Ályktun Iðnþings 2015

Ályktun Iðnþings var samþykkt á aðalfundi samtakanna í gær. Hún fjallar um íslenskan iðnað í fararbroddi drifinn áfram af stöðugri aukningu í menntun, nýsköpun og framleiðni.

ÁLYKTUN IÐNÞINGS 2015 

Iðnaður í fararbroddi drifinn áfram af stöðugri aukningu í menntun, nýsköpun og framleiðni

Mikilvægasta hagsmunamál íslensks iðnaðar er að tryggja samkeppnishæfni. Það gerist best á grundvelli hagstæðra starfsskilyrða, menntunar, nýsköpunar og fjárfestinga. Um leið skapast nauðsynleg skilyrði til aukinnar framleiðni sem er grunnur að meiri verðmætasköpun og velmegun. 

Fjármagnshöft hafa stuðlað að stöðugleika krónunnar en halda aftur af framþróun atvinnulífs að öðru leiti. Höftin hefta og standa bæði í vegi fyrir fjárfestingu á Íslandi og þátttöku íslenskra fyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum. Afnám hafta er því algert forgangsmál. 

Vextir þurfa lækka strax. Nú eru öll skilyrði til staðar til þess. Fjármagnskostnaður íslenskra fyrirtækja er afar hár og búa þau við umtalsvert hærra vaxtastig en alþjóðlegir keppninautar sem veikir samkeppnishæfni þeirra. Nauðsynlegt er að stuðla að heilbrigðara fjármálaumhverfi ekki síst til að örva nýsköpun og fjárfestingar. 

Fjárfesting er drifkraftur langtíma hagvaxtar. Skortur er á fjárfestingu í landinu og er hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu enn allt of lágt. Stórauka þarf fjárfestingar í hvers konar innviðum en stöðnun hefur ríkt á þessu sviði í sjö ár. Nauðsynlegt er að nýta fjölbreyttari fjármögnunarleiðir þegar kemur að slíkum fjárfestingum. Atvinnuvegafjárfesting þarf einnig að stóraukast. Afar mikilvægt er að flokkun virkjanakosta í rammaáætlun fylgi faglegu ferli og meiri fyrirsjáanleiki einkenni ferlið. 

SI fagna afnámi vörugjalda sem var mikilvægt og afgerandi skref í skattamálum. Ná þarf fleiri áföngum til einföldunar og lækkunar skatta. Lækkun tryggingagjalds í takt við minnkandi atvinnuleysi er forgangsmál. Til að fjölga áfram störfum og skapa svigrúm atvinnulífs til launahækkana verður gjaldið að lækka. 

Frjáls og óhindruð viðskipti og aðgangur að erlendum mörkuðum er lífæð íslenskra fyrirtækja. EES-samningurinn skiptir þar sköpum en óvíst er hvort hann einn þjóni hagsmunum okkar til lengri tíma litið. Nauðsynlegt er að tryggja að framhald aðildarviðræðna við ESB verði lagt í dóm þjóðarinnar. 

Menntun er forsenda bættra lífskjara 

Vel menntað starfsfólk á öllum sviðum er forsenda framleiðniaukningar og velferðar. 

Mikið hefur áunnist í fjölgun háskólamenntaðs fólks á sviði raungreina og tækni. Sú þróun þarf að halda áfram. 

Skortur er á iðn- og verkmenntuðu fólki. Á Íslandi innritast of fáir nemendur í starfsnám, hlutfallslega færri en í nágrannalöndum okkar, og margir ljúka ekki námi á tilsettum tíma. Þessu þarf að breyta. Einungis 12% grunnskólanema völdu starfsnám að loknu grunnskólaprófi síðastliðið haust. Árið 2030 viljum við að þetta hlutfall verði komin í 30%. 

Skapa þarf hvata fyrir iðnrekendur til að leggja sitt af mörkum við menntun iðnnema. Þannig byggjum við upp þekkingarfyrirtæki í iðnaði sem njóta bæði reynslu eldri og reyndari starfsmanna og nýrrar og frjórrar hugsunar iðnnema. 

Tryggja þarf aðkomu iðnaðarins með formlegum hætti að stefnumótun menntamála, við gerð námsskráa og ákvörðun á inntaki starfsnáms.  

Nýsköpun styrkir framþróun

Ástæða er til að fagna því að stórauknu fé er og verður veitt til samkeppnissjóða á sviði rannsókna og þróunar. Eins er ánægjuefni að æ fleiri nýsköpunarsjóðir hafa skotið upp kollinum og mun meira fjármagn leitar í nýsköpunarverkefni en áður.

Mikilvægt er að hvetja til nýsköpunar- og klasasamstarfs fyrirtækja í ólíkum greinum. Þannig má leysa úr læðingi áður óvirkjaða hvata til nýsköpunar og framþróunar. 

Hið opinbera kostar stóran hluta af þeirri þjónustu sem landsmönnum er veitt. Mikilvægt er að ný hugsun og eðlilegir samkeppnishvatar skjóti rótum og að hið opinbera dragi sig út samkeppnisrekstri þar sem því verður komið við. Dregið verði úr innvistun verkefna opinberra stofnana svo kraftar einkarekstrar fái að njóta sín. Á þann hátt eru heildarhagsmunir best hafðir að leiðarljósi. 

Ísland hefur staðið sig þokkalega í nýsköpun í samanburði við önnur lönd - ætli það megi ekki segja að við séum að spila um miðja deild. En við megum svo sannarlega setja markið hærra. Samtök iðnaðarins hafa sett sér þá stefnu að á næstu árum komist Ísland í flokk þeirra fimm Evrópuþjóða sem leiða þennan lista. 

Aukin framleiðni er grunnur verðmætasköpunar

Sjálfbær hagvöxtur, aukinn kaupmáttur og bætt lífskjör munu til lengdar grundvallast á aukinni framleiðni. Í dag er framleiðni á Íslandi talsvert undir meðaltali OECD-ríkjanna. Árlegur raunvöxtur hefur verið um 1,3% undanfarin ár en við vegum upp á móti lágri framleiðni með mikilli vinnu.

Ef við ætlum okkur að vera í fremstu röð og standast samkeppni við aðrar þjóðir þarf framleiðnivöxtur okkar að vera umtalsvert meiri. Með hagfelldum starfsskilyrðum og vel menntuðu starfsfólki, sem drifið er áfram af nýrri hugsun, má tryggja stöðu Íslands í fremstu röð. Við getum gert miklu betur.