Fréttasafn14. jan. 2020 Almennar fréttir

Nýta ætti samvinnuleið á fleiri sviðum en vegagerð

Í nýjasta tölublaði Þjóðmála skrifar Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, um samvinnuleið við uppbyggingu innviða þar sem einkaaðilar vinna með hinu opinbera (e. public private partnership eða PPP) en um er að ræða langtímasamning einkaaðila og hins opinbera þar sem einkaaðili sinnir þjónustu sem opinber aðili hefur að jafnaði sinnt. Sigurður segir í grein sinni að fjölmörg dæmi séu um vel heppnuð verkefni víða um heim þar sem samvinnuleiðin hafi verið nýtt. Hér á landi megi nefna Hvalfjarðargöngin sem Spölur byggði og rak. Erlendis þekkist slík verkefni á sviði vegaframkvæmda, flugvalla, raforku og fasteigna svo dæmi séu tekin. Þá segir hann að öllum sé ljóst að innviðir landsins hafi verið vanræktir um margra ára skeið. Það sé freistandi fyrir stjórnvöld að draga úr fjárfestingum og forgangsraða fjármunum í rekstur þegar illa ári og þannig hafi með réttu eða röngu verið forgangsraðað í ríkisrekstrinum hér á landi eftir alþjóðlega fjármálaáfallið 2008. Undanfarinn áratug eða svo hafi innviðir landsins setið á hakanum og fjármagni varið í önnur málefni. Afleiðingar þessa séu reglulegt fréttaefni og með þessu hafi skuldum verið velt á komandi kynslóðir. Ljóst sé að stórátak þurfi til að koma innviðum landsins í ásættanlegt horf og þar ætti hið opinbera að horfa til einkaaðila í meira mæli.

Í  greininni kemur fram að haustið 2019 hafi komið fram frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda um samvinnuleið við vegagerð. Þar sé Vegagerðinni veitt heimild til að gera samning við einkaaðila um samgönguframkvæmdir og nær heimildin til sex verkefna. Sigurður segir það sannarlega ánægjulegt að samgönguráðherra skuli opna á samvinnuleið við uppbyggingu vega og það ætti að vekja áhuga einkaaðila. Það sé hvatning til þess að nýta samvinnuleið á öðrum sviðum og í meira mæli, samfélaginu til heilla.

Thjodmal