Efni tengt Iðnþingi 2008

ESB, evra og breytt heimsmynd

Erindi Illuga Gunnarssonar alþingismanns á Iðnþingi 2008

Ég vil í upphafi máls míns nota tækifærið og óska Samtökum iðnaðarins til hamingju með þetta glæsilega þing. Miklu skiptir fyrir íslenskt atvinnulíf að samstarf innan vébanda þess sé gott og samtök iðnaðarins hafa um langt skeið verið í forystu í atvinnulífi þjóðarinnar. Hugmyndir, áherslur og stefna samtakanna og forystumanna þeirra hafa haft mikil áhrif á þjóðmálaumræðuna og hér í þessum sal er saman komin gríðarleg þekking á íslenskum efnahagsmálum, á íslensku atvinnulífi, íslenskum vinnumarkaði og öllum þeim málum sem hafa áhrif á efnahagsstarfsemina í landinu. Það er því mikil heiður fyrir mig að fá að ávarpa ykkur hér og deila með ykkur skoðunum mínum á því efni sem hér er til umræðu. Fyrir þetta tækifæri vil ég þakka stjórn samtakanna sérstaklega.

Umræður um ESB á Íslandi virðast lúta nokuð sínum eigin lögmálum. Ég hef fylgst vel með henni frá því ég kom heim frá námi haustið 2000 og allt til þessa dags. Án þess að hafa reiknað það nákvæmlega sýnist mér að það sé hægt að lesa út úr þróun umræðunnar gangin í efnahagslífi þjóðarinnar.

Þegar vel hefur árað, ber lítið á umræðu um inngöngu í ESB. Þá virðast flestir vera fullir sjálfstraust og sannfærðir um að Ísland hafi lítið að sækja til skrifræðisins í Brussel  En þegar á móti blæs, gýs umræðan upp. Þá breytist reglufarganið í Brussel í örugga höfn sem býður upp á lausn á hverjum þeim vanda sem steðjar að atvinnulifi þjóðarinnar. Þetta bendir til þess að nokkuð langt sé í land þegar kemur að því að ræða til hlítar um stöðu Íslands gagnvart ESB. Það segir sig sjálft að slíkt stórmál verður ekki til lykta leitt á grundvelli einhverra tímabundinna vandræða í efnahagsstarfseminni.  

Með þessu er ég ekki að segja að umræða um ESB eigi einungis rétt á sér á fyrirfram gefnum tímum eða að ekki sé nauðsynlegt að ræða um stöðu Íslands á innri markaði bandalagsins. Þvert á móti, en það er ekki trúverðug umræða um framtíð lands og þjóðarsem á rót sína svo mjög í í aðkallandi vanda þessa dags og næsta.

Það Evrópusamband sem nú blasir við okkur Íslendingum hefur tekið miklum breytingum frá því að EES samningurinn var gerður. Sambandið er nú miklu stærra og margbrotnara en áður, sameiginleg mynt hefur verið tekin upp og hugmyndir um bandaríkin Evrópu hafa beðið nokkurn hnekki, þó enn sé óljóst hvort sambandið þróast í átt til aukins samruna eða ekki. Þessi þróun, og er hér ekki allt upp talið, kallar á að við Íslendingar metum stöðugt hagsmuni okkar og hvernig okkar málum verði best hagað í samstarfinu við ESB.  

Augljóst er að samningurinn um evrópska efnahagssvæðið hefur heppnast einstaklega  vel til þessa. Ég er ekki að ljóstra upp neinum leyndarmálum þegar ég segi hér, að á fundum forsætisráðherra með nokkrum forystumönnum ESB,  kom fram hjá þeim öllum að EES samningurinn gengi mjög vel og engin vandamál væru uppi vegna hans. Enda hefur samningurinn varið þá hagsmuni sem honum var ætlað að verja og þeir sem mest hafa talað fyrir því að hann væri að veikjast hafa átt erfitt að nefna dæmi um atvik þar sem hann hefur ekki þjónað hlutverki sínu. Þetta er mikilvægt að hafa í huga því aðgangur að innri markaði ESB er án efa mesti akkurinn sem hlýst af þátttöku í EES. Stundum er umræðan á þann veg að það er eins og við séum utan við allt ESB samstarf og verðum að sækja um aðild, ekki seinna en í gær, annars séum við ein að damla lengst norður í hafi.  

En við erum nátegnd ESB, við tökum til dæmis fullan þátt í vísinda- og menntasamstarfinu og við erum á innri markaðinum, sem skiptir mestu fyrir okkur að vera, við njótum viðskiptafrelsins, sem er það besta sem ESB hefur upp á að bjóða.

En það er fleira sem hefur verið að breytast innan vébanda ESB en bara fjöldi ríkja eða uppbygging stofnanna sambandsins. Þróun efnahagsmála í álfunni hlýtur að vekja athygli okkar. Þekkt er að vinnmarkaður ESB og löggjöf um hann er í besta falli þunglamaleg og hörmulega gengur að uppræta atvinnuleysi, einkum hjá ungu fólki. Vissulega er ekki síður við aðildarríkin sjálf einkum að sakast og dæmi eru um gamalgróin lönd innan sambandsins þar sem atvinnuleysi ungs fólks er allt að 20%. Hagvöxtur hefur ekki verið nægur á undanförnum árum og mörg hinna stærri ríkja hafa því átt fullt í fangi með að virða ákvæði evruupptöku um aga í ríkisfjármálum. Ég vil því nota tækifærið hér til að vekja athygli á því að margt bendir til þess að innri markaður ESB verði fremur hægvaxta efnahagssvæði á næstu áratugum.

Eitt af því sem mestu skiptir í mati manna á hagvaxtarhorfum eru breytingar á aldursdreifingu þjóða og geta samfélaga til að fást við afleiðingar þeirra. Þjóðir Evrópu eru nú að eldast og eldast hratt. Það er talið að nú séu um 16% evrópubúa eldri en 65 ára, en árið 2025 verður það hlutfall komið yfir 20%. Í einstökum ríkjum eins og Þýskalandi verður hlutfallið enn óhagstæðara, jafnvel hátt í 30%.  Lífeyrissjóðir álfunnar eru illa í stakk búnir til að takast á við þessa þróun og augljóst að mikil pressa verður á ríkisstjórnir þessara landa að auka framlög til öldrunarmála á næstu árum og áratugum. Slíkar kröfur munu auka líkur á skattahækkunum í ríkjum ESB. En annað vandamál fylgir öldrunarvanda Evrópu. Eftir því sem hærra hlutfall þjóðarinnar er 65 ára og eldri dregur úr sparnaði.  Minni sparnaður þýðir að öðru óbreyttu minni fjárfestingu og þar með minni hagvöxt.  

Hagfræðingar hafa reynt að meta hversu mjög mun draga úr eignum heimilanna í Evrópu vegna þessa á næstu 15 til 20 árum og þær tölur eru stjarnfræðilegar. Þessi vandi sem fyrirsjánanlegur er vegna minni sparnaðar bætist því við þann vanda að færri vinnandi hendur verða til að sjá fyrir sífellt fleiri eldri borgurum.

Framleiðni vinnuaflsins í Evrópu er minni en til dæmis í Bandaríkjunum og sífellt eykst samkeppnin frá hinum ört vaxandi hagkerfum Asíu. Möguleikar stjórnvalda til að hækka skatta til að greiða fyrir þá samneyslu sem almenningur í Evrópu krefst eru því mjög takmarkaðir. Mesta hættan er sú að Evrópa grípi til þess að ráðs að reyna að verja sig gegn samkeppni með samkeppnishamlandi reglum. Við höfum getað fylgst með því hversu illa gengur að koma á þjónustutilskipun ESB, en þjónusta hvers konar myndar bróðurpartinn af þjóðarframleiðslu þróaðra iðnríkja.   

Andstaðan við samkeppni í þjónustu á milli einstakra ríkja ESB gefur tilfefni til að hafa áhyggjur af því hvernig ESB muni bregðast við síharðnandi samkeppni frá ríkjum utan sambandsins í þjónustugeiranum á næstu árum og áratugum.

Eina færa leiðin fyrir ríki ESB til að mæta þessum vanda er sú að auka framleiðni og fjárfestingu þannig að verðmætasköpun á hvern vinnandi mann vaxi. Fjármálamarkaðir álfunnar hafa verið að styrkjast á undanförnum árum og gefur það von um að fjármagni leiti þangað sem afraksturinn er bestur. En afraksturinn verður að aukast og eina leiðin er sú að auka framleiðnina. Nýsköpun, og tækniframfarir eru lykilorð og fjárfesting í menntun og rannsóknum mun ráða úrslitum í þessum málum. Mestu skiptir að nýsköpun og tækni verður að vera drifin áfram af samkeppni en ekki opinberum styrkjum. Og sú tilhneiging að vernda fyrirtæki fyrir samkeppni til þess að þau hafi meiri fjármuni aflögu til að fjárfesta í rannsóknum og þróun er hættuleg, hún mun einungis leiða til sóunar.  

Samkeppni er eina raunhæfa leiðin til að fyrirtæki fjárfesti rétt og að þær fjárfestingar leiði til framleiðniaukningar og bættrar samkeppnistöðu.

Á sama tíma og Evrópa þarf að leysa þessi aðkallandi vandamál, og hefur tekist það fremur illa fram til þessaer gríðarlegur kraftur í helstu hagkerfum Asíu, víða í SuðurAmeríku og hver veit nema einhvern tíman takist að koma Afríku af stað í efnahagslegu tilliti.  Við finnum þessa dagana fyrir hinum mikla vexti í austri, hrávara og orka hækkar jafnt og þétt í verði og það veldur verðbólguþrýstingi á vesturlöndum. Og við munum finna meira fyrir vextinum á næstu árum. Reikna má með að hálfur milljarður manna muni bætast í hóp svokallaðra neytenda á næstunni, en neytendur er sá hamingjusami hópur jarðarbúa sem hefur yfir 5.000 dollara í tekjur á ári.  

Við Íslendingar hljótum að horfa til þessarar þróunar. Við hljótum að meta hvað möguleika smáríki á við þessar nýju breyttu aðstæður. Og við hljótum að spyrja okkur hvernig högum við málum okkar þannig að íslenskir hagsmunir verði best varðir, hvernig tryggjum við að lífskjör á Íslandi verði áfram sambærileg við það sem best gerist í heiminum. Það liggur fyrir gerð fríverslunarsamningar eru að verða algegnari eftir að DOHA lotan strandaði. Samningur okkar Íslendinga við Kína mun gefa okkur gríðarleg færi í þeim heimshluta þar sem möguleikarnir á hagvexti eru mestir. Og við verðum að hafa það í huga að ESB á sífellt erfiðara með að ná saman við ríki um fríverslun því nú þarf bandalagið að gæta að hagsmunum 27 aðildaríkja, og það er ekki einfalt verk, og jafnframt getur mótaðilanum vaxið nokkuð í augum stærð bandalagsins og það flækjustig sem því fylgir. Við Íslendingar eigum að nýta okkur smæðina, við eigum að vera risasmá og það er ekki líklegt að það sé svigrúm fyrir slíkt innan vébanda ESB.

 

Góðir gestir.

En mikilvægasti kosturinn við ESB er aðgangur að innri markaðinum, ekkert er jafn mikilvægt þegar kemur að því að meta kosti og galla aðildar. Mögulegir fríverslunarsamningar við önnur ríki vega ekki þungt miðað við frjálsan aðgang okkar að innri markaðinum. Ef við hefðum ekki EES samningin þá væri ég væntanlega í hópi þeirra sem legði til aðild að sambandinu. En við höfum EES samninginn, við höfum aðgang að innri markaðinum og njótum því þess besta sem ESB hefur upp á að bjóða nú þegar. En það er hárrétt að EES samningurinn jafngildir ekki aðild og það eru þættir innan ESB, utan EES samstarfsins, sem kynnu að vera okkur Íslendingum til gagns. Án efa er hin sameiginlega mynt einn þeirra þátta. Það er ekki vafi í mínum huga að upptaka evru hefði í för með sér ýmsa kosti fyrir íslenskt efnahagslíf. Myntin okkar er lítil og vel er hægt að rökstyðja að hún gagnist ekki atvinnulífinu nægjanlega vel. Kostir evrunnar væru sennilega einna mestir fyrir fjármálastarfsemina en einnig myndu ýmis önnur fyrirtæki hafa hag af því að nýta sér þá mynt. Áhugavert er þó að hafa í huga að meirihluti þeirra fyrirtækja sem nýta sér þann möguleika að gera upp í annarri mynt en þeirri íslensku hefur valið dollar sem uppgjörsmynt. En þegar við ræðum um kosti og galla þess að taka upp evruna sem mynt hér á landi þá verðum við að horfa á allt þjóðarbúið, við verðum að horfa á hagsmuni allrar þjóðarinnar. Að óbreyttu, og ég kem að því síðar í ræðu minni, verður Evran  ekki tekin upp nema með því að ganga í ESB, einhliða upptaka kemur ekki til greina. Kostir og gallar evru eru því um leið kostir og gallar fullrar inngöngu í ESB. Margsinnis hefur verið farið yfir hvað innganga í ESB þýðir og í þeirri umræðu má ekki skauta framhjá því að við njótum nú þegar helsta kostst bandalagsins sem er aðgangur að innri markaðinum. En gallarnir og ókostirnir eru til staðar og þeir skipta máli þegar horft er til þjóðarbúsins alls.  Það liggur fyrir að ESB aðild myndi færa varanlega yfirráð okkar yfir fiskveiðiauðlindinni til Brussel, okkur yrði gert að greiða mjög háar fjárhæðir til sambandins, möguleikar okkar til að gera tvíhliða fríverslunarsamninga yrðu engir og svo mætti halda lengi áfram. Hvað varðar evruna sérstaklega þá verðum við að hafa í huga að við gefum frá okkur stjórn peningamála en við losnum ekki þar með sagt við hagstjórnina. Innganga í ESB til að fá evru verður að grundvallast á þeirri trú að hagsveiflan íslenska verði með upptöku evru nægjanlega lík hagsveiflu meginlandsins þannig að hægt sé að búa við sameiginlega peningamálastefnu.

Framsækin og upplýst umræða evrópumál er ekki bara umræða um það hvernig við komumst inn í ESB. Framsækin og upplýst umræða verður að taka á því hvernig við sæjum fyrir okkur hagstjórn á Íslandi ef evran yrði tekin upp. Ég tel til að mynda að líkurnar á því að sú staða komi upp að okkar hagkerfi sveiflist á skjön við hagkerfi meginlandsins séu nokkuð miklar, þó þær hafi minnkað með aukinni framleiðslu áls og minna mikilvægi sjávarútvegs. En vegna þess hversu lítið hagkerfið okkar er, þarf ekki mikið að gerast til þess að við annað hvort höfum umtalsvert meiri eða minni hagvöxt heldur en gerist á meginlandinu – reyndar spái ég því, í ljósi þess sem ég sagði hér áðan, að næstu framtíð verði hagvöxtur meiri hér á landi en í ESB. Ef svo verður þá verðum við að trúa því að stjórnmálamennirnir geti notað ríkisútgjöldin til þess að halda hagkerfinu á réttu róli. Með öðrum orðum, ef vextirnir eru of lágir, vegna þess að það er verið að reyna að eyða atvinnuleysi í Frakklandi eða Þýskalandi og við erum á fleygiferð, t.d. vegna hinna miklu orkulinda okkar og sveigjanlegra hagkerfis svo dæmi sé tekið, þá þarf að hemla mjög í ríkisútgjöldum til þess að þensla verði ekki óbærilegt vandamál. Menn geta velt því fyrir sér hversu líklegt það er að stjórnmálamenn muni standa klárir á slíkri hagstjórn. Verður Vegagerðinni lokað tímabundið til að stíga hagsveifluna? Og ef það gengur nú í hina áttina, ef illa gengur hjá okkur en vel á meginlandinu þá þurfum við að klára hagstjórnina meðal annars í gegnum vinnumarkaðinn. Annað hvort tekst að semja um lækkun launa, þ.e. lækkun nafnlauna sem yrði vart þægilegt samtal í kjaraviðræðum, eða við búum við atvinnuleysi.

Allt eru þetta þekkt rök en það er ástæða til að nefna þau hér vegna þess að í umræðunni um upptöku evru að undanförnum hefur fyrst og fremst verið horft til kostanna en látið eins og engin vandkvæði fylgdu. Mér hefur oft og tíðum fundist umræðan heldur kæruleysisleg hvað þetta varðar, hin séríslenska nálgun sem kalla má „þetta reddast“ nálgunin hefur verið ofaná. Kostirnir eru tíundaðir en gallarnir afgreiddir án mikillar umræðu. Skyldi það hafa verið tilviljun að Bretar hafa ekki tekið upp evru? Vissulega er pundið margfallt stærra en krónan og breska hagkerfið margfallt stærra en það íslenska. En Bretum er í fersku minni hörmulegar afleiðingar þess að fara í myntsamstarf við þjóðir sem voru á annarri hagsveiflu en þeir sjálfir. Bretar hafa sett fram 5 skilyrði sem hagkerfið þeirra þyrft að fullnægja til þess að rétt væri að taka upp evruna sem mynt. Umræður þar í landi um kosti og galla evru eru ekki alltaf ekki til fyrirmyndar en þó tel ég þær um margt þroskaðri og dýpri en þær einföldu lausnir sem hér er gjarnan talað fyrir.  

Reyndar er það umhugsunarefni að evran er pólitískt fyrirbæri ekki síður en efnahagslegt. Tilurð hennar er ekki síst mörkuð af þeirri hugsun að hún ýtti undir samrunaferli innan ESB og hún var því tæki til að þrýsta álfunni í átt til sambandsríkis í líkingu við Bandaríkin Norður-Ameríku. En myntinni var auðvitað ætlað það hlutverk að fullkomna innri markaðinn, hún er mynt innri markaðar ESB, hún er hluti af því regluverki sem myndar þennan gríðarlega stóra markað. Mér finnst sú skoðun allrar athygli verð að þar sem evran er mynt innri markaðarins hefði EFTA þjóðunum í EES samstarfinu átt að standa til boða frá upphafi að taka þátt í myntsamstarfinu.  Ísland og Noregur gætu til dæmis vel haldið því fram að þar sem þjóðunum sé ætlað að taka upp allar reglur sem lúta að innri markaðinum til þess að tryggt sé að allir sitji við sama borð, ætti þjóðunum að standa til boða að nýta sér hina sameiginlegu mynt. Þessi skoðun hreyfir þó ekki við þeim rökum sem ég hef fært fyrir því að við eigum að standa utan ESB og að kostir við evruna séu ekki nægir til að vega upp á móti ókostum við að ganga í sambandið og þeim hagstjórnarvanda sem evran hefur í för með sér.

Sennilega hefði þurft að taka þetta mál upp annað hvort við gerð EES samningins eða þegar evran var innleidd. En ég nefni þetta hér vegna þess að ef við komust að þeirri niðurstöðu að íslenska krónan dugi ekki, að þá er hér á ferðinni leið sem mætti skoða áður en kemur að því að sækja um aðild að ESB til þess eins að fá evruna.  Umræða um svissneska frankan er annað dæmi um leið sem engin ástæða er til að henda frá sér að óathugðu mál. Og það er rétt að nefna að svissneski frankinn er nefndur til sögunar sem hugsanleg lausn, vegna þess að það gæti verið mögulegt að taka þátt í myntsamstarfi án þess að Ísland verði að einni Kantónu í Sviss.  En stundum er talað eins og þessi möguleiki sé einungis settur fram til að fara í taugarnar á þeim sem vilja ganga í ESB – svo er auðvitað ekki.

 

Ágætu fundarmenn

Ég er sammála formanni samtaka iðnaðarins þegar hann segir að umræðan um ESB hafi skerpst að undanförnu. Íslenskt efnahagslíf hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og sama er uppi á teningnum hvað varðar ESB. Við verðum því að vera tilbúin að endurmeta afstöðu okkar í ljósi breyttra aðstæðna. Þeir sem telja að Ísland eigi að ganga í ESB verða að sýna fram á að tekið sé tillti til heildarhagsmuna þjóðarinnar og mér sýnist að sú röksemdafærsla þurfi að byggja á því að ekki sé hægt að lifa með íslensku krónunni. Á hinn bógin stendur upp á okkur, sem viljum ekki ganga í ESB, að skýra betur í hverju sá valkostur að standa utan sambandsins er fólginn, m.a. vegna gjaldmiðilsmála.

Ég er fullviss um að lítið opið hagkerfi sem er hluti af innri markaði ESB eigi stórkostlega möguleika á því að tryggja þegnum sínum framúrskarandi lífskjör. Sveigjanleiki okkar og smæð nýtist okkur nú til að mynda við gerð viðskiptasamninga við Kína og við eigum að geta myndað fleiri slík sambönd við þær þjóðir sem líklegastar eru til að búa við mestan hagvöxt á næstu árum og áratugum. Innan ESB hefðum við engin, alls engin tækifæri til slíkra sérviðskiptasamninga. Við eigum að halda áfram að lækka skatta og það er ástæða til að hrósa ríkisstjórninni fyrir skattalækkunina á dögunum. Við eigum að hafa stjórnsýsluna einfalda og skilvirka, við eigum að nýta okkur stuttar boðleiðir frá viðskiptalífinu til stjórnvalda, við eigum að jafnt og þétt að lækka tolla og afnema sem flestar viðskiptahindranir og við eigum að nýta náttúruauðlindir okkar til sjós og lands af skynsemi og ábyrgð.  Samfélagið okkar á að einkennast af fullri atvinnu og framtakssemi, það á að einkennast af ábyrgð okkar á eigin velferð og örlögum og það á að einkennast af mikilli þátttöku almennings í stjórnmálastarfi og kosningum. Við þurfum einnig að móta samspil peningastefnunnar og ríkisfjármála miklu betur en nú er. Við vitum að þegar jafnvægi hefur verið í þjóðarbúskapnum hefur vaxtamunur við evrusvæðið verið lítill, eins og raunin var til dæmis á árunum 1995 til 2000. Ef við ætlum að búa við okkar eigin mynt þá verðum við að ná betri árangri heldur en þeim sem nú virðist vera raunin. Ég hef alla trú á því að það sé hægt og ég hef trú á því að valkosturinn sem felst í að vera utan ESB en hluti af innri markaðinum sé bæði raunhæfur og eftirsóknarverður.

Við Íslendingar höfum á undarskömmum tíma komist frá örbirgð til allsnægta í kraftir dugnaðar, hugvits og frjálsra viðskipta. Sjálfstæði þjóðarinnar fylgdi ábyrgð á eigin málum sem hvatti okkur áfram og var aflvaki framfara og velemegunar. Hnattstaða Íslands leiddi löngum til einangrunar og erfiðleika, en nú felast tækifæri í henni. Nú er loks runnin upp sú öld sem fáliðann virðir og velmenntuð smáþjóð á alla möguleika til að búa þegnum sínum bestu lífskjör sem þekkast á byggðu bóli. Það gerum við best með því að nýta færin eftir því sem þau gefas, en ekki með því að einblína á tilteknar lausnir og binda allar okkar vonir við þær. Þess vegna eigum við að halda í aðganginn að innri markaði Evrópu, en án þess að loka okkur þar inni.