Innan vallar og utan
Liðin vika hefur ekki verið Bretum góð. Fyrst tók breska þjóðin þá afdrifaríku ákvörðun að ganga úr Evrópusambandinu og í kjölfarið féll England úr EM í knattspyrnu eftir erfiða viðureign gegn Íslendingum. Nokkurskonar BREXIT innan og utan vallar.
Brotthvarf Englendinga úr EM mun þó ekki hafa nein varanleg áhrif á efnahag þeirra eða annarra. Stolt þeirra er bara sært líkt og í þorskastríðinu. En útganga þeirra úr Evrópusambandinu mun hafa mikil og alvarleg áhrif, bæði efnahagsleg og pólitísk. Áframhaldandi vera þeirra í Evrópusambandinu hefði verið skýr valkostur en nú tekur við mikil óvissa. Hún birtist m.a. í því að gengi breska pundsins hefur ekki verið lægra í áratugi, hlutabréfaverð í Bretlandi og víðar hafa lækkað mikið og lánshæfismat Bretlands hefur lækkað.
Brotthvarf Breta bæði innan og utan vallar hefur mikil áhrif á Íslandi. Annars vegar er sigur Íslands á Englandi frábær landkynning og eflir andann hér á landi og hins vegar er útganga þeirra úr Evrópusambandinu mikið áhyggjuefni fyrir okkur. Í fyrra komu þúsund breskir ferðamenn til Íslands á hverjum virkum degi að meðaltali, samtals um 240 þúsund. Útfluttar vörur til Bretlands numu alls 73 milljörðum króna 2015 og útflutt þjónusta þangað a.m.k. 50 milljörðum. Efnahagsleg tengsl Íslands og Bretlands eru afar mikil en þau er að miklu leyti grundvölluð á regluverki ESB og EES. Hvort þau tengsl verða í uppnámi er óvíst en neikvæðu skammtímaáhrifin gætu komið fljótt fram m.a. vegna lækkandi gengis pundsins, fækkun breskra ferðamanna og minnkandi útflutningstekjur frá Bretlandi. Frá sjónarhóli Breta kann þetta að líta öðruvísi út enda mun veiking pundsins auðvitað styrkja stöðu breskra útflytjenda.
Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu er ennfremur bakslag í þróun alþjóðaviðskipta sem öðru fremur hefur miðað að því að draga úr viðskiptahindrunum, samræma staðla og reglur. Aukið frjálsræði í viðskiptum hefur án efa aukið hagsæld, ekki síst í Bretlandi.
Ekki má heldur gleyma því að ein af frumforsendum stofnunnar Evrópusambandsins var að gagnkvæm samvinna aðildarríkja væri svo sterk að ófriður þeirra á milli yrði nánast óhugsandi. Þetta sjónarmið á nú undir högg að sækja. Eftir útgöngu Breta verða það eftir sem áður sameiginlegir hagsmunir allra að þeir verði áfram hluti af innri markaði Evrópu. Hvernig það gerist veit hins vegar enginn. Við, líkt og heimsbyggðin, munum fylgjast grannt með hvernig Bretum vegnar utan ESB. Ef dregur fljótt úr áhrifunum þá þyngjast lóðin á vogarskál þeirra sem telja hagsmunum sínum betur borgið utan en innan sambandsins. Ef hin efnahagslegu áhrif fara á verri veg verður það til að styrkja málflutning þeirra sem telja ávinningin meiri innan en utan sambandsins.
Þessi vika fer í sögubækurnar fyrir margra hluta sakir. Sigur Íslendinga yfir Englendingum verður þar á meðal. Þar tókst fámennri þjóð að velgja stórþjóðinni heldur betur undir uggum. Það verður lengi í minnum haft. Áfram Ísland!
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins
Grein í Viðskiptablaðinu 30. júní 2016.