• Iðnþing2013-salur

Ályktun Iðnþings 2013

Á næstu árum og áratugum verða miklar breytingar í efnahagslegu umhverfi Íslands, bæði af völdum náttúrunnar og mannlegs samfélags. Margt í þeirri þróun getur orðið til hagsbóta fyrir Íslendinga, ef stjórnvöld og atvinnulíf taka höndum saman til að greina tækifærin og nýta þau.

Mörkum stefnuna

Ályktun Iðnþings 2013

  • Langtímahugsun í stað tilviljunarkenndrar stjórnsýslu
  • Samvinna atvinnulífs og stjórnvalda
  • Tækni- og raungreinamenntun í fyrirrúm
  • Nýsköpun á grunni núverandi atvinnulífs
  • Arðbærar fjárfestingar og viðhald opinberra eigna
  • Þjóðin ráði úrslitum varðandi Evrópumál
  • Nafnvextir verði lækkaðir
  • Lausn verði fundin á krónueign erlendra aðila
  • Afnám gjaldeyrishafta hafið sem allra fyrst
  • Kjarasamningar byggist á verðmætasköpun

Á næstu árum og áratugum verða miklar breytingar í efnahagslegu umhverfi Íslands, bæði af völdum náttúrunnar og mannlegs samfélags. Margt í þeirri þróun getur orðið til hagsbóta fyrir Íslendinga, ef stjórnvöld og atvinnulíf taka höndum saman til að greina tækifærin og nýta þau.

Lýðfræði íslensku þjóðarinnar er afar hagstæð. Orku- og auðlindaþróun getur unnið ríkulega með Íslandi.  Framþróun í tækni og breytingar á löggjöf í heiminum skapa fjölmörg færi. Þá þarf að nýta reynslu ólíkra ríkja af fjármálakreppu undanfarinna ára til að byggja upp bestu mögulegu framtíðarskipan sem völ er á hvað varðar fjármálakerfi og lögeyri. Grundvallaratriði er að stjórnvöld láti af handahófskenndum ákvörðunum um hagræn málefni. Vörugjaldakerfið, byggingarreglugerðin og skattbreytingarnar eru nokkur nýleg dæmi um illa undirbúnar breytingar sem verða með skömmum fyrirvara. Þess í stað þarf að byggja upp til langs tíma, með fyrirsjáanlegum og skýrum hætti.

Þarfir fyrirtækja fyrir sérhæft starfsfólk, ekki síst í raungreinum, tækni og verklegri færni, munu fara sívaxandi á næstu árum. Samtök iðnaðarins munu setja aukinn kraft í samvinnu með yfirvöldum og menntastofnunum á öllum skólastigum til að efla slíkar námsgreinar í menntakerfinu. GERT verkefnið á grunnskólastigi er dæmi um árangursríka aðferðafræði við slíka samvinnu.

Íslenskir stjórnmálamenn skilja nú betur en áður var hvernig skattkerfi getur haft áhrif á fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum. Slíkan samhljóm má nýta til frekari umbóta á umhverfi nýsköpunar. Það þarf að byggjast á því að nýsköpun er ekki einangrað fyrirbæri heldur stöðug framþróun á grunni þess atvinnulífs sem fyrir er í landinu.

Því er lykilatriði, ekki síst til að örva nýsköpun í landinu, að svigrúm til fjárfestinga verði stóraukið að loknum kosningum. Aflétta þarf óvissu varðandi sjávarútveg og samþykkja rammaáætlun um verndun og nýtingu orkuauðlinda, sem byggir á faglegum grunni en ekki pólitískum sérskoðunum.

Hið opinbera þarf sjálft að halda við eigin innviðum en viðhald vega og tækjabúnaðar verður mun dýrara ef því er sífellt frestað eins og nú er gert. Lífeyrissjóðir hafa boðist til að fjármagna arðbærar framkvæmdir nú þegar ríkissjóður stendur höllum fæti. Fráleitt er að hafna slíku boði, eins og var gert strax að loknum kjarasamningum 2011. Stjórnvöld höfðu við þá samningagerð heitið framkvæmdum með þess háttar fjármögnun, en á því urðu ekki efndir.

Viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu þarf að leiða til lykta sem fyrst. Nauðsynlegt er að ljúka aðildarviðræðum og að þjóðin eigi síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál. Kjósi Íslendingar að standa utan Evrópusambandsins þarf að huga til framtíðar að öðrum gjaldmiðlakostum en upptöku evru. Engu að síður er ljóst að hin íslenska króna verður lögeyrir Íslands næstu ár hið minnsta, og því er brýnt að til komi öguð hagstjórn í samræmi við peningastefnu til að halda göllum íslensku krónunnar í skefjum en leyfa kostum hennar að nýtast til að endurspegla íslenskt hagkerfi. Strax að loknum kosningum þarf að ljúka verkefnum tengdum krónueign erlendra aðila, þrotabúum bankanna og vinda að því loknu ofan af fjármagnshöftum í landinu. Nafnvexti þarf að færa niður í átt að því sem er á helstu markassvæðum og halda þeim í lágmarki þar til lausn finnst á krónueign erlendra aðila. Lægri vextir örva innlenda fjárfestingu og minnka streymi gjaldeyris úr landi í formi vaxtagreiðslna.

Stefnt er að því að gera nýja kjarasamninga í lok árs. Ekki má gera sömu mistök og árið 2011 þegar samið var um ríflegar launahækkanir vegna fyrirheita stjórnvalda um að fjárfestingum og verðmætasköpun yrði hleypt af stokkunum. Þegar það gekk ekki eftir rötuðu nafnlaunahækkanir út í verðlagið og drógu úr auknum kaupmætti landsmanna. Í þetta sinn verður að byggja á langtímasýn aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda um raunhæf tækifæri til verðmætasköpunar hér á landi á næstum árum.