Fréttasafn  • Boxið22012

12. nóv. 2012

Menntaskólinn í Reykjavík sigraði í BOXINU

BOXIÐ – framkvæmdakeppni framhaldsskólanna fór fram í Háskólanum í Reykjavík sl. laugardag. Átta skólar tóku þátt í æsispennandi keppni sem lauk með sigri Menntaskólans í Reykjavík. Markmið keppninnar sem nú var haldin í annað sinn er að kynna og vekja áhuga á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði.
 

Fjórtán framhaldsskólar víðsvegar af landinu sendu lið í undankeppni BOXINS en þau átta lið sem komust áfram í aðalkeppnina voru frá Verkmenntaskólinum á Akureyri, Menntaskólanum í Reykjavík, Menntaskólanum á Akureyri, Verslunarskóla Íslands, Tækniskólanum, Menntaskólanum við Sund, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Iðnskólanum í Hafnarfirði.

Keppnin fólst í þrautabraut með sjö stöðvum og fóru liðin, sem hvert voru skipuð fimm einstaklingum, á milli brauta og leystu ólíkar þrautir á hverjum stað. Þrautirnar reyndu bæði á hugvit og verklag en þær voru útbúnar af fyrirtækjum úr ólíkum greinum iðnaðarins í samstarfi við fræðimenn Háskólans í Reykjavík.

Lið Menntaskólans í Reykjavík var stigahæst að keppni lokinni en jöfn í 2. og 3. sæti voru lið Tækniskólans og Verslunarskóla Íslands. Sigurliðið hlaut verðlaunabikar til eignar og hver liðsmaður Ipad en fyrir annað og þriðja sæti hlutu liðsmenn Ipod. Að auki veittu fyrirtækin aukaverðlaun þeim liðum sem stóðu sig best, voru frumlegust eða skemmtilegust í þeirra þrautum. Keppnin tókst vel í alla staði og bæði þátttakendur og áhorfendur skemmtu sér vel.

Fyrirtækin sem komu að gerð þrautanna eru ÍAV, Marel, Skema, Gæðabakstur, Actavis, Járnsmiðja Óðins og Marorka.

BOXIÐ er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Háskólans í Reykjavík og Sambands íslenskra framhaldsskólanema.