Prentiðnaður

Prentgeirinn rúmar mörg ólík störf en prentun, bókband og grafísk miðlun (prentsmíð) mynda undirstöðu hans. Prentfyrirtæki eru hátæknivædd þjónustufyrirtæki og hafa fáar starfsgreinar á undanförnum árum gengið í gegnum jafn stórstígar breytingar á tækni og prentiðnaðurinn.

Innan Samtaka iðnaðarins starfar starfsgreinahópur fyrirtækja í prent- og pappírsiðnaði en samtök atvinnurekenda í prenti voru meðal stofnenda SI fyrir rúmum tveimur áratugum. Starfsgreinahópurinn fundar að jafnaði tvisvar í mánuði að vetrinum til en sjaldnar á sumrin. Öllum félagsmönnum SI í prent- og pappírsiðnaði er velkomið að senda fulltrúa sinn á fundi starfsgreinahópsins en fulltrúi þeirra skal þó skipaður í samráði við forstöðumann greinarinnar innan SI. Fundargerðir frá fundum eru sendar reglulega til fyrirtækja SI í greininni.

Samtök iðnaðarins vinna að hagsmunum fyrirtækjanna á öllum sviðum. Þau bæta almennt rekstrarumhverfi með því að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda og veita þeim stöðugt aðhald. Hlutverk SI er að fylgjast með alþjóðlegri þróun í atvinnurekstrinum og stuðla að hagkvæmni með því að innleiða nýjar og bættar aðferðir við stjórnun og rekstur fyrirtækja. Þá veita SI þjónustu og ráðgjöf og reyna af fremsta megni að gæta þess að farið sé að reglum á markaði. SI stuðla að samstarfi fyrirtækja í prenti, bæði innan greinarinnar og utan við önnur fyrirtæki m.a. með því að veita þjónustu tengda þverfaglegum málum á ýmsum sviðum. Þar mætti t.d. nefna gæðamál, launasamninga, lögfræði, markaðs- og kynningarmál, menntamál (t.d. Prenttæknistofnun), nýsköpun, staðlamál, stjórnun, umhverfismál, vinnumarkaðsmál og þannig mætti lengi telja.

Tengiliður hjá SI: Lilja Björk Guðmundsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, . 6976230, lilja@si.is.