Samstarf sem leiðir til framfara
Að fjölga iðnnemum er kappsmál allra þeirra 11 félaga iðnmeistara sem starfa innan Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins. Grunnurinn að samkeppnishæfni fyrirtækja er vel menntað og þjálfað starfsfólk sem skapar margvísleg verðmæti fyrir samfélagið. Í samstarfi við meistarafélögin hefur verið unnið mikið og þarft starf innan SI til að breyta iðnnámi með það að markmiði að færa skipulag námsins nær nútímanum og laða að fleira ungt fólk sem er reiðubúið að leggja á sig fjölbreytt iðnnám.
Þær breytingar sem gerðar hafa verið eru til mikilla framfara. Meistaradeild SI samþykkti þá mikilvægu breytingu til að mynda að skóli beri ábyrgð á að koma nemum í verknám þar sem það gengur ekki í nútímasamfélagi að nemendur komi úr skóla án nokkurra réttinda og verði sjálfir að sjá um að koma sér á samning. Með aukinni sérhæfingu fyrirtækja skiptir einnig máli að nemendur fái tækifæri til að komast að hjá fleiri en einu fyrirtæki. Þetta þjónar allt sínum tilgangi og miðar að því að efla iðnmenntunina og gera útskrifaða nemendur hæfari til starfa. Nýliðun einstakra faga skiptir verulegu máli fyrir allt atvinnulífið og miða þessar breytingar að því að fjölga nemendum í iðnnámi. Þá hefur verið unnið að samræmingu náms til að auðvelda þeim sem velja verknám að fara í áframhaldandi nám á háskólastigi.
Sú gagnrýni sem komið hefur fram í ítrekuðum skrifum bakara- og kökugerðarmeistarans Sigurðar Más Guðjónssonar og múrarameistarans Helga Steinars Karlssonar á því ekki við rök að styðjast. Það gætir einnig misskilnings í málflutningi þeirra þar sem segir að SI stefni „að sameiningu fagfélaganna fyrir luktum dyrum og án samráðs við iðnmeistarana sjálfa“ en rétt er að benda á að það er ósk fagfélaga iðnmeistara að vera með starfsstöðvar í Húsi atvinnulífsins vegna samstarfs félaganna sín á milli og aukinnar samvinnu við SI og SA, en meistarafélögin hafa aðkomu að kjarasamningum í gegnum SA. Þessi nálægð auðveldar okkur að vera þátttakendur í að móta starf bæði SI og SA. Allt tal um að SI stefni að sameiningu félaganna er úr lausu lofti gripið.
Meistaradeild SI á fulltrúa í Mannvirkjaráði sem er mjög góður umræðuvettvangur þar sem saman koma allir þeir aðilar innan SI sem starfa við mannvirkja- og byggingagreinar. Ef við værum ekki innan raða SI hefðum við ekki þá aðkomu sem við metum mikilvæga fyrir mannvirkjagerð í heild sinni. Þá vill Meistaradeild SI hafa áhrif á fyrirhugaðar breytingar á Iðnaðarlögunum og hefur í tvígang sent umsagnir til iðnaðarráðuneytisins í því skyni að benda á mikilvægi þess að í lögin vanti að setja viðurlög vegna brota. Þó að það séu skiptar skoðanir á því tiltekna máli þá gefur aðild okkar að SI möguleika á að hafa áhrif á framvindu mikilvægra mála og þannig erum við þátttakendur í umbreytingum sem eru til hagsbóta fyrir okkar félagsmenn.
Það er ljóst að hag allra þeirra meistarafélaga sem tilheyra SI er betur borgið innan SI en utan. Hjá SI er þess vandlega gætt að hagsmunir allra komist að enda byggist tilvist samtakanna á því að þjónusta öll þau fyrirtæki og félög sem þeim tilheyra. Samtökin eru til fyrir okkur því saman áorkum við meira en við gerum sundruð. Því er mál að linni og vonandi að félagarnir Sigurður Már og Helgi Steinar láti af skrifum sínum sem verða að teljast lítt uppbyggjandi fyrir iðnmenntun eða iðnaðinn í landinu. Það er enginn hljómgrunnur fyrir þeirra málflutningi innan okkar raða og því óþarfar áhyggjur þeirra af framþróun iðnmenntunar á Íslandi og skipulagi meistarafélaganna. Mikil ánægja er með samstarfið við SI og aðkomu okkar að menntamálum og öllum okkar réttindamálum. Þar skapast öflugur umræðuvettvangur og samstarf sem leiðir til aukinna framfara.
Jón Sigurðsson, formaður Meistarafélags húsasmiða (MFH),
Ágúst Pétursson, formaður Meistarafélags iðnaðarmanna í Hafnarfirði (MIH),
Valdimar Bjarnason, formaður Meistarafélags Suðurlands (MFS),
Þórarinn Valur Árnason, formaður Meistarafélags byggingamanna á Norðurlandi (MBN),
Heiðar Smári Harðarson, formaður Félags skrúðgarðyrkjumeistara (FG),
Már Guðmundsson, formaður Málarameistarafélagsins (MMF),
Þorvarður Einarsson, formaður Félags dúklagninga- og veggfóðrarameistara (FDV),
Auðunn Kjartansson, formaður Múrarameistarafélags Reykjavíkur (MM),
Sævar Jónsson, formaður Félags blikksmiðjueigenda (FBE),
Jens Pétur Jóhannsson, formaður Samtaka rafverktaka (SART),
Grétar Guðlaugsson, formaður Meistarafélags byggingamanna Suðurnesjum (MBS)
Morgunblaðið, 6. ágúst 2016.