Fréttasafn



  • Janne Sigurðsson

29. nóv. 2012

Forstjóri Fjarðaáls meðal fremstu kvenstjórnenda ársins

Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, hlaut nýlega Stevie-gullverðlaunin sem forstjóri ársins í hópi kvenna í atvinnurekstri í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku. Verðlaunaafhendingin fór fram í New York fyrr í mánuðinum.

Janne hlaut verðlaunin fyrir þátttöku í uppbyggingu, eflingu og rekstri álvers Alcoa við Reyðarfjörð á þeim sex árum sem liðin eru frá því að hún gekk til liðs við Alcoa. Á þessum tíma hefur hún stjórnað mikilvægum umbótaverkefnum, lagt sig fram um að skapa öruggt vinnuumhverfi í álverinu og náð miklum árangri í að auka starfsánægju í fyrirtækinu. Hún hefur einnig tekið virkan þátt í að byggja upp samfélagið á Austurlandi.

Stevie verðlaunin eru alþjóðleg verðlaun sem veitt eru árlega þeim sem skara fram úr í stjórnun stofnana og fyrirtækja um allan heim. Rúmlega 200 stjórnendur sátu í dómnefndinni sem valdi Stevie gull-, silfur- og bronsverðlaunahafa ársins í ýmsum flokkum.

Sjá nánar á www.alcoa.is

Um Janne Sigurðsson
Janne Sigurðsson hóf starfsferilinn hjá álverinu 2006 sem framkvæmdastjóri upplýsingatækni. Fáum mánuðum síðar varð hún framkvæmdastjóri framleiðsluþróunar og framkvæmdastjóri kerskála var hún á árunum 2008 til 2010. Hún varð framkvæmdastjóri framleiðslu í apríl 2010, en þann 1. janúar 2012 var hún ráðin forstjóri fyrirtækisins í stað Tómasar Más Sigurðssonar sem tók við starfi forstjóra Alcoa í Evrópu með aðsetri í Genf.

Um Alcoa
Alcoa er stærsti framleiðandi heims á sviði hrááls og unninna álvara, og jafnframt stærsta báxítnámu- og súrálsframleiðslufyrirtæki í heimi. Auk þess að finna ásamt frakkanum Heroult, upp aðferðina sem nú er mest notuð við framleiðslu áls, hefur Alcoa verið frumkvöðull á ýmsum sviðum atvinnugreina með virkri þátttöku í þróun í flugiðnaði, bílaiðnaði, umbúðalausnum, byggingariðnaði, almenningssamgöngum, rafeindaiðnaði og öðrum iðnaði síðastliðin 120 ár.