Efni tengt Iðnþingi 2008

Framtíðin liggur í heimsvæðingunni

Erindi Valgerðar Sverrisdóttur alþingismanns á Iðnþingi 2008

Fundarstjóri, góðir fundarmenn.

Mér er það heiður og ánægja að ávarpa Iðnþing og fjalla um það málefni sem er ofarlega á baugi um þessar mundir og snýr m.a. að því hvernig og með hvaða hætti við Íslendingar skipum okkur í sveit í breyttum og opnari heimi. Hver sú umgjörð á að vera sem við kjósum að hafa um efnahagslíf okkar og þjóðlíf. Þetta er málefni sem ég hef mikinn áhuga á að ræða.

Mig langar í upphafi máls mín að fjalla í stuttu máli um það hvernig heimsvæðingin hefur horft við mér út frá minni eigin lífsreynslu og hvernig mál hafa þróast hjá Völlu á Lómatjörn, eins og sú sem hér stendur kallast í sveitinni heima.

Þegar ég man fyrst eftir mér þá var sjóndeildarhringurinn ekki ýkja stór. Hann var í rauninni bara bærinn okkar og túnið heima. Mér fannst þannig langt að fara á næsta bæ þó að það væri innan við kílómeter.

Það var einstaka sinnum farið til Akureyrar á Willis. Það ferðalag tók á annan klukkutíma enda taldi móðir mín hæfilegan ökuhraða 40 kílómetra á klukkustund. Þá væri maður viðbúinn öllu. Ég minnist þess að þegar við komum frá Akureyri þá fór um mig sælutilfinning þegar ég sá heim að bænum. Þá var ég á heimavelli og það fylgdi því öryggistilfinning.

Síðan leið tíminn og ég fór í Kvennaskólann í Reykjavík. Þar átti ég góða daga. Þá hafði heimurinn stækkað og þegar ég fór heim í fríum færðist sælutilfinningin yfir þegar sá niður í Eyjafjörðinn.

Ég dvaldi tímabundið bæði í Þýskalandi og Englandi, sem var góð lífsreynsla. Þegar heim kom var ég á heimavelli þegar flugvélin lenti á Íslandi.

Það er síðan árið 1987 að ég er kjörin á Alþingi. Ég tók strax sæti í Norðurlandsráði, enda áhugasöm um norrænt samstarf.

Á fyrstu árum mínum á þingi fór ég ásamt tveimur öðrum þingmönnum á umhverfisráðstefnu til Rússlands. Þá var veldi Sovétríkjanna ennþá við líði og Moskvuborg var dimm. Þegar ég lenti í Kaupmannahöfn á leiðinni heim til Íslands fann ég þessa sælutilfinningu sem áður er getið. Þannig hafði sjóndeildarhringurinn enn stækkað. Ég var hluti af hinni norrænu heild.

Svona gæti ég jafnvel haldið áfram að stækka heimavöllinn, en læt hér staðar numið.

Ástæða þess að ég segi þessa sögu er sú að þessi þróun hefur átt sér stað í lífi mínu og margir aðrir hljóta að upplifa breytingarnar með svipuðum hætti. Þetta er heimsvæðingin eins og hún snýr að mér sem einstaklingi, eins og ég upplifi hana á eigin skrokki, en hún endurspeglast jafnframt í stjórnmálalegu viðhorfi mínu. Í dag er ég samband af þjóðernissinna og alþjóðasinna með sannfæringu fyrir því að alþjóðleg samvinna tryggi best efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Til viðbótar þessu er ég samvinnumaður og er hlynnt samstarfi á sem flestum sviðum.

Góðir fundarmenn.

Það hafa verið forréttindi að fá að taka þátt í því að breyta tiltölulega einangruðu þjóðfélagi og þjóðlífi hér á landi í nútímalegt, framsækið samfélag, sem er í fyrsta sæti á meðal þjóða heims þegar litið er til velferðar þegnanna.

Í tíð minni sem ráðherra fékk ég oft spurningar frá kollegum mínum sem lutu að því hvernig við Íslendingar hefðum unnið okkur út úr fátækt og upp í þá stöðu sem við búum við í dag. Minn flokkur, Framsóknarflokkurinn, hefur verið í forystu í mörgum þeirra stóru mála sem skipt hafa sköpum í þessari framþróun.

Ég nefni fiskveiðistjórnunarkerfið, sem kom rekstrargrundvelli undir fiskveiðar. Sú atvinnugrein hefur síðan getað borið sig þó að ýmislegt hafi gert greininni erfitt fyrir eins og t.d. eilíf óvissa um stefnu stjórnmálaflokkanna til framtíðar og miklar sveiflur í gengi íslensku krónunnar.

Ég nefni EES-samninginn. Það var í tíð Steingríms Hermannssonar sem forsætisráðherra sem ákveðið var að hefja þá vegferð. Steingrímur hvarf svo síðar frá stuðningi við samninginn út frá ákveðnum forsendum, og þingflokkur framsóknarmanna skiptist þá í tvennt í afstöðu sinni til málsins. Þá vorum við framsóknarmenn í stjórnarandstöðu og ekkert samráð var haft við stjórnarandstöðuna við lokafrágang samningsins. Við sexmenningarnir sem sátum hjá vorum hins vegar sannfærð um mikilvægi hans.

Það var einmitt í umræðunni um EES-samninginn á Alþingi sem áhugi minn vaknaði á Evrópumálum og hefur hann verið til staðar æ síðan.

En það er fleira sem er grundvöllur framfara hér á Íslandi. Ég nefni nýtingu endurnýjanlegrar orku. Í þeim efnum var hik á Íslendingum á fyrri hluta aldarinnar og við lentum langt á eftir Norðmönnum sem voru iðnir við að virkja og byggja upp atvinnulíf á grundvelli orkunýtingar.

Á fyrri hluta 10. áratugar síðustu aldar ríkti stöðnun hér á landi. Fólk fluttist unnvörpum úr landi. Þá skipti sköpum að erlend fjárfesting kom inn í landið með stækkun álversins í Straumsvík og nýju álveri á Grundartanga. Hjólin fóru að snúast á ný og margt kom í kjölfarið í almennum iðnaði, eflingu hátæknigreina og í þekkingariðnaði.

Það sem hefur svo ekki síst valdið uppgangi síðustu ára er sú gríðarlega breyting sem varð við sölu ríkisfyrirtækja, og er þar nærtækt að nefna ríkisbankana tvo. Í kjölfarið kom sala Símans. Jafnframt var lögð áhersla á að ríkið skyldi almennt ekki standa í samkeppnisrekstri.

Það er ekki síst einkavæðingin sem hefur verið grundvöllur útrásarinnar, sem aftur er ein birtingarmynd heimsvæðingarinnar. Hefur hún verið drjúgur þáttur í aukinni velmegun þjóðarinnar.

Þetta er sú staða sem blasir við okkur í dag en engu að síður stöndum við frammi fyrir alvarlegum vanda sem þarf að ræða og þarf að finna lausn á.

Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur lengst af verið stærsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi, hefur reynt að koma í veg fyrir þá umræðu og hefur orðið nokkuð ágengt í því.

Við erum í sjálfheldu. Við getum ekki boðið almenningi og atvinnulífi upp á að búa við þá óvissu í gengismálum og það háa vaxtastig sem er við líði hér í dag. Það er margt sem bendir til þess að hagkerfi okkar sé of lítið í ólgusjó innri markaðar Evrópu til að bera sjálfstæðan gjaldmiðil og sjálfstæða peningamálastefnu.

Erlend langtímafjárfesting getur ekki átt sér stað á meðan ástandið er óbreytt en hins vegar er góð sala í svokölluðum jöklabréfum. Áhuginn á þeim byggist á þeim gríðarlega vaxtamun sem er á milli Íslands og annarra landa sem við berum okkur saman við.

Seðlabankinn er fastur í neti þeirra sem bréfin kaupa og mun að öllum líkindum halda áfram um sinn þessum 10% vaxtamun. Annars er hætta á að bréfin verði innleyst með hraði og þá fellur gengið. Við það eykst verðbólgan en Seðlabankinn hefur einmitt það hlutverk að halda henni niðri. Svona gengur þetta fyrir sig. Þá veldur hávaxtastefnan gengi íslensku krónunnar mjög hátt skráðu og hefur það bitnað mjög á íslenskum útflutningsgreinum.

Þau lánakjör sem íslenskur almenningur og íslensk fyrirtæki búa við er óviðunandi. Fyrir vikið er sótt á erlend mið í lántökum sem síðan kallar á gengisáhættu og einhvers konar lotterí, því enginn veit jú nákvæmlega hvernig gengið mun þróast.

Lausnin verður sú hjá þeim sem eru með tekjur í erlendum gjaldmiðlum að greiða hluta launa í sömu mynt og er sú þróun þegar hafin. Auk þess vilja fleiri og fleiri fyrirtæki að sjálfsögðu gera upp í öðrum gjaldmiðlum og skrá hlutafé sitt sömuleiðis í þeim gjaldmiðlum.

Þá fyrst er hægt að tala um að tvær þjóðir búi í þessu landi. Annars vegar þjóðin sem verður að sætta sig við krónuna og hins vegar þjóðin sem fær hluta launa sinna til að mynda í evrum og getur þar með tekið lán í þeirri mynt á 4-5% vöxtum, án gengisáhættu.

Þegar ég hitti fólk sem stundar rekstur, t.d. í ferðaþjónustu, þá spyr ég gjarnan hvernig gangi. Svarið er oft á þá leið að það sé óljóst. Það fari eftir stöðu krónunnar. Það er þannig oft mikið viðbótarálag sem fylgir því að reka fyrirtæki í íslensku efnahagsumhverfi.

Þegar efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar spilar ekki í takt við peningamálastjórn Seðlabankans þá verður þessi staða auðvitað miklu erfiðari viðureignar.

Það eru nú 2 ár síðan ég setti fram í pistli á heimasíðu minni vangaveltur um nokkra kosti sem bæri að skoða til að freista þess að ráða bót á þessum vandræðum. Ég gekk út frá því að íslenska krónan ætti ekki langa framtíð fyrir sér og að aðild að Evrópusambandinu væri of umdeild til að geta orðið að veruleika á næstu árum.

Kostirnir sem ég taldi að við þyrftum að velta fyrir okkur voru m.a. þeir að taka upp evru einhliða eða ganga í Efnahags- og myntbandalagið, án aðildar að ESB. Viðbrögð við þessu útspili mínu voru ótrúlega neikvæð hér heima og í raun hlógu flestir að þessu, þó ekki allir. Mér hefur því verið þó nokkuð skemmt þegar sömu menn og hlógu hvað hæst þá hafa verið að gæla við það núna á síðustu mánuðum að einhliða upptaka evru bæri að skoða.

Allra mest furða ég mig þó á vangaveltum um upptöku svissnesks franka því viðskipti okkar við Sviss eru ekki mikil að vöxtum. Ég tel þetta því ekki raunhæfan kost í stöðunni.

Höfum það í huga að evran er sá gjaldmiðill sem gnæfir yfir aðra á innri markaði Evrópu - og þar erum við. Tæpur helmingur af viðskiptum okkar er við evru-lönd og það hlutfall mun að öllum líkindum aukast í framtíðinni.

Ég hef spurt háttsetta aðila í Sviss hvort þar sé áhugi á því að taka upp evru í stað svissneska frankans. Svarið hefur verið að vextir í svissneskum franka séu lægri en í evrum þannig að það sé þess vegna ekki þrýstingur í þá átt. Þegar ég sagði frá vaxtastiginu hér á landi þá fórnuðu menn hins vegar auðvitað höndum og botna ekkert í því hvernig við förum að því að reka þetta þjóðfélag okkar.

Ekki liðu nema nokkrir dagar frá því að fyrrgreindur pistill minn birtist þar til svar barst frá Percy Westerlund, sendiherra og yfirmanni fastanefndar ESB gagnvart Íslandi. Svarið var að ekki væri pólitískur vilji til að leyfa upptöku evru án aðildar að ESB. Westerlund kannaði málið sérstaklega og ég minni á að þetta var fyrir 2 árum. Síðan hafa fleiri háttsettir aðilar stigið fram og svarað með sama hætti og nú síðast forseti framkvæmdastjórnar ESB, José Manuel Barroso.

 

 

Góðir fundarmenn.

Mjög margir eru þeirrar skoðunar að Ísland muni í framtíðinni verða aðili að Evrópusambandinu. Spurningin sé bara hvenær það muni gerast.

Með tilliti til þessa hefur farið fram mikið starf á vegum Framsóknarflokksins til þess að reyna að draga fram staðreyndir um Evrópusambandið og hver áhrifin yrðu ef Ísland gerðist aðili að sambandinu.

Að beiðni Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins og utanríkisráðherra, vann Deloitte & Touche skýrslu um Evrópusambandið árið 2003. Árið 2003 skilaði einnig vinnuhópur á vegum utanríkisráðuneytisins skýrslu um Íslenskan landbúnað í alþjóðlegu umhverfi. Þá lét Halldór í utanríkisráðherratíð sinni einnig vinna skýrslu sem bar yfirskriftina: Fiskveiðiauðlindin - Ísland og Evrópusambandið, sem gefin var út árið 2004. Það má jafnframt geta þess að Jón Sigurðsson, annar fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, var í forystu fyrir þeim nefndum sem unnu skýrslurnar. Í þessum skýrslum eru mikilvægar upplýsingar sem ég tel að allir þeir sem tjá sig um þessi mál ættu að lesa.

Það sem flestir bera fyrir sig þegar rætt er um aðild að Evrópusambandinu eru sjávarútvegsmál og yfirráðarétturinn yfir sjávarauðlindunum. Það er vissulega stórt mál fyrir Ísland að ákvarðanir um úthlutun kvóta séu teknar af Íslendingum einum og sér en ekki af ráðherraráði ESB.

Fram hefur komið í máli æðstu embættismanna framkvæmdastjórnar ESB að ef til Evrópusambandsaðildar kæmi myndu Íslendingar ráða því hverjir veiði í íslenski efnahagslögsögu. Með þessum orðum vísa þeir til þeirrar staðreyndar að kvótaúthlutun er að meginstofni ákveðin á grundvelli veiðireynslu og þau ríki sem nú mynda ESB hafa, eins og kunnugt er, ekki veitt í íslenskri lögsögu í ríflega þrjá áratugi. Reglan um hlutfallslega stöðugar veiðar, sem gengur út á að ríki halda sama hlutfalli af heildarkvóta í fiskistofnum, tryggi síðan að kvóti í stofnum innan íslenskrar efnahagslögsögu haldist hjá íslenskum stjórnvöldum sem geti ráðstafað honum með þeim hætti sem þau sjálf kjósa. Þetta staðfesti sendiherra Evrópusambandsins í grein í Viðskiptablaðinu í þessari viku.

Halldór Ásgrímsson þáverandi utanríkisráðherra ræddi þennan möguleika um sérstakt stjórnunarsvæði í ræðu sem hann flutti í Berlín, þá þegar árið 2004.

Þar sagði Halldór m.a.:

„Við höfum nú þegar dæmi um að fundnar hafa verið frumlegar lausnir við nýjar aðstæður. Sem dæmi má taka að í tengslum við landbúnaðarstefnuna er áhugavert að við síðustu stækkun voru fundnar leiðir til að taka tillit til þess að Evrópusambandið var ekki aðeins að stækka, heldur varð einnig eðlisbreyting á Sambandinu – það náði nú til loftslagssvæða sem það hafði aldrei náð til áður. Allt í einu tilheyrði Evrópusambandinu norðurskautssvæði með freðmýrum! Til að taka tillit til þessara nýju aðstæðna fékk landbúnaður norðan við 62. breiddargráðu sérstaka stöðu. Ég sé fyrir mér að þetta snerti a.m.k. hluta af þeim málum sem varða okkur miklu.

Þá er spurningin hvort unnt sé á sama hátt að finna nýjar lausnir við framkvæmd fiskveiðistefnunnar. Mér virðist það koma skýrt fram í reglum um framkvæmd stefnunnar að íslenska efnahagslögsagan geti verið sérstakt stjórnunarsvæði og fiskveiðikvótum væri úthlutað miðað við fyrri fiskveiðar og yrðu þannig áfram í höndum Íslendinga.

Þetta er þó ekki nægjanlegt – jafnvel þótt hlutfallslegur stöðugleiki tryggi í raun að ríki haldi hefðbundnum fiskveiðiréttindum sínum þá er hefðin ein og sér ekki nóg fyrir okkur. Sá fræðilegi möguleiki væri alltaf fyrir hendi að meirihluti ríkja gæti reynt að fá fram með þrýstingi breytingar á hlutfallslegri eign Íslands. Þótt þetta sé ólíklegt getum við ekki byggt efnahagslega framtíð okkar á slíkri óvissu.“

Þessi ræða vakti mikla athygli, víðar en á Íslandi.

Á flokksþingi Framsóknarflokksins árið 2005 var ályktað um Evrópumál. Þar segir að halda skuli áfram upplýsingaöflun og vinnu við mótun samningsmarkmiða og hugsanlegs undirbúnings aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Í framhaldinu var skipuð sérstök Evrópunefnd innan flokksins sem skilaði af sér skýrslu á flokksþingi fyrir ári síðan. Í niðurstöðum skýrslunnar koma m.a. fram samningsmarkmiðin eins og við framsóknarmenn viljum sjá þau, ef til aðildarviðræðna kemur. Þau lúta fyrst og fremst að sérstöðu sjávarútvegs og landbúnaðar.

 

Góðir fundarmenn.

Að síðustu vil ég segja þetta: Við erum Evrópuþjóð og eigum sögulega og menningarlega samleið með Evrópu. Langstærstur hluti viðskipta okkar er við Evrópuþjóðir. Vegna þessara nánu tengsla ákvað Ísland árið 1994, ásamt öðrum EFTA-ríkjum, að gerast þátttakandi í Evrópusamrunanum. Aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu var mjög umdeilt mál á sínum tíma en nú eru í raun allir sammála um að aðild hafi verið rétt ákvörðun.

Mér segir svo hugur að eins muni það verða ef við gerumst aðilar að Evrópusambandinu. Það verður umdeilt í aðdragandanum og að einhverju leyti á meðan á aðildarviðræðum stendur, en ef við næðum samningi sem þjóðin teldi hagstæðan og myndi samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu, hef ég þá trú að niðurstaðan myndi verða okkur farsæl.

Það sem fyrst og fremst fengist með slíkri aðild er að mínu mati aukinn stöðugleiki og meira öryggi til framtíðar.

Ég vil að lokum endurtaka það sem ég sagði á málþingi um samskipti Íslands og Evrópu sem haldið var að frumkvæði Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í nóvember árið 2006, en þá gegndi ég embætti utanríkisráðherra.

„Kjósi Ísland í framtíðinni að gerast aðili að Evrópusambandinu tel ég að slíkt skref, án þess að gera lítið úr því, hafi minni áhrif á daglegt líf Íslendinga en stökkið sem tekið var við aðildina að EES, jafnvel þótt að hin lögformlega breyting yrði vafalaust meiri.“

 

Ég þakka áheyrnina.