Fréttasafn30. maí 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Hið opinbera vinni að því að útrýma prentiðnaði hér á landi

Á sama tíma og hið opinbera er með háleit markmið og alþjóðlegar skuldbindingar í umhverfis- og loftslagsmálum vinnur það með aðgerðum sínum statt og stöðugt að því að útrýma prentiðnaði hér á landi, sem er einn sá allra umhverfisvænasti í heiminum. Þetta segir Arnaldur Þór Guðmundsson, hagfræðingur, umbúðasérfræðingur, varamaður í stjórn Prentmet Odda og meðlimur í pappírshópi Samtaka iðnaðarins, í grein í ViðskiptaMogganum. 

Hvergi er umhverfisvænna að framleiða bækur og öskjur en hér á landi

Í greininni kemur fram að fyrir skömmu hafi EFLA verkfræðistofa unnið greiningu á samanburði á kolefnisspori á bókum og öskjum sem eru framleiddar hérlendis. Notast hafi verið við gögn úr framleiðslu Prentmet Odda og leiði greiningin í ljós að hvergi sé umhverfisvænna að framleiða bækur og öskjur fyrir íslenskan markað en hér á landi. Nánast allar prentsmiðjur á Íslandi séu Svansvottaðar og notist nær einvörðungu við FSC-sjálfbærnisvottaðan pappír af lífrænum uppruna við framleiðslu á bókum, umbúðum og öllu almennu prentverki. 

Arnaldur segir í grein sinni að niðurstöður greiningar EFLU verkfræðistofu á íslenska prentiðnaðnum staðfesti að kolefnissporið við framleiðslu á bæði bókum og öskjum hérlendis sé verulega neikvætt í báðum tilfellum, þ.e. með því að framleiða vörurnar hér á landi tekst að binda umtalsvert meira koltvíoxíð en losnar við framleiðsluna. 

Aðgerðir hins opinbera fari fram í sex þrepum

Þá segir Arnaldur í greininni að aðgerðir hins opinbera til útrýmingar á íslenska prentiðnaðinum fari fram í sex þrepum. Í fyrsta lagi hafi hið opinbera komið nánast öllu sínu prentverki úr landi, þ.e. í útboðum hins opinbera á prentverki hafi umhverfismál engu máli skipt, heldur aðeins verð. Nær ómögulegt sé fyrir íslenskar prentsmiðjur að keppa við erlendar í verði þar sem launakostnaður sé mun lægri hjá þeim síðarnefndu. Í öðru lagi sé Umhverfisstofnun með starfshóp sem vinni m.a. að því að gera stóran hluta af vinnustöðum landsins pappírslausan. Í yfirlýstri stefnu Umhverfisstofnunar um úrgangsforvarnir á árunum 2016- 2027 verði pappír og þ.a.l. prentað efni sérstaklega tekið fyrir á árunum 2026-2027, ef þá verði ekki þegar búið að útrýma því að fullu. Í þriðja lagi hafi Úrvinnslusjóður hækkað úrvinnslugjöld á umbúðum úr pappír umtalsvert á síðastliðnum árum, algjörlega óháð því hvort þær séu plasthúðaðar, af lífrænum uppruna eða FSC-vottaðar. Þess megi geta að yfirlýst markmið Úrvinnslusjóðs sé að skapa hagræna hvata við úrvinnslu úrgangs. Í fjórða lagi hafi Íslandspóstur hækkað verð upp úr öllu valdi og skert þjónustu gríðarlega. Nánast ekkert prentað efni fari þar af leiðandi í dreifingu í dag. Í fimmta lagi veiti hið opinbera árlega styrki til útgáfu á íslenskum bókum sem séu að lágmarksupphæð 1 m.kr. Ekki sé gerð krafa um að bækurnar þurfi að vera umhverfisvottaðar. Hvatinn fyrir útgefendur er þ.a.l. að prenta stærri upplög en þeir hefðu mögulega hugsað sér í óumhverfisvænum verksmiðjum erlendis, þar sem verð er lægra en hjá Svansvottuðum prentsmiðjum á Íslandi. Í sjötta lagi hafi hið opinbera séð til þess að innfluttar bækur beri aðeins 11% virðisaukaskatt meðan bækur sem framleiddar eru hér á landi beri 24% virðisaukaskatt. 

Gangi þvert á alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum

Í niðurlagi greinarinnar segir Arnaldur að það liggi fyrir að aðgerðir hins opinbera séu til þess fallnar að útrýma einum umhverfisvænasta iðnaði landsins, sem gangi þvert á alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.

ViðskiptaMogginn, 29. maí 2024. 

VidskiptaMogginn-29-05-2024_2