Erum við tilbúin fyrir næstu Iðnbyltingu?

Í dag, 5. mars, fer fram árlegt Iðnþing Samtaka iðnaðarins á Hilton Reykjavík Nordica. Á þinginu munu leiðtogar fyrirtækja, sérfræðingar og ráðherrar ræða saman um samkeppnishæfan iðnað á grunni menntunar, nýsköpunar og framleiðni.

Í dag, 5. mars, fer fram árlegt Iðnþing Samtaka iðnaðarins á Hilton Reykjavík Nordica. Á þinginu sem hefst kl. 14.00 munu leiðtogar fyrirtækja, sérfræðingar og ráðherrar ræða saman um samkeppnishæfan iðnað á grunni menntunar, nýsköpunar og framleiðni.

Myndbönd frá þinginu verða aðgengileg á vefnum á morgun.

Meðal þátttakenda eru Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra ásamt fjölbreyttum hópi stjórnenda úr fyrirtækjum innan raða íslensks iðnaðar.

Tækifæri í aukinni framleiðni

Þrátt fyrir að lífskjör hér á landi séu almennt góð í alþjóðlegum samanburði er framleiðni okkar lág í samanburði við nágrannaþjóðir.

Á þinginu verða rædd þau tækifæri sem felast í aukinni framleiðni í íslenskum iðnaði, en ljóst má vera að svigrúm til umbóta er mikið. Mikilvægt er að huga vel að nýtingu framleiðsluþátta og betra skipulagi á efnahagsstarfsemi. Vöxtur framtíðarinnar þarf að byggjast á betri nýtingu hráefna, lágmörkun birgða, skilvirkum flutningum, nýtingu nýrrar tækni, betri menntun og skynsamlegri stjórnsýslu.

Mikilvægi menntunar og nýsköpunar

Menntun og nýsköpun eru málaflokkar sem brýnt er að leggja áherslu á til framtíðar til að halda uppi lífskjörum sem eru áfram samanburðarhæf við nágrannaþjóðir okkar. Vel menntað starfsfólk á öllum sviðum er forsenda aukinnar framleiðni og velferðar og nýsköpun styrkir framþróun. Það er því vel við hæfi að Iðnþing 2015 verður haldið undir yfirskriftinni: Erum við tilbúin fyrir næstu iðnbyltingu?

SKRÁÐU ÞIG Á IÐNÞING