Ályktun Iðnþings 2011

Ályktun Iðnþings var samþykkt á aðalfundi SI í morgun.

Ályktun Iðnþings sem samþykkt var á aðalfundi SI 10 mars 2011.

 

Átak í verk- og tæknimenntun

Sparnaður hins opinbera með klasasamstarfi

Trúverðug stefna í peningamálum og afnám gjaldeyrishafta

Óvissu létt af atvinnulífinu

Umsóknarferli að ESB verði lokið með faglegum hætti

Festu komið á skipan stjórnkerfis og löggjafar

Fjárfestingar og framkvæmdir

Skattkerfið einfaldað á ný og skattprósentur lækkaðar

Vinnumarkaðurinn er í misvægi. Á sama tíma og djúp kreppa ríkir í tilteknum atvinnugreinum skortir vinnuafl í öðrum, einkum tæknimenntað fólk. Um 14 þúsund manns eru án atvinnu með tilheyrandi samfélagslegum kostnaði. Markvisst átak þarf til langs tíma til að rétta af þennan halla, í samstarfi atvinnulífs, menntakerfis og stjórnvalda.

Niðurskurður í rekstri hins opinbera er óhjákvæmilegur. Í því felst ekki bara ógnun heldur líka tækifæri til að endurskoða og bæta vinnubrögð og fjárveitingar. Nýta á klasasamstarf fyrirtækja, stofnana og menntakerfis til að þróa nýjar lausnir og vinnubrögð hjá hinu opinbera. Það sparar fé til langs tíma án þess að koma niður á þjónustu. Beina þarf opinberu þróunarfé sem mest úr opinberum stofnanafarvegi í samkeppnisfyrirkomulag eins og Tækniþróunarsjóður rekur.

Frá árslokum 2008 hefur íslenska krónan verið bundin í víðtæk gjaldeyrishöft eftir að bankakerfið hrundi og peningastefnan beið skipbrot. Þótt erfiðar aðstæður kunna að hafa réttlætt höftin er skaðsemi þeirra slík að ekki verður til lengdar unað. Afnám hafta í áföngum er nauðsynlegt samhliða skýrri sýn til langs tíma í peningamálum atvinnulífinu til hagsbóta.

Í kjaramálum er atvinnuleiðin eini raunhæfi valkosturinn sem  byggist á langtímahugsun, samræmdri launastefnu, verðmætasköpun og fjárfestingu. Stórfelldar krónutöluhækkanir leiða aðeins til verðbólgu og kjararýrnunar.

Sótt hefur verið um aðild að ESB. Halda þarf umsóknarferlinu áfram af fullum heilindum í náinni samvinnu við atvinnulíf og aðra hagsmunaaðila þar sem litið er til víðtækra hagsmuna heildarinnar en ekki bara þröngra sérhagsmuna.

Óskýrar yfirlýsingar stjórnvalda um þjóðnýtingu fyrirtækja og eignaupptöku eru afar skaðlegar. Erlendir og íslenskir fjárfestar verða að geta treyst því að hér sé réttarríki, að framkvæmdavaldið fari að lögum og reglum og því sé reynandi að taka þátt í íslenskri atvinnuuppbyggingu. Festa þarf að komast á skipan stjórnkerfis og löggjafar í landinu.

Fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki á sama tíma og mikið fé liggur óhreyft í bankakerfinu. Hraða þarf endurskipulagningu á fjárhag atvinnulífsins. Taka þarf ákvörðun um að hefja arðbærar framkvæmdir.

Vinda þarf ofan af skattahækkunum á síðastliðnum tveimur árum  og greiða úr því stórflækta skattkerfi sem nú hefur verið komið á. Það hamlar fjárfestingu, tefur fyrir endurreisn atvinnulífsins en skilar litlu í ríkissjóð.