Fréttasafn



9. mar. 2016 Iðnaður og hugverk

Að koma vilja í verk- Áskoranir í loftslagsmálum

 

Fundur Samtaka iðnaðarins og Akureyrarbæjar um áskoranir í loftslagsmálum fór fram á hótel KEA fimmtudaginn 3. mars. Á fundinum töluðu Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, Dr. Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður framleiðslu og matvælasviðs Samtaka iðnaðarins og Guðmundur Haukur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vistorku. Fundurinn fór fram undir skemmtilegri fundarstjórn Evu Hrundar Einarsdóttur, starfsmannastjóra hjá Lostæti.

 

Eiríkur Björn fjallaði um vinnu og markmið Akureyrarbæjar í átt að kolefnishlutleysi. „Þegar við horfum til framtíðar í þessum málum verðum við fyrst að vita hvar við erum í dag“, sagði Eiríkur en Akureyrarbær hefur ákveðna sérstöðu þegar kemur að flokkun og nýtingu á lífrænum úrgangi. Einnig hafa fríar almenningssamgöngur, góðir göngu- og hjólreiðastígar, aðgengi að öflugu útivistarsvæði og græn bílastæði veitt bæjarfélaginu ákveðið forskot. Eiríkur Björn sagði allt þetta gert til að ýta undir umhverfisvænan lífsstíll íbúa. Það er þó margt eftir óunnið og nauðsynlegt er að bera sig saman við sambærileg bæjarfélög sem standa framar í þessum málum og vinna að sambærilegum markmiðum.

 

Dr. Eyjólfur fjallaði um það hvernig hægt er að koma vilja  í verk. „Við erum öll af vilja gerð en mögulega erum við ekki að ganga nægilega langt til að framfylgja því sem við viljum gera“ sagði Eyjólfur en Háskólinn á Akureyri vinnur eftir umhverfis- og samgöngustefnu 2012 - 2017. Skortur á fjármagni takmarkar möguleika stofnana á að framfylgja stefnum en vissulega er margt hægt að gera. HA er t.d. eini íslenski háskólinn sem hefur Grænfána vottun. Endurvinnslukerfi skólans er einnig metnaðarfullt og hefur vakið athygli. Þá skulu starfmenn taka á  leigu bifreiðar sem ganga fyrir metani eða rafmagni ef áætluð keyrsla er undir 100 km á dag.

 

Eyjólfur sagði einnig að ferðir milli landshluta séu allt of margar en erfitt sé að fá fólk til að nota fjarfundabúnað að gagni. „Eðli íslenskrar stjórnsýslu byggir á persónulegum samskiptum. Það krefst aga í vinnubrögðum að vera með fjarfundi og við treystum því einfaldlega ekki að við fáum nægilega áheyrn ef við sitjum fundi í gegnum fjarfundabúnað“, sagði Eyjólfur.

 

Bryndís sagði að loftslagsmálin væru nú loksins orðin eitt af stóru málunum. Með Parísarsamkomulaginu hafi þjóðir heims tekið höndum saman um að ná tökum á vandanum. Fyrirtæki bera mikla ábyrgð og þurfa að leggja sitt af mörkum til að minnka losun frá sinni starfsemi. En til að hægt sé að ná árangri í samgöngum, stóriðju, sjávarútvegi og víðar þarf að hanna og þróa nýja tækni og aðferðir. Þar liggja tækifæri til atvinnusköpunar, bæði í nýjum fyrirtækjum og eldri fyrirtækjum sem aðlaga vörur og þróa nýjar. Bryndís sagði samstarf mikilvægt og að Samtök iðnaðarins taki t.d. þátt í Gænu orkunni, samstarfsvettvang um orkuskipti og Hafinu, þar sem fjallað er um vistvænar lausnir fyrir sjávarútveg. Sveitarfélög séu mikilvægir aðilar og þeir geta nýtt sér sköpunarkraftinn og þróun hjá einkaaðilum. Fjármögnun er lykilþáttur og þar getur Loftslagssjóður skipt sköpum, þegar hann verður settur á laggirnar.

 

"Það er nýlunda að líta á andrúmsloftið sem auðlind og að einungis takmarkað magn megi fara í það", sagði Guðmundur Haukur. Vistorka hugsar fyrst og fremst um íbúana og samfélagið og það er margt sem hægt er að gera til að minnka kolefnislosun í daglegu lífi. Það er einfalt að flokka úrgang og kostar lítið. Varðandi samgöngur þá er búið að leysa öll vandamál þar bæði með metan, rafmagn og stóra bíla en vissulega geta ekki allir keypt nýjan bíl. Hann benti á að ríkið hefur fellt niður skatta og gjöld á vistvænum bílum og því sé hægt að spara sér þau. Segja má að þannig hafi ríkið sett verðmiða á það hvers virði það metur minni losun gróðurhúsalofttegund. Guðmundur benti á að þegar fyrirtæki eru að skipta um bíla á rekstrarleigu þá geti þau óskað eftir umhverfisvænum bílum. Oft séu engar hindranir heldur hamlar framkvæmdaleysið. Það sé mikilvægt að fá fyrirtækin til að grípa þetta og verða leiðandi.

 

Guðmundur Haukur sagði einnig frá áhugaverðu verkefni um Lífmassaver sem Mannvit stýrir. Fyrirtæki í bænum sem eru að vinna með lífdísilframleiðslu, moltugerð og metanframleiðslu, stefna að því að tengja alla þessa verkþætti saman og ná fram hagkvæmari framleiðslu þar sem hver styður við annan.