• Borgartún 35

Í kjöri til stjórnar SI

Á aðalfundi Samtaka iðnaðarins 5. mars næstkomandi verður kosið til stjórnar. Árlega er kosið um formann og að þessu sinni er kosið um fimm almenn stjórnarsæti.

Á aðalfundi Samtaka iðnaðarins 5. mars næstkomandi verður kosið til stjórnar. Árlega er kosið um formann og að þessu sinni er kosið um fimm almenn stjórnarsæti.

Rafræn kosning fer fram dagana 19. febrúar til hádegis 4. mars.

Félagsmenn fá sendar nánari upplýsingar og lykilorð.

Í kjöri til formanns SI

Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjörís

Ég er fædd inn í fjölskyldufyrirtækið Kjörís ehf. í Hveragerði og hef setið þar í stjórn í yfir tuttugu ár ásamt því að gegna þar ýmsum stjórnunarstöðum. Ég var kjörin í stjórn Samtaka iðnaðarins vorið 2011 og kjörin formaður á Iðnþingi árið 2014.

Breiddin í Samtökum iðnaðarins er mikil og gæta þarf hagsmuna allra, smárra sem stórra fyrirtækja. Víðtækt samráð þarf að eiga sér stað við félagsmenn um stefnumótun samtakanna og tryggja að við tölum einni röddu.

Í kjöri til stjórnar SI

Agnes Ósk Guðjónsdóttir, snyrtifræðingur og eigandi GK snyrtistofu

„Ég er snyrtifræðingur með meistararéttindi og eigandi GK snyrtistofu í Mosfellsbæ og hef ég verið með stofuna síðan 2007. Ég hef sinnt störfum innan Félags íslenskra snyrtifræðinga. Verið formaður frá 2012 og þar á undan gjaldkeri og varaformaður.

Ég býð krafta mína fram í þágu samtakanna vegna þess að ég álít að þekking mín og reynsla úr atvinnulífinu geti gagnast SI vel. Ég tel að í stórum samtökum líkt og SI sé mikilvægt að við stjórnarborðið sitji bæði fulltrúar stærri og minni fyrirtækja og að stjórnin endurspegli þannig þá miklu breidd fyrirtækja sem sannarlega er innan SI. Nái ég stjórnarkjöri mun ég beita mér fyrir eflingu iðnaðar í landinu og starfsskilyrða hans. 

Áherslur:  Tryggja íslenskum iðnaði samkeppnishæf rekstrarskilyrði, fjölga verk- og tæknimenntuðum,  efla endurmenntun í iðnaði, efla stuðning við nýsköpun og þróun, berjast gegn ólöglegri atvinnustarfsemi í þágu samfélagsins.“

Ágúst Andrésson, kjötafurðastöð Kaupf. Skagfirðinga

„Ég hef gegnt starfi forstöðumanns Kjötafurðastöðvar Kaupfélags Skagfirðinga frá árinu 2001. Áður starfaði ég sem verkstjóri og hef samanlagt starfað hjá fyrirtækinu í 19 ár. Ég er jafnframt formaður Landssamtaka sláturleyfishafa. Í störfum mínum hefir ég beitt mér fyrir hvers kyns framförum í slátrun og kjötvinnslu, m.a. á sviði sjálfvirkni og í bættri nýtingu sláturafurða. Þannig hefur náðst árangur í að breyta ýmsu, sem áður var sláturúrgangur, s.s. vömbum, görnum, blóði, löppum og fleiru, í verðmæta útflutningsvöru. Ég sé mikil tækifæri í útflutningi matvæla og vil sjá innlenda matvælaframleiðslu aukast. Ég var skipaður ræðismaður Rússlands á Íslandi í nóvember sl. en Rússland er mikilvægur útflutningsmarkaður fyrir íslenska matvælaframleiðendur. Í frítíma stunda ég hestamennsku eins og títt er um Skagfirðinga.“

Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania

Ég er Hafnfirðingur í húð og hár, útskrifaðist úr stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1995, en hef mest megnis unnið í upplýsingatæknibransanum á mínum starfsferli. Áður en ég kom til Advania starfaði ég í sex ár hjá Vodafone sem framkvæmdarstjóri við sölu- og markaðsmál og síðar tæknisviðs. Fyrir þann tíma vann ég í nokkur ár sem framkvæmdastjóri Margmiðlunar hf, sem sölu- og markaðsstjóri Betware, en starfsferilinn hóf ég í sambærilegri stöðu hjá Margmiðlun. Verkefnin undanfarin ár hafa því verið fjölbreytt og krefjandi – flest skyld upplýsingatækninni, en ég tel að í þeim heimi séu fólgin mikil tækifæri fyrir okkur öll. Þessi bakgrunnur minn gæti nýst vel í stjórn SI. Í lok ársins 2009 tók ég við sem forstjóri Advania, þá Skýrr og hef stýrt fyrirtækinu í gegnum mikið sameiningarferli sem lauk í janúar 2012 þegar Advania varð til. Ég hef í gegnum tíðina setið í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja og samtaka bæði hérlendis og erlendis. Frá árinu 2012 hef ég  verið formaður Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja (SUT) sem eru hluti af SI.
Samtök Iðnaðarins vinna að hagsmunum iðnaðarins á öllum sviðum og í nánu samráði við fyrirtækin sjálf og því gegna samtökin mikilvægu hlutverki. Mikilvægt er í vinnu SI að gætt sé að hlutdeild og hagsmunum þekkingariðnaðarins í landinu svo við náum að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem við svo sannarlega höfum kost á.  Á þeim forsendum býð ég fram krafta mína í stjórn samtakanna. 

Áhugamál:  Með árunum hefur stangveiði orðið að einu aðaláhugamálinu mínu, en auk þess fæ ég mikið út úr því að skokka og held mér þannig í þokkalegu formi.  

Gunnar Tryggvi Halldórsson, SAH Afurðir ehf.

„Þar sem starfssvið mitt er matvælaiðnaður eru málefni tengd verslun og þjónustu mér hugleikin. Það er mikilvægt að vinna að aukinni hagkvæmni í samstarfi milli verslunar og matvælaiðnaðar með það fyrir augum að draga úr sóun í virðiskeðju matvæla. Einnig er eftirlitsiðnaður að setja mjög misjafnar kröfur á iðnað sem getur skert jafnræði.  Það er vissulega forgangsatriði að eftirlit sé eins gott og það getur verið en alltaf þarf að gæta sanngirni.

Iðnað á landsbyggðinni þarf að bæta og auka til að stuðla að sterkari byggð í öllu landinu. Fyrirtækjarekstur á höfuðborgarsvæðinu getur verið mjög ólíkur sambærilegum rekstri á landsbyggðinni. Þá fara önnur atriði að skipta meira máli eins og fjölgun útflutningshafna eða fjölgun skipaferða, samgöngur, flutningur og skilningur stjórnvalda á öflugum iðnaði á landinu öllu. Umfram allt þarf allur iðnaður að standa saman að okkar stóru hagsmunamálum þar sem ég tel Samtök iðnaðarins vera okkar sterkasta afl.

Ég hef víðtæka menntun og reynslu, er meðal annars með MA gráðu í sagnfræði og kennsluréttindi. Nú starfa ég sem framkvæmdarstjóri SAH Afurða ehf. en er einnig framkvæmdastjóri Sölufélags Austur Húnvetninga svf.“

Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri JÁVERK

„Ég hef nánast allan minn starfsferil starfað í byggingariðnaði, með örstuttri viðkomu í ráðgjöf og háskólakennslu.  Ég hef síðastliðin ár tekið virkan þátt í starfsemi Samtaka iðnaðarins, en ég sit í ráðgjafarráði og er varaformaður Mannvirkis.  Ég óska nú eftir stuðningi til setu í stjórn samtakanna næstu tvö árin. Samtök iðnaðarins samanstanda af afar ólíkum fyrirtækjum bæði að stærð og gerð, og hagsmunirnir oft ólíkir.  Verði ég kjörinn í stjórn mun ég þar einbeita mér að hagsmunum heildarinnar. 

Starfsumhverfi og samkeppnisstaða atvinnurekstrar á Íslandi er mér hugleikin. Haftaumhverfi, óstöðug mynt og hár fjármagnskostnaður hamla vexti fyrirtækja sem starfa í alþjóðlegri samkeppni, gerir alla áætlanagerð ómarkvissa og stuðlar að agaleysi. Þá er ljóst að rannsaka þarf orsakir lítillar framleiðni á Íslandi og vinna að því að bæta hana. Menntun og þekking er undirstaða allra framfara. Við sem störfum í iðnaði þurfum að gera okkar til að fleiri sæki í nám í þeim greinum þar sem þörfin fyrir starfsfólk er mest.  Við þurfum jafnframt að styðja við slíkt nám. Allt eru þetta atriði sem ég mun beita mér fyrir nái ég kjöri."

Jón Gunnar Jónsson, framkvæmdastjóri Actavis á Íslandi

„Samtök iðnaðarins gegna lykilhlutverki í íslensku þjóðfélagi. Þau eru bakhjarl og málsvari ótrúlega fjölbreytts hóps fyrirtækja. Þar skiptir miklu að tryggja samkeppnishæfni á öllum sviðum og sambærileg rekstrarskilyrði og tíðkast í löndunum í kringum okkur. Ég hef átt þess kost að taka virkan þátt í starfi SI á undanförnum árum. Samtökin eru ein öflugustu heildarsamtök fyrirtækja á Íslandi og hafa getu og hæfileika til góðra verka. Framundan eru bæði krefjandi og spennandi tímar, sem ég hef áhuga á að taka þátt í innan stjórnar SI. Það er af mörgu að taka þegar horft er fram á veginn og má þar m.a. nefna afnám gjaldeyrishafta, einföldun skattaumhverfis, aukna framleiðni, hvatningu til fjárfestinga og menntun í námsgreinum sem stuðla að uppbyggingu iðnaðar. Með sterkum samtökum er hægt að hafa áhrif til hagsbóta fyrir fyrirtækin í landinu. Hagvöxtur verður ekki tryggður nema með uppbyggingu atvinnugreina sem skila arði í þjóðarbúið."

Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsi

„Ég hef verið forstjóri Lýsi h.f. síðan 1999, en það ár keypti ég fyrirtækið. Þar áður rak ég ásamt foreldrum mínum lifrarbræðslu í Þorlákshöfn og hausaþurrkun á sama stað, sem sameinaðar voru Lýsi h.f. eftir kaupin. Ég hef setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja í gegnum tíðina sem hefur gefið mér yfirgripsmikla reynslu og þekkingu á margvíslegum viðskiptum á Íslandi og erlendis. Hef einnig setið í stjórn Viðskiptaráðs Íslands í samtals 10 ár. Hef alla tíð haft mikinn áhuga á efnahagsmálum og því umhverfi sem þarf að búa Íslensku atvinnulífi. Ég tel að SI ættu að beita sér í viðleitni stjórnvalda til að einfalda regluverk og eftirlitsiðnað sem við búum við í dag og vildi leggja mitt af mörkum til að ná þar skjótum og góðum árangri.“

Lárus Andri Jónsson, Löggiltur rafverktaki og eigandi Rafþjónustunnar

„Verkefni morgundagsins er að efla byggingariðnaðinn í landinu og bæta tölfræðilegar upplýsingar um raunverulega stöðu hans. Auka þarf verðmætasköpun með betra skipulagi og stjórnun, fyrirtækjum og starfsfólki í hag. Þetta eru verkefni sem ég tel að samtökin eigi að styðja vel við og að því vil ég vinna. 

Þá hef ég hugleitt hvort ekki væri hægt að auka smáiðnað, sem gæti síðan orðið stór á íslenskan mælikvarða. Það mætti vinna ýmsa hluti úr áli, s.s. álpappír, álbakka, rafstrengi og ýmsa aðra hluti sem áliðnaðurinn hér á landi gæti átt þátt í að skapa. Þá verðum við að vera vel vakandi yfir þróun raf- og metanbíla og skapa þær aðstæður að fólk og fyrirtæki sjái sér hag í að nýta þessa nýju tækni. Einnig tel ég að við gætum farið í mikla verðmætasköpun með endurvinnslu á pappír, málmum og gleri svo eitthvað sé nefnt.  Áhugamál: Öll hreyfing, útivist, veiði, skíði, sund og hjólreiðar.“

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls

„Ég býð mig fram til áframhaldandi stjórnarsetu hjá Samtökum iðnaðarins með það að markmiði að bæta rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja og efla samstarf milli atvinnugreina. Eftir umrót undanfarinna missera eru samtökin vel í stakk búin til að vera í forystu um framfarir í umhverfi íslensks atvinnulífs.  Háir vextir, í samanburði við önnur lönd, og gjaldeyrishöft eru brýn úrlausnarefni sem leggja verður þunga áherslu á.  Skattamál eru einnig mikilvæg og nauðsynlegt að Samtök Iðnaðarins verji hagsmuni atvinnulífsins og þar með þjóðfélagsins alls.  Þá vantar sárlega fjárfestingu í íslensku atvinnulífi og skýringanna er eingöngu að leita heimafyrir, í rekstrarumhverfi fyrirtækja. Ég er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá McGill University í Kanada. Áhugamál: Við hjónin eigum fjögur börn á aldrinum 4-16 ára og með þeim ver ég flestum mínum frístundum. Þegar tækifæri gefst spila ég gjarnan golf.”