Fréttasafn18. maí 2020 Almennar fréttir

Á ekki von á neinum stórum stefnubreytingum

Það eru alltaf aðrar áherslur með nýjum formanni en engin stór stefnubreyting. Ég hef setið í stjórn samtakanna í fjögur ár og það hefur náðst góður árangur í þeim áherslumálum sem við höfum sett efst á listann. Ég á ekki von á neinum stórum stefnubreytingum. Við munum keyra áfram á okkar stefnu sem við höfum markað. Þetta segir Árni Sigurjónsson, formaður SI, meðal annars í nýju hlaðvarpi Iðunnar en Iðan gefur út hlaðvarp einu sinni í viku sem heitir Augnablik í iðnaði og er markmiðið að fara vítt og dreift um iðngreinar og kynna nýjungar og það sem vel er gert. 

Árni segir að sumt af því sem lagt hefur verið fram eins og nýsköpunarmálin og málefni byggingariðnaðar og fleira sé að komast til aðgerða núna í COVID-19 en hlutirnir séu að gerast aðeins hraðar en séð hafi fyrir sem sé hið besta mál. „Við munum halda áfram að byggja ofan á það. Þannig að mér líst vel á þetta.“ 

Mikil áhersla á menntamálin

„Við höfum lagt mikla áherslu á menntamálin hér hjá Samtökum iðnaðarins í gegnum tíðina í gegnum eignarhlut okkar í Tækniskólanum og sömuleiðis Háskólanum í Reykjavík. Þar beitum við okkar áhrifum og stefnu í verk en ekki síður með almennri stefnumörkum hjá stjórnvöldum og verkefnum sem við erum í með menntamálaráðuneytinu. En það þarf að gera betur. Menntakerfið getur stundum verið örlítið hægfara eða íhaldssamt ef ég má orða það þannig. Það tekur tíma að breyta. Atvinnulífið kallar eftir fjölbreyttara menntakerfi eða sveigjanlegra menntakerfi að einhverju leyti. Þetta er samtal sem við eigum alltaf við skóla og stjórnvöld hvernig við getum samþætt þessa hluti og fengið menntakerfið okkar saman í þetta verkefni. Þetta er eilífðarverkefni.“ Árni segir að aðstæður séu að breytast mjög hratt í atvinnulífinu, menntakerfið sé íhaldsamari hluti og þurfi að byggja hlutina upp. „Ég tel að við höfum gert margt mjög gott í menntamálum og margt mjög gott að segja um menntakerfið í heild. Það hefur verið áhyggjuefni hjá okkur hversu fáir velja sér iðn- og starfsnám hér á Íslandi. Við erum aðeins eftirbátur annarra landa sem við erum að bera okkur saman við. Það er eitt verkefni hvernig náum við þessu upp.“

Árni segir að fyrir því séu margar ástæður. „Sumir hafa bent á að þetta sé ímyndarvandi. Það sé ekki eins fínt eða flott að fara í iðn- og starfsnám. Við höfum unnið í þeim málum, þ.e.a.s. að kynna hversu fjölbreytt og frábært nám þetta er fyrir grunnskólanemendum, foreldrum þeirra og höfum átt samtöl við kennara og skólastjórnendur á efri stigum grunnskóla. Þannig að ég tel að við séum að ná árangri þar. Við erum að sjá að tölurnar eru smá saman að hækka. Atvinnulífið þarf á fleiri iðn- og tæknimenntuðum starfskröftum að halda og við teljum að það sé algjör lykilforsenda í þeim framförum og þeim skrefum sem við ætlum að taka í framtíðinni.“ 

Árni nefnir aðstöðumálin og tekur Tækniskólann sem dæmi. „Tækniskólinn til dæmis frábær skóli með mjög metnaðarfulla stjórnendur og starfsfólk en það hefur aðeins staðið þeim fyrir þrifum að skólinn er dreifður um alla borg og út fyrir borgina meira að segja. En ég hef fulla trú að við náum að þoka þeim málum í rétta átt núna á vonandi næstu örfáum árum. Okkar vonir og metnaður standa til þess að við náum að bæta úr því.“

Nýsköpun er samtvinnuð iðnaði

Þegar Árni er spurður út í nýsköpun segir hann að nýsköpun sé samtvinnuð iðnaði. „Það verður mikil nýsköpun í iðnaði og tæknigreinunum að sjálfsögðu en við sjáum það í þessum stóru og glæsilegu félögum okkar eins og Marel, Össur, CCP, við getum nefnt mörg fleiri dæmi um frábær sprotafyrirtæki og fyrirtæki sem eru komin yfir fyrsta vaxtakúfinn og fleiri. Svo erum við með tölvuleikjabransann og kvikmyndaiðnaðurinn, þarna er nýsköpun að eiga sér stað á hverjum einasta degi. Það er kannski eitthvað aðeins í það bæði í náminu og ferlum sem krefst þess að það eigi sér stað ákveðin nýsköpun.“ Árni segir að á tímum COVID-19 þá sé nýsköpun eina svarið. Hann segir að lögð sé áhersla á að nýsköpunarumhverfið sé samkeppnishæft, sé gegnsæi og styrkja og hvatakerfið sé sambærileg við önnur lönd. „Að við búum til þetta hreiður nýsköpunar, allavega sé kerfið og starfsumhverfið ekki að hindra frumkvöðla og þá sem eru að stunda nýsköpun í sínum leiðangri.“

Á vef Iðunnar er hægt að horfa á viðtalið við Árna í heild sinni.

Idan-18-05-2020Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Ólafur Jónsson hjá Iðunni.