Fréttasafn



8. okt. 2015 Iðnaður og hugverk

Mannauðsmælingar skipta miklu máli í rekstri fyrirtækja

 Þriðji fundur í fundaröð SI um framleiðni fór fram í morgun þar sem fjallað var um mannauð fyrirtækja og mikilvæga mælikvarða. 

Hvert fyrirtæki þarf að móta eigin stefnumarkandi mælikvarða  

Arney Einarsdóttir, lektor við viðskiptadeild HR og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar um mannauðsstjórnun kynnti frumniðurstöður Cranet rannsóknarinnar sem er alþjóleg rannsókn í mannauðsstjórnun, endurtekin á þriggja ára fresti. Ísland hefur verið með í rannsókninni frá árinu 2006.

Þar er spurt eftir lykilmælikvörðum eins og starfsmannavelta, fjarvistir, viðhorfskannanir, frammistöðumat og starfsmannasamtöl. Niðurstöðurnar eru bæði jákvæðar og neikvæðar en því miður standa fyrirtæki i frumvinnslu, iðnaði og orkumálum sig verr en aðrar greinar í að gera slíkar mælingar og færri fylgjast með mælikvörðum og gera kannanir í ár en var á árunum 2009 og 2012. Það jákvæða er að í heildina eru fjarvistardagar færri og fleiri framkvæma viðhorfskannanir meðal starfsmanna.  

Í máli Arneyjar kom fram að hversu mikilvægt það er að fyrirtæki haldi utanum lykilmælikvarðana en einnig að það séu mótaðir sérstakir mælikvarðar í hverju fyrirtæki fyrir sig og tengjast þannig áherslum fyrirtækisins. Fram kom hjá Arneyju að starfsmenn eru sáttari við breytingar ef þeir taka þátt í ákvarðanatöku. Þannig geta samráðsnefndir aukið starfsánægju sem hefur bein tengsl við hagnað fyrirtækja. 

Upplýsingakerfin þurfa að vera skilvirk og sýna hvernig dagurinn í dag gengur  

Reynir Eiríksson framleiðslustjóri Norðlenska kynnti fyrir fundargestum þann árangur sem Norðlenska hefur nýtt sér upplýsingatæknina við að mæla vinnuþátt við framleiðslu hverrar vöru og færa hann inn í kostnaðarútreikning. Vinnsluferlið er flókið, hefst þegar dýrin eru keypt af bændum og flutt til slátrunar og lýkur ekki fyrr en varan er komin inn í verslunina sem jafnvel hefur skilarétt á vörunni. Þessi upplýsinga- og vinnslukerfi þurfa að tala hratt og vel saman en mikil vinna hefur farið í það undanfarin ár hjá fyrirtækinu að gera kerfin sem fullkomnust. Það hefur skilað þeim árangri að frávik frá áætluðum vinnutíma við vinnslu hverrar vöru eru mjög lítil þegar raunmælingar eru gerðar. Gott upplýsingakerfi er grunnur að mælingum sagði Reynir og réttar upplýsingar um vinnuþáttinn eru beintengdar afkomu fyrirtækisins. 

Öryggi snýst mikið um hugarfar

Síðust á mælendaskrá var Sigrún Helgadóttir framkvæmdastjóri starfsmanna og innkaupasviðs hjá Norðuráli. Hún kynnti þrjá þætti sem tengjast bónuskerfi fyrirtækisins, öryggi, umhverfi og rekstur. Síðan kynnti hún öryggisþáttinn og sagði frá áhugaverðri tengingu milli öryggismála fyrirtækisins og bónuskerfis starfsmanna. Fyrirtækið hefur sett sér metnaðarfull markmið um öruggt atferli við öll störf og  starfsmenn njóta kjarabóta, bæði í formi launa og bætts vinnuumhverfis, eftir því sem fyrirtækið nær betri árangri í öryggismálum.