• Iðnþing2013-pallborð

Mörkum stefnuna - Iðnþing 2013

Fjölmennt var á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins í gær þar sem fjallað var um efnahagsleg tækifæri og ógnir sem Ísland stendur frammi fyrir á næstu árum. Þrír erlendir sérfræðingar á ólíkum sviðum deildu með gestum sýn sinni á þróun í nýtingu auðlinda og lýðfræði á norðurslóðum, tækni- og löggjöf á Vesturlöndum og fjármál og iðnþróun Evrópu.

Fjölmennt var á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins í gær þar sem fjallað var um efnahagsleg tækifæri og ógnir sem Ísland stendur frammi fyrir á næstu árum. Þrír erlendir sérfræðingar á ólíkum sviðum deildu með gestum sýn sinni á þróun í nýtingu auðlinda og lýðfræði á norðurslóðum, tækni- og löggjöf á Vesturlöndum og fjármál og iðnþróun Evrópu.
 
 

Iðnþing2013-Svana Helen„Við þurfum að rjúfa kyrrstöðu, komast aftur á stað“ 

„Öflugt atvinnulíf og arðbær fyrirtækjarekstur er undirstaða lífsgæða fólksins í landinu. Við sem störfum í íslenskum iðnaði upplifum að myndast hafi gjá milli atvinnulífsins og stjórnvalda. Stjórnmálamenn hafa á undanförnum árum orðið viðskila við íslenskan iðnað. Þörf er á nýrri sýn, eða a.m.k. á nýju sjónarhorni á annars þekkt mál. Stjórnmálamennirnir móta skilyrði atvinnulífsins, en við þurfum siðbót innan stjórnmálanna og innan stjórnmálaflokkanna. Við megum engan tíma missa. Við þurfum að rjúfa kyrrstöðu, komast aftur á stað, upp úr gömlum förum og áfram.“

Þetta er meðal þess sem Svana Helen Björnsdóttir, formaður SI sagði í ræðu sinni á Iðþingi í dag.

Svana sagði það frumskyldu stjórnvalda í landinu að tryggja atvinnulífinu viðskiptaumhverfi sem stenst samanburð við það umhverfi sem viðskipta- og samkeppnisþjóðir búa við. Vanræki stjórnvöld það hlutverk líði allt þjóðfélagið, það tapi í samkeppninni um fólk og fjármagn og lífskjör í landinu versni.

Þá fjallaði Svana um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Hún sagði skiljanlegt að margir væru efins um að aðild væri rétta skrefið, atvinnuleysi sé mikið og viðvarandi í flestum evrulöndum, Evrópa verði væntanlega svæði hægs vaxtar næstu áratugi m.v. t.d. Asíu og N-Ameríku og rekstur evrunnar kalli á miklar breytingar, s.s. að reka björgunarsjóði og bræða saman ríkisfjármál evrulandanna. Hún sagði það þó engu að síður sína skoðun farsælast að halda viðræðunum áfram. Þar kæmi fram viðleitni til að búa íslensku atvinnu- og þjóðlífi betri skilyrði og jafna samkeppnisstöðuna. „Íslensk fyrirtæki eru í samkeppni við evrópsk fyrirtæki, bæði á markaði ESB og öðrum mörkuðum. En það er eins og við séum með aðra höndina bundna aftur fyrir bak, með gjaldeyrishöft, miklu hærra vaxtastig og gjaldmiðil sem hvergi er tekið mark á. Þetta bætist við þann vanda sem ekki verður ráðið við, sem er fjarlægð landsins frá helstu mörkuðum. Með þessu ástandi er öllu snúið á haus, við þyrftum einmitt að búa við betri samkeppnisskilyrði til þess að vega upp á móti fjarlægðinni.“ 

Ræða Svönu Helenar

Ísland kjörlendi nýsköpunar og tækniframfara

Iðnþing2013-Brad BurnhamBrad Burnham, fjárfestir hjá Union Square Ventures í New York, hefur fjárfest í netfyrirtækjum og samfélagsmiðlum sem eru hluti af daglegu lífi fólks um víða veröld. Hann telur að lagaumhverfið á netinu muni versna umtalsvert á næstu árum, sérstaklega í Bandaríkjunum og hefur lagt til að Íslendingar nýti sér tækifærið og skapi hér á landi kjörlendi nýsköpunar og tækniframfara á netinu, með einföldu lagaumhverfi og umhverfisvænum gagnaiðnaði. Hann telur Ísland hafa ótæmandi möguleika til viðskipta í gegnum netið og segir þjóðina geta tekið forystu með því að móta nýjar og nútímalegar reglur um milliliðalaus viðskipti á netinu og gerst miðstöð fyrir slík viðskipti.  

Tækifæri samfara breytingum á norðuslóðum

Dr. Laurence C. Smith, prófessor í jarð- og geimvísindum við UCLA háskóla í Bandaríkjunum hefur rannsakað náttúrulega og efnahagslega framvindu á nyrsta parti jarðar, meðal annars á Íslandi. Laurence hefur sett óvenjulega lýðfræði Íslendinga í sérstakt samhengi – ekki síst þegar borið er saman við aðrar norðurþjóðir. Þá hefur hann sett fram margvíslega spádóma og ráðleggingar sem varða hagræna stefnumörkun á norðurslóðum.

Iðnþing2013-Laurence C SmithÁ Iðnþingi Samtaka iðnaðarins í dag fjallaði hann meðal annars um athyglisverðar hugmyndir sínar um tækifæri Íslands í framtíðinni.  

Hann lýsti mikilvægi landfræðilega svæðisins sem hann kallar Northen Rim Countries eða NORC og samanstendur af Kanada, Norðurameríku, Grænlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi. En í þessum átta löndum og sjónum í kringum þau munu aðstæður gjörbreytast næstu 40 árin sem leiðir til vaxandi athafnasemi sem mun hafa áhrif um allan heim.

Benti hann á að hlýnun andrúmsloftsins væri óumflýjanleg en yrði hins vegar mismikil eftir svæðum. Svo virðist sem Ísland muni ekki hlýna eins mikið og mörg önnur svæði en hins vegar virðist ljóst samkvæmt öllum spám að einna mest hlýnun verði á norðurheimskautssvæðinu. Þetta hefur margvíslegar afleiðangar í för með sér. Annars vegar flyst meira fólk inn á svæðið, ásókn í auðlindir eykst, ekki síst á sviði olíu og gass sem virðist vera mikið af á svæðinu. Orka og auðlindir munu í vaxandi mæli koma frá norðurslóðum. 

Þá hefur hann fjallað mikið um orkunýtingu í framtíðinni en stór hluti þeirrar auknu orku sem notuð verður mun koma frá norðurhveli jarðar og Ísland hefur tækifæri til að vera í farabroddi.

Hlýnun á norðurslóðum mun á næstu áratugum opna nýjar siglingaleiðir sem vafalítið skapar margvísleg tækifæri. Ný tegund af þjónustuiðnaði er þegar farin að myndast og mikilvægt er að stefnumótun á Íslandi muni styðja við þátttöku íslensks atvinnulífs í þessari breyttu heimsmynd.

Lítil og meðalstór fyrirtæki

Iðnþing2013-krämerMatthias Krämer er framkvæmdastjóri sviðs lítilla og meðalstórra fyrirtækja hjá BDI, Samtökum iðnaðarins í Þýskalandi ræddi um efnahagsþróun Evrópu á næstu árum, samkeppnishæfni mismunandi greina og landa, fjármálakreppuna, viðbrögð við henni og skoðanir þýskra iðnrekenda á áhrifum núverandi efnhagsástands á framtíðarhagkerfi í Evrópu. Hann segir efnahagsmál standa afar vel í Þýskalandi en ekki hafi verið átakalaust að ná þeim árangri. Þjóðverjar hafi neyðst til að fara í sársaukafullar aðgerðir, niðurskurð og viðamikla endurskipulagningu sem nú hefur skilað sér. Krämer segir eina ástæðu þess hversu vel gengur í Þýskalandi vera þá að 99% fyrirtækja í Þýskalandi eru lítil eða meðalstór og meirihluti þeirra eru fjölskyldufyrirtæki. Þau standa undir tæplega 52% af landsframleiðslunni og veita 14 milljónum manns atvinnu. Starfsþjálfun sem fram fer í þessum fyrirtækjum vega til að mynda þungt í hlutfallslega lágu atvinnuleysi meðal ungmenna í Þýskalandi.

Matthias Krämer – glærur

Pallborðsumræður

Formenn fimm stjórnmálaflokka tóku þátt í pallborðsumræðum í lok Iðnþings. Þetta voru Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, stýrði umræðum og spurði formenn flokkanna út þau sjónarmið sem fram komu í erindum.  

Hér má sjá upptöku af þinginu