Svana Helen Björnsdóttir, formaður SI fjallar um Evrópumálin í grein í Fréttablaðinu í dag þar sem hún segir m.a. að það hafi verið gildar ástæður fyrir því að stjórnvöld á Íslandi ákváðu að sækja um aðild að ESB. Meginástæðan er sú að það mun stuðla að efnahagslegum stöðugleika sem sárlega hefur skort hér á landi. Önnur mikilvæg ástæða er sú að við yrðum þá fullgildir þátttakendur í öllu samstarfi Evrópusambandsþjóða.
Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, hlaut nýlega Stevie-gullverðlaunin sem forstjóri ársins í hópi kvenna í atvinnurekstri í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku. Verðlaunaafhendingin fór fram í New York fyrr í mánuðinum.
Samtök iðnaðarins stóðu fyrir gerð fimm forvitnilegra og fjölbreyttra sjónvarpsþátta um nýsköpun og þróunarstarf í íslenskum iðnaði í samstarfi við Ara Trausta Guðmundsson og kvikmyndafyrirtækið Lífsmynd. Leitað var fanga hjá sextán fyrirtækjum í afar ólíkum iðngreinum, allt frá kaffi- og ullariðnaði til tölvu- og véltæknigreina.
Bókasamband Íslands hefur gert könnun á prentstað íslenskra bóka sem getið er í Bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefenda 2012. Fjöldi titla sem prentaðir eru innanlands dragast saman um rúmlega 5 prósentustig milli ára en árið 2011 var 68% hlutfall á prentun bókatitla innanlands.
Haldinn var fjölmennur kynningarfundur á vegum Íslandsstofu á kortlagningarvinnu upplýsingatæknigeirans en rúmlega áttatíu manns úr faginu mættu til að kynna sér helstu niðurstöður vinnunnar. Góð eftirspurn er eftir vörum og þjónustu íslenskra upplýsingatæknifyrirtækja og 80% fyrirtækjanna telja að hægt sé að auka útflutning enn frekar.
Kjarnafæði hefur staðist úttekt á fyrsta, öðru og þriðja þrepi áfangaskiptrar gæðavottunar Samtaka iðnaðarins og hlotið D og C og B vottun. Eðvald Sveinn Valgarðsson, gæða- og innkaupastjóri Kjarnafæðis segir að miðað við framtíðarstefnu fyrirtækisins skipti öllu máli að hafa gæðamálin í fyrsta sæti.
Alls bárust 87 umsóknir í Tækniþróunarsjóð vegna umsóknarfrests sem rann út 15. september síðastliðinn. Á fundi 22. nóvember ákvað stjórn Tækniþróunarsjóðs að bjóða verkefnisstjórum 30 verkefna að ganga til samninga. Lista yfir verkefnin má nálgast hér.
Hugbúnaðarfyrirtækið Meniga sigraði í flokki íslenskra fyrirtækja í þremur flokkum í frumkvöðlasamkeppni Norðurlanda, Nordic Start-up Awards. Meniga var útnefnd sprotafyrirtæki ársins, hlaut verðlaun fyrir bestan árangur á alþjóðlegum markaði auk þess sem Georg Lúðvíksson, stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, hlaut nafnbótina stofnandi ársins.
Samtök iðnaðarins, ásamt Mannvirkjastofnun og fleiri aðilum, hafa undanfarnar vikur staðið fyrir fundum víða um land fyrir hönnuði, tæknimenn, iðnaðarmenn og eftirlitsaðila um nýja byggingareglugerð, samræmingu eftirlits og leiðir tilaukinna samskipta innan byggingageirans.
Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Plain Vanilla hefur í samstarfi við Summit Entertainment gefið út tölvuleikinn Twilight QuizUp, þar sem aðdáendur kvikmyndanna geta keppt sín á milli í Twilight fróðleik.
AVS rannsóknasjóður auglýsir eftir umsóknum um styrki til verkefna tengdum sjávarútvegi. Umsóknarfrestur er til 3. desember nk. AVS rannsóknasjóður starfar á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og tekur á móti umsóknum um styrki til verkefna, sem auka verðmæti sjávarfangs.
Samtök atvinnulífsins leggja til að skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum verði tekinn upp. Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins og forstjóri Stika, talaði fyrir tillögunni á fundi SA um skattamál þann 9. nóvember sl. en SI hafa lagt mikla áherslu á að tillagan verði að veruleika.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur þrátt fyrir að þjóðhagsspá Seðlabankans bendi til nokkru minni hagvaxtar og lægri verðbólgu en spáð var í ágúst. Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI segir hækkunina ekki óvænta miðað við stefnu bankans, en hún sé hins vegar þveröfug við stefnu seðlabanka nágrannaríkjanna.
BOXIÐ – framkvæmdakeppni framhaldsskólanna fór fram í Háskólanum í Reykjavík sl. laugardag. Átta skólar tóku þátt í æsispennandi keppni sem lauk með sigri Menntaskólans í Reykjavík. Markmið keppninnar sem nú var haldin í annað sinn er að kynna og vekja áhuga á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði.
Allir eru sammála um mikilvægi öflugrar menntunar fyrir verðmætasköpun og lífskjör. Því skýtur það skökku við að stjórnvöld skuli ítrekað fara þá leið, þvert á ráðleggingar sérfræðinga, að skera niður fjárframlög til háskóla. Svana Helen Björnsdóttir skrifaði grein í Fréttablaðið sl. föstudag.
Ný stjórn var kosinn á aðalfundi SUT – samtaka upplýsingatæknifyrirtækja sem haldinn var í dag. Hilmar Veigar Pétursson, CCP, formaður samtakanna gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var Gestur G. Gestsson Advania kjörinn formaður í hans stað.
Haldið verður málþing um Kristján Friðriksson iðnrekanda í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins í dag kl. 14.00. Haraldur Ólafsson mannfræðingur rifjar upp hugmyndir Kristjáns um farsældarríki og manngildisstefnu. Daði Már Kristófersson auðlindahagfræðingur fjallar um hugmyndir Kristjáns um fiskveiðistjórnun, auðlindaskatt, líf- og hagkeðju sem kallast á við sjálfbærnihugsjón samtímans.
Á morgun, 3. nóvember, fer BOXIÐ - framkvæmdakeppni framhaldsskólanna, fram í Háskólanum í Reykjavík en markmið keppninnar er að kynna og vekja áhuga á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði. Fyrir keppninni standa Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Samband íslenskra framhaldsskólanema.
Samtök iðnaðarins, ásamt fleiri samtökum, fyrirtækjum og stofnunum, stóðu fyrir ráðstefnu um Matvælalandið Ísland í vikunni. Þar var fjallað um þau fjölmörgu tækifæri sem liggja í aukinni framleiðslu og sölu á íslenskum mat og tengdri þjónustu og hvernig má auka verðmætasköpun og nýta þær matarauðlindir sem landið býr yfir.
Vinnumálastofnun er þátttakandi í Evrópuverkefninu GET mobile en markmið þess er m.a. að hvetja fyrirtæki til að taka þátt í mannaskiptaverkefnum á vegum Evrópusambandsins. Verkefnin gera fyrirtækjum kleift að fá lærlinga/starfsnema inn í fyrirtæki til lengri eða skemri tíma (1-12 mánuðir) en neminn fær styrk vegna ferðakostnaðar og uppihalds. Það er því ekki um útlagðan kostnað fyrir fyrirtækin að ræða.