• Borgartún 35

Í kjöri til stjórnar Samtaka iðnaðarins

Á aðalfundi Samtaka iðnaðarins 6. mars næstkomandi verður kosið til stjórnar. Árlega er kosið um formann og að þessu sinni er kosið um þrjú almenn stjórnarsæti. Tveir gefa kost á sér til formanns og sex í almenna stjórnarsetu.

Á aðalfundi Samtaka iðnaðarins 6. mars næstkomandi verður kosið til stjórnar. Árlega er kosið um formann og að þessu sinni er kosið um þrjú almenn stjórnarsæti. Tveir gefa kost á sér til formanns og sex í almenna stjórnarsetu.

Rafræn kosning fer fram dagana 20. febrúar til hádegis 5. mars.

Félagsmenn fá sendar nánari upplýsingar og lykilorð.

Eftirfarandi framboð bárust.

Til formanns:

Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss

Ég er fædd inn í fjölskyldufyrirtækið Kjörís ehf. í Hveragerði og hef setið þar í stjórn í yfir tuttugu ár ásamt því að gegna þar ýmsum stjórnunarstöðum. Ég var kjörin í stjórn Samtaka iðnaðarins vorið 2011 og endurkjörin á Iðnþingi árið 2013.

Verði ég kjörin formaður mun ég beita mér fyrir auknum slagkrafti Samtaka iðnaðarins í baráttunni fyrir eflingu iðnaðar og atvinnulífs í landinu. Endurreisnin gengur of hægt og það skortir meiri fjárfestingar í iðnaði hér á landi. Ef ytri þættir eru í lagi þá getur íslenskur iðnaður vaxið og dafnað á næstu árum.

Breiddin í Samtökum iðnaðarins er mikil og gæta þarf hagsmuna allra, smárra sem stórra fyrirtækja. Víðtækt samráð þarf að eiga sér stað við félagsmenn um stefnumótun Samtakanna og tryggja verður að við tölum einni röddu.

Áherslur: Hagstætt skattaumhverfi. Uppbygging og hagvöxtur. Heilbrigt samkeppnisumhverfi. Ljúka aðildarviðræðum og þjóðaratkvæðagreiðslu.

Svana-Helen2013Svana Helen Björnsdóttir, stofnandi og starfandi stjórnarformaður Stika

Ég er verkfræðingur og í gegnum rekstur eigin tæknifyrirtækis í 22 ár þekki ég hvað ræður úrslitum í rekstri fyrirtækja sem fá enga markaðsvernd heldur verða að standa sig í krefjandi samkeppni. Í samstarfi við innlenda og erlenda aðila hefur mér lærst að það eru mörg tækifæri til verðmæta- og nýsköpunar í íslenskum iðnaði. Sem formaður SI hef ég beitt mér fyrir því að íslenskum fyrirtækjum séu tryggð samkeppnishæf skilyrði í alþjóðlegum samanburði. Það vil ég áfram gera. Brennandi áhugi minn á iðnaði sem drifkrafti endurreisnar efnahags í landinu og reynslusjóður frumkvöðulsins rekur mig áfram. Mikill árangur hefur náðst með eflingu SI. Með fjölgun félaga, betra samstarfi við stjórnvöld og reglulegum fundum með iðnaðarráðherra hefur slagkraftur SI aukist og SI eru nú virk við mótun atvinnustefnu og atvinnuskilyrða til langs tíma. Árangur sést einnig víða í nýsköpun fyrirtækja og frumkvöðlastarfi. Framundan er að efla verulega verk- og tækninám. Næsta skref er að bæta hagtölugerð um iðnaðinn, greina betur tækifæri til verðmætasköpunar og útflutnings, og auka fjárfestingar.

Ég heiti á áframhaldandi stuðning ykkar til að nýta þegar fengna dýrmæta reynslu til forystu fyrir iðnaðinn.

Til almennrar stjórnarsetu:

Bolli Árnason, framkvæmdastjóri GT Tækni

Ég hef áhuga á að beita mér til hagsbóta fyrir iðnaðinn og atvinnulífið í heild. Ég vil tryggja íslenskum iðnfyrirtækjum starfsumhverfi sem gerir þeim kleift að standast alþjóðlega samkeppni, efla verk- og tæknimenntun, hlúa að sprotafyrirtækjum, auka framleiðni með gæðastjórnunarkerfum og halda áfram að styðja það góða starf sem unnið er á ýmsum sviðum innan Samtaka iðnaðarins. Ég hef setið í stjórn SI undanfarin fjögur ár og óska eftir stuðningi næstu tvö árin.

Áhugamál: Skokk, almenn útivist og stangveiði.


Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits 

Ég hef unnið í tengslum við íslenskan iðnað alla tíð. Ég er húsasmiður í grunninn en lauk síðar doktorsnámi byggingarverkfræði.  Undanfarin 20 ár hef ég verið í forystu fyrir íslenskar verkfræðistofur, fyrst Hönnun og síðar Mannvit. Íslenskur  iðnaður  hefur verið mér afar hugleikinn um langan tíma, vöxtur hans og viðgangur.  Því býð ég mig fram til stjórnarsetu í Samtökum iðnaðarins til að vinna fyrir ykkur öll sem Samtökin mynda.  Við erum á tímamótum, íslenskt samfélag ekki síður en önnur hefur farið í gegnum erfiða tíma á undanförnum árum. Traust í viðskiptum og samskiptum einstaklinga, fyrirtækja og þjóða bauð hnekki. Þetta traust þarf að endurreisa og Samtök iðnaðarins eru í lykilstöðu til að hafa áhrif þar á.  Á Íslandi þarf að laða að fjárfesta og efla fjárfestingar m.a. með því að gera skattaumhverfi okkar gott og einfalt.  Við þurfum að tryggja að íslenskum fyrirtækjum sé búið þannig umhverfi að þau standist alþjóðlega samkeppni. Við þurfum að efla og standa vörð um menntun á öllum stigum hvort sem er í grunnskólum, nám á framhaldsstigi, háskólanám eða verk- og iðnnám.

 

Jon-Gunnar2013Jón Gunnar Jónsson, framkvæmdastjóri Actavis ehf á Íslandi

Samkeppnishæfni fyrirtækja er mér hugleikin, enda forsenda þess að hér haldist og byggist upp öflugur iðnaður til framtíðar.  Í því fellst að rekstrarskilyrðin séu sambærileg við það sem gerist í löndunum í kringum okkur.  Stöðugleiki sé tryggður og trúverðugleiki okkar sem þjóðar sé sannur.  Það þarf sterkan málsvara til að vinna þessu verkefni framgöngu.  Samtök iðnaðarins eru ein öflugustu heildarsamtök fyrirtækja á Íslandi og hafa getu og hæfileika til góðra verka.  Starfsferill minn spannar mörg ár í þjónustu leiðandi iðnfyrirtækja sem öll hafa átt aðild að SI eða forverum þess.  Reynslan af því samstarfi er góð og hvatning til að leggja lóð á vogarskálarnar við að leggja samtökunum lið í áframhaldandi baráttu fyrir eðlilegu rekstrarumhverfi.  Það er af mörgu að taka þegar horft er fram á veginn og má þar m.a. nefna skattaumhverfi,  aðgang að erlendum mörkuðum, hvatningu til fjárfestinga og menntun í námsgreinum sem stuðla að uppbyggingu iðnaðar.

Ég hef átt þess kost að sitja í ráðgjafaráði SI og taka virkan þátt í starfi SI. Það er mér ljúft að bjóða fram krafta til stjórnar SI. Störf mín fyrir SS, Alcan og Actavis eru ágætt veganesti þegar kemur að málefnum iðnaðar á Íslandi.  Við megum ekki gleyma því að margt hefur áunnist þó svo að enn séu ýmis tækifæri til úrbóta.  Framtíðin byggir á samkeppnishæfni og getu til að keppa á alþjóðlegum mörkuðum.  Í því sambandi má ekki gleyma að aðrar þjóðir láta varla staðar numið og munu að sjálfsögðu veita okkur harða samkeppni hér heima og erlendis.

 

Lárus Andri Jónsson, Löggiltur rafverktaki og eigandi Rafþjónustunnar slf.   

Verkefni morgundagsins er að efla byggingariðnaðinn í landinu og bæta tölfræðilegar upplýsingar um raunverulega stöðu hans. Auka þarf verðmætasköpun með betra skipulagi og stjórnun, fyrirtækjum og starfsfólki í hag. Þetta eru verkefni sem ég tel að Samtökin eigi að styðja vel við og að því vil ég vinna. 

Þá hef ég hugleitt hvort ekki væri hægt að auka smáiðnað, sem gæti síðan orðið stór á Íslenskan mælikvarða. Það mætti vinna ýmsa hluti úr áli, s.s. álpappír, álbakka, rafstrengi og ýmsa aðra hluti sem áliðnaðurinn hér á landi gæti átt þátt í að skapa. Þá verðum við að vera vel vakandi yfir þróun raf- og metanbíla og skapa þær aðstæður að fólk og fyrirtæki sjái sér hag í að nýta þessa nýju tækni. Einnig tel ég að við gætum farið í mikla verðmætasköpun með endurvinnslu á pappír, málmum og gleri svo eitthvað sé nefnt. 

Áhugamál: Öll hreyfing, útivist, veiði, skíði, sund og hjólreiðar.

 

Sigsteinn P. Grétarsson, aðstoðarforstjóri Marel á Íslandi

Ég býð mig fram til áframhaldandi setu í stjórn SI. Ég hef 20 ára reynslu af stjórnunarstörfum á Íslandi, í Þýskalandi, Danmörku og Ástralíu. Sprotafyrirtæki eru mikilvæg uppspretta verðmætasköpunar Íslands í framtíðinni. Ég tel að reynsla Marels í uppbyggingu hátækniiðnaðar og í alþjóðavæðingu geti nýst íslenskum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. SI eru góður vettvangur til þess að miðla þeirri reynslu. Mikilvægustu verkefni Samtaka iðnaðarins er að tryggja íslenskum iðnfyrirtækjum viðunandi starfsumhverfi til verðmætasköpunar.

Áhugamál: Frítíma minn nota ég í samverustundum með fjölskyldunni og þá helst á skíðum og útivist í íslenskri náttúru.


Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentor ehf.

Ég hef setið í stjórn SI undanfarin fjögur ár. Ég óska eftir stuðningi til stjórnarsetu næstu tvö árin. Ég er framkvæmdastjóri Mentors, fyrirtækis sem er í örum vexti á erlendum mörkuðum. Styrkur Mentors liggur í sterkum heimamarkaði en tækifæri okkar erlendis byggja m.a á íslenskri tækniþekkingu og hugviti. Ég vil nýta reynslu mína og þekkingu til að vinna áfram að eflingu íslensks iðnaðar enda eru mörg spennandi tækifæri til staðar fyrir íslensk fyrirtæki bæði hér heima og erlendis.

Áhugamál: blak, líkamsrækt og samvera með fjölskyldunni.