Fréttasafn20. jan. 2022 Almennar fréttir

Mikið í húfi að vel takist til í komandi kjaraviðræðum

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í Innherja á Vísi að mikið sé í húfi að vel takist til í komandi kjaraviðræðum. „Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að eiga yfirvegað samtal um tækifærin sem framundan eru og til hvaða aðgerða þarf að grípa til að efla velsæld landsmanna. Ljóst er að launahlutfall er alltof hátt í mörgum atvinnugreinum þannig að svigrúm til launahækkana er lítið sem ekkert.“ Sigurður í Innherja að á sama hátt hafi hækkun á verði aðfanga dregið úr getu fyrirtækja til að hækka laun. „Það má búast við að kallað verði eftir úrræðum í húsnæðismálum þar sem skortur hefur leitt til hækkandi verðs á íbúðum sem aftur hefur leitt til aukinnar verðbólgu og hækkunar vaxta. Húsnæðismálin hafa hvílt þungt á fólki og því er mikilvægt að viðunandi lausnir verði fundnar á vandanum.“

Húsnæðismálin hvíla þungt á fólki

Sigurður segir jafnframt að áskoranir sem fylgt hafa heimsfaraldrinum séu fjölmargar hjá atvinnurekendum. „Það er óhætt að segja að það hafi verið unnið þrekvirki bæði hjá stjórnendum og starfsmönnum í því að halda starfsemi fyrirtækja gangandi við þessar erfiðu aðstæður. Fyrirtæki innan Samtaka iðnaðarins hafa séð landsmönnum fyrir matvælum og öðrum nauðsynjum, annast framkvæmdir við innviða- og íbúðauppbyggingu og skapað verðmæti til útflutnings. Húsnæðismálin hafa hvílt þungt á fólki og því er mikilvægt að viðunandi lausnir verði fundnar á vandanum. Með mikilli útsjónarsemi hefur tekist að halda starfsemi gangandi þrátt fyrir mikla röskun í flutningum og hækkun á verði aðfanga. Staðan á húsnæðismarkaði er grafalvarleg þar sem of fáar íbúðir hafa verið byggðar undanfarinn áratug eða svo og húsnæðisverð hefur hækkað mikið á tímum heimsfaraldurs. Enn ríkari ástæða er því til að bregðast við stöðunni á húsnæðismarkaði með markvissum aðgerðum.“

Mikill ávinningur fólginn í að mæta lóðaskorti

Þá er haft eftir Sigurði í Innherja: „Við hjá Samtökum iðnaðarins höfum ítrekað bent á að hækkandi húsnæðisverð sé meginorsök hækkunar verðbólgu sem hefur leitt til hækkunar vaxta.” Hann segir að ef ráðist verði að rót vandans, lóðaskorti, þá muni draga úr þessum áhættuþætti. „Fyrir launþega væri því mikill ávinningur fólginn í því að mæta þessum skorti af myndarskap þannig að dragi úr verðhækkunum fasteigna. Annar þáttur verðbólgunnar er hækkun á verði aðfanga og hækkun flutningskostnaðar. Það er erfitt að ráða við þær hækkanir og enn sem komið er hefur tekist að láta það ekki koma niður á neytendum af fullum þunga.” 

Þarf að horfa til þess hvað orsakar hærri vexti og ráðast að rót vandans

Einnig segir Sigurður í Innherja að þegar komi að hærri vöxtum þá séu fyrirtækin og launþegar þar á sama báti og greiði hærri vexti þegar stýrivextir Seðlabankans hækka. „Það er því ekkert að sækja til fyrirtækja landsins á þessum forsendum. Þarna þarf að horfa til þess hvað orsakar hærri vexti og ráðast að rót vandans. Með samstilltu átaki verkalýðshreyfinga og atvinnurekenda í húsnæðismálum væri hægt að skapa kjarabætur sem um munar.” 

Markmið aðila vinnumarkaðarins ætti að vera aukin verðmætasköpun

Sigurður segir jafnframt í Innherja að samtal aðila vinnumarkaðarins þurfi að vera uppbyggilegt þar sem markmiðið ætti að vera aukin verðmætasköpun þannig að meira verði til skiptanna. Hann segir annan þátt verðbólgunnar vera hækkun á verði aðfanga og hækkun flutningskostnaðar. Það sé erfitt að ráða við þær hækkanir og enn sem komið er hafi tekist að láta það ekki koma niður á neytendum af fullum þunga „Styðja þarf við útflutningsgreinarnar og þá sérstaklega hugverkaiðnaðinn sem er sú grein sem er í hvað mestum vexti. Nú er hugverkaiðnaður orðinn fjórða stoðin í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins auk sjávarútvegs, orkusækins iðnaðar og ferðaþjónustunnar. Samtal aðila vinnumarkaðarins þarf að taka mið af því. Ef rétt er á spilum haldið væri hægt að leggja grunn að vaxtarskeiði sem allir njóta góðs af.“

Innherji, 20. janúar 2022.