Ályktun Iðnþings
Í ályktun Iðnþings sem samþykkt var á aðalfundi í gær voru sett fram 10 áhersluatriði.
Ályktun Iðnþings 2014
Drifkraftur nýrrar sóknar
-
Stöðugleiki er forsenda kraftmikils atvinnulífs
-
Fyrirtæki þurfa samkeppnishæfar aðstæður í vaxtamálum
-
Afnám hafta og viðurkenndur gjaldmiðill skapa samkeppnshæfni fyrirtækja
-
Hámörkum framleiðni, verðmætasköpun og útflutningstekjur
-
Aukum fjárfestingu í nýsköpunarfyrirtækjum til að standa undir hagvexti framtíðarinnar og almennri velferð
-
Hvetjum til aukinnar innlendrar og erlendrar fjárfestingar í iðnaði og nýsköpunar í hvers konar fyrirtækjum
-
Ljúka ber aðildarviðræðum við ESB og þjóðin ráði úrslitum
-
Einföldum skattkerfið m.a. með afnámi vörugjalda og lækkun tryggingagjalds.
-
Eflum iðn- og tæknimenntun í landinu með aukinni samvinnu skóla og fyrirtækja
-
Hagtölur um iðnað á Íslandi þurfa að endurspegla stöðu og þróun nýrra greina
Íslenskur iðnaður er fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr og drifkrafta hans verður að virkja til fulls. Skapa þarf samstarf og einurð í landinu um að keppa markvisst að því að koma Íslandi í fremstu röð. Við eigum í harðri samkeppni við lönd sem fylgja skýrri framfarastefnu og sækja hart fram til að laða til sín bestu starfskraftana og fyrirtækin. Eina svarið er að efla samkeppnishæfni Íslands og þá þarf mikið að breytast. Til þess þarf langtímahugsun í stað kollsteypa í stjórnarframkvæmd. Fram verður að koma heildstæð framtíðarsýn og markvissar aðgerðir sem endurreisa þá umgjörð sem allt atvinnulíf verður að njóta til að sækja fram. Þar ber hæst stöðugleika í hagstjórn, heilbrigða markaði, framúrskarandi starfsskilyrði og opinn markaðsaðgang.
Iðnþing kallar eftir samstilltri sókn um að hámarka framleiðni, verðmætasköpun og gjaldeyristekjur og Samtök iðnaðarins munu hvetja og styðja aðildarfyrirtæki sín til að leggja sitt af mörkum auk þess að efna til samræðu í samfélaginu um þessi markmið.
Atvinnulífið þarf að öðlast trú á að afnám hafta sé forgangsmál íslenskra stjórnvalda. Skoða ber strax afnám haftanna á lágum greiðslum og einföldun allrar stjórnsýslu þeirra. Viðurkenndur gjaldmiðill er forsenda samkeppnishæfni fyrirtækja sem geta ekki búið við það háa vaxtastig sem hér er.
Nýsköpun þarf að efla með skattalegum hvötum og eflingu samkeppnissjóða. Sólarlagsákvæði í lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki þarf að fella niður. Festa þarf í sessi að vinna á byggingarstað við byggingu íbúða- og frístundahúsnæðis sé undanþegin VSK.