Fréttasafn1. des. 2014 Almennar fréttir

Íslenskur iðnaður – óteljandi snertifletir

Það var stór stund fyrir 96 árum þegar Ísland varð fullvalda ríki. Við minnumst þess og fögnum í dag. Það eru mörg stef sem eru samofin í þróun lands og þjóðar á þeim tíma sem liðinn er frá fullveldi. Eitt af þeim er uppbygging atvinnuvega, hvort sem hún lýtur að vélvæðingu og tilheyrandi framleiðniaukningu eða uppbyggingu á nýjum sviðum iðnaðar. Atvinnulífið er sem betur fer fjölbreytt. Það er samt óhætt að fullyrða að íslenskur iðnaður hefur verið burðarás í efnahagslífinu á þessum árum og verið snertiflötur við landsmenn á óteljandi vegu. Víst er að svo verður áfram.

Íslensk iðnfyrirtæki skapa um helming gjaldeyristekna þjóðarinnar, þau koma að myndun um ­fjórðungs landsframleiðslu og næstum því fimmti hver vinnufær Íslendingur starfar við íslenskan iðnað.

Innan Samtaka iðnaðarins eru fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum sem starfa á ótal sviðum, allt frá hefðbundnum iðngreinum til hátækni. Þau eru ólík innbyrðis en þau sameinast um grundvallaratriðin. Við trúum því að það þurfi sífellt að leggja rækt við samkeppnishæfni landsins þannig að framleiðsla hér skili mikilli og aukinni verðmætasköpun. Við leggjum líka áherslu á að innlend framleiðsla sé samkeppnishæf við innflutning á sem flestum sviðum og verður það að byggjast á markaðsforsendum.

Framleiðni er okkur einnig hugleikin. Það er mikið keppikefli fyrir þjóðina að framleiðsla á hverja vinnustund aukist og á það við á nánast öllum sviðum. Það er einnig aðkallandi verkefni að nýta fjármagn sem fer í atvinnuuppbyggingu og rekstur með skilvirkari hætti. Við verðum að brjótast úr viðjum vanans og finna leiðir til að breyta vinnuskipulagi og raunar ýmsu öðru skipulagi til að ná fram hagræði. Þetta á að vera sameiginlegt markmið okkar allra.  Meiri framleiðsla og þjónusta er mikilvæg en það er ennþá brýnna að við náum þessu fram án þess að þurfa að leggja til aukna fjármuni eða vinnuafl. Þetta er rétta leiðin að auknum lífsgæðum.

Ég nefni einnig sérstaklega að tveir mikilvægir þættir í að ýta undir samkeppnishæfni og framleiðni eru menntun og nýsköpun. Við þurfum að sækja fram í menntamálum á djarfan hátt. Það er þörf á breytingum þannig að iðnmenntun og verk- og tækninám sé sett ennþá betur í forgrunn og að atvinnustefna og menntastefna tali betur saman. Við höfum séð frábæran árangur í nýsköpun á undanförnum árum. Við megum samt ekki missa sjónar af því að ýta áfram undir nýju fyrirtækin okkar og allar þær nýju hugmyndir sem skapa verðmæti til framtíðar hvort sem er hjá sprotum eða í rótgrónari fyrirtækjum. Í báðum þessum málaflokkum látum við hjá SI til okkar taka.

Við eigum að vera stolt af því sem áorkast hefur á síðustu áratugum. En við eigum ekki að hræðast breytingar og það er mikilvægt að nálgast verkefni morgundagsins af áræðni og krafti.

Við hjá Samtökum iðnaðarins óskum landsmönnum til hamingju með fullveldisdaginn. Við viljum nota tækifærið og minna á að framleiðsluvörur og þjónusta 1.300 aðildarfyrirtækja okkar snertir daglegt líf allra Íslendinga á óteljandi vegu – öllum til hagsbóta.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins

Birt í Morgunblaðinu 1. desember 2014