þegar nýir ráðherrar töluðu af bjartsýni um möguleika Íslands til að verða heitur reitur alþjóðlegra gagnavera, selja íslenska kuldann, og grænu íslensku orkuna meira að segja á hærra verði en hingað til!

Í síðustu viku var tilkynnt um fyrsta íslenska gagnaverið. Það verður líklega ekki hið síðasta. Einn af fjárfestunum, ættaður af slóðum vestfirsku lúðuveiðaranna í Boston, sagði að á næsta áratug gætu Íslendingar búist við "bylgju" af slíkum fyrirtækjum. Í sama streng tók yfirmaður tækniþróunardeildar IBM, sem ræddi við ýmsa ráðherra í síðasta mánuði, og sagði að sitt starf um þessar mundir væri aðallega að velja staði undir ný gagnaver.

Mér þótti líka eftirtektarvert, að sá sem harðast gagnrýndi ákvörðun ríkisstjórnarinnar um legu sæstrengsins, tók svo til orða í Viðskiptablaðinu fyrir 3 vikum, að gera mætti ráð fyrir eftirspurn í þeim mæli, að innan fimm ára þyrfti hugsanlega að leggja nýjan sæstreng. Ef þess þarf til að greiða fyrir nýjum fyrirtækjum hingað til lands, þá mun ríkisstjórnin gera það.

Sjálfum finnst mér það táknrænt að í Krossanesi, þar sem smávöxnum fiski var áður breytt í lýsi og mjöl breyta menn nú áli í aflþynnur sem á að nota í sólarrafhlöður.

Jafntáknrænt fannst mér, að stofnun fyrsta gagnaversins, Verne, var tilkynnt þar sem áður var gamla Fiskifélagið.

Við hlið gömlu, traustu greinanna hasla nýjar sér völl.

Í þessu speglast samspil fortíðar og framtíðar í nýja atvinnulífinu. Í þessu speglast líka einbeittur vilji þessarar ríkisstjórnar til að greiða nýjum alþjóðlegum hátækniiðnaði leið inn í íslenskt atvinnulíf.

 • Þessvegna hefur hún lýst því yfir að það sé til þess ætlast að íslensk orkufyrirtæki bindi ekki allt sitt svigrúm í álverum og hefðbundinni stóriðju heldur hafi jafnan til reiðu orku handa nýjum, orkufrekum og mengunarlausum hátækniiðnaði. Það er að gerast.
 • Þessvegna hefur hún ákveðið að lækka skatta á fyrirtæki úr 18-15%. Það er að gerast.
 • Þessvegna hefur hún ákveðið að tvöfalda stuðnng við sprotaumhverfið á kjörtímabilinu. Það er að gerast.
 • Þessvegna hefur hún til skoðunar sérstakt frumkvöðlanám á háskólastigi hér á landi, til að auðvelda þeim ferðalagið sem vilja þróa viðskiptahugmynd í kringum sprota.

Það er samt ekki nóg. Góður veiðimaður þekkir, að það þarf rétta flugu á réttum tíma til að veiða harðskeyttan urriða. Ef Íslendingar ætla að verða samkeppnisfærir um hátæknifyrirtæki þurfum við að vera reiðubúin til þess að kosta nokkru til. 

Landfræðileg lega gerir að verkum, að það kostar meira fyrir erlend hátæknifyrirtæki að byggja sig upp hér, en í ýmsum öðrum löndum.

Auðvitað bjóðum við upp á sérstöðu einsog umhverfisvæna, græna orku, hagstætt skattaumhverfi og menntaðan mannafla. Við þurfum samt, líkt og önnur lönd og líkt og Evrópusambandið heimilar - að vera reiðubúin til að koma í einhverjum mæli til móts við landafræðina.

Það verður hins vegar að gera með almennum hætti, þar sem jafnræði ríkir.

Ríkisstjórnin hefur nú sett af stað vinnu til að skoða hvað önnur lönd gera í þessum efnum, og hvað Íslendingar þurfa að gera til að verða samkeppnishæfir utan þéttbýlisins eigi að takast að fá meira en hefðbundinn stóriðnað á landsbyggðina.

Það eru ákveðnir möguleikar fyrir hendi en við þurfum að markaðssetja þá rétt.

Við gætum t.d. þurft að gera snarpt menntunar- og starfsþjálfunarátak í vissum greinum til þess að geta boðið ný  og græn fyrirtæki velkomin.

Lítum okkur nær: Iðnaðarráðuneytið og Samtök iðnaðarins hafa verið að þoka áfram ýmsum verkefnum og ég held að við getum með sanni sagt að okkur hafi miðað áleiðis:

 • Stuðningskerfi atvinnuþróunar og nýsköpunar er orðið nokkuð heildstætt.
 • Með Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur orðið til ný framtíðarsýn og nýjar áherslur.
 • Við höfum lagt áherslu á eflingu samkeppnissjóðanna, ekki síst Tækniþróunarsjóðs, og einsog ég sagði þá verða framlög til hans tvöfölduð á kjörtímabilinu.   
 • Við höfum beitt okkur fyrir aukinni þátttöku atvinnulífsins í mótun stefnu Vísinda- og tækniráðs.
 • Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins starfar nú með auknum þrótti.

En betur má ef duga skal! Við þurfum  að leggjast fastar á árar á nokkrum sviðum:

 • Í fyrsta lagi vil ég að sú gjá sem er í fjármögnun nýsköpunar- og sprotaverkefna á milli Tækniþróunarsjóðs og Nýsköpunarsjóðs verði brúuð.  Forustumenn beggja sjóðanna hafa lýst áhuga á að sú brú verði byggð frá báðum endum.
 • Í öðru lagi er einn og hálfur milljarður króna eyrnamerktur Nýsköpunarsjóði í samlagssjóð með öðrum fjárfestum. Þar hafa eftirlitsstofnanir með óvæntum hætti lagt stein í götuna. Atvinnulífið verður nú að taka á með með okkur til þess að sú góða hugmynd verði að veruleika í nýjum búningi.
 • Í þriðja lagi felast nýir möguleikar í því að ferðaþjónustan er nú komin í umhverfi iðnþróunarmála. Til er orðin vel samstæð heild verkefna undir iðnaðarráðuneytinu sem getur sótt styrk hvers til annars. Það tækifæri þurfum við að nýta.

Í yfirskrift þingsins :  Mótum eigin framtíð   er sérstaklega vísað til þess hvernig Ísland kunni að tengjast þróun Evrópusambandsins á komandi árum. 

Það er auðvitað öllum ljóst að innganga í ESB er ekki á dagskrá hjá núverandi ríkisstjórn.  Það breytir ekki þeirri skoðun minni að ávinningur af fullri þátttöku muni auka velmegun í landinu, t.d. með stöðugra gengi, lækkun viðskiptakostnaðar, lægri tollum og almennt lægra vöruverði.  

Í þessu efni má ekki kredda heldur blákalt hagsmunamat ráða. Ég trúi því að þekking landsmanna á þessum möguleikum fari vaxandi og að á komandi árum verði auðveldara en fyrr að skýra og ná fram sérhagsmunum okkar gagnvart Evrópusambandinu.  Það er því óhjákvæmilegt að málefni þess verði snar þáttur í mótun framtíðar okkar Íslendinga.

Megi ykkur ganga vel að móta eigin framtíð á Iðnþingi 2008!