Fréttasafn



29. jún. 2017 Almennar fréttir

Skattleggja á öryggi borgaranna með vísan í gamlar rannsóknir

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, skrifar grein í Morgunblaðinu í dag um áhrif nagladekkja og segir það alvarlegan hlut að skattleggja öryggi borgaranna með villandi rökum og vísað í gamlar rannsóknir því til stuðnings. Grein Özurar fer hér á eftir:

Nokkur umræða hefur átt sér stað á undanförnu um svifryk og áhrif nagladekkja þar á. Fulltrúar Reykjavíkurborgar hafa leitt þá umræðu og hefur Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi farið fyrir henni. Fyrir skömmu var viðtal við Hjálmar þar sem hann kynnti þá hugmynd Reykjavíkurborgar að sveitarfélögum verði gert heimilt að sekta þá sem aka um á nagladekkjum innan borgarmarkanna.

Ekki þarf að fjölyrða um áhuga borgaryfirvalda á því að þrengja að fjölskyldubílnum innan borgarmarkanna og áhugaleysi þeirra á því að bæta umferðarmannvirki hvað þá að halda núverandi gatnakerfi við eins og dæmin sanna.

Það alvarlega í þessum hugmyndum borgarinnar að banna nagladekk á götum borgarinnar er sú beina árás á öryggi fólks bæði akandi og annarra í umferðinni. Fjölmargir þurfa vinnu sinnar vegna að aka á hverjum degi út fyrir borgarmörkin sem og aðrir gera það reglulega í sínum frístundum. Einnig mega borgaryfirvöld hverju sinni ekki gleyma því að Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna og þarf fólk utan að landi að sækja þjónustu til borgarinnar oft um langan veg við mjög mismunandi aðstæður. Rannsóknir sýna svart á hvítu að í hálku vegna íss eru nagladekk eini kosturinn sem dregur verulega úr hættu á að bíll renni til sem og bremsuvegalengd er umtalsvert styttri en á ónegldum vetrardekkjum eða sem nemur að meðaltali 14 metrum og getur það skipt sköpum. Líka hafa nagladekk mun meira vægi varðandi öryggi fólks í eldri bílum sem ekki eru búnir skriðvarnarbúnaði. Slíkur búnaður dregur verulega úr hættu á að bílar verði stjórnlausir í hálku og snjó. Nagladekk draga úr hættu á að bíll, sem ekki er búinn skriðvarnarbúnaði, verði stjórnlaus í hálku og snjó, um 42% samkvæmt rannsókn er sænska samgöngustofan lét framkvæma. Oft er það yngra fólk og efnaminna sem kaupir slíka bíla þar sem þeir eru ódýrari. Að banna eða innheimta sérstaklega fyrir þann öryggisbúnað sem þeim hópi fólks býðst er ekki bjóðandi.

VTI er stofnun er sérhæfir sig í rannsóknum og þróun innan samgöngugeirans á heimsvísu. Árið 2009 tóku þeir að sér verkefni í Svíþjóð þar sem meta átti hvaða áhrif það hefði á umferðaröryggi þar í landi ef dregið væri verulega úr notkun nagladekkja. Ef notkun á landsvísu á nagladekkjum færi úr 70%, eins og talið var að hún sé, í 50% myndi aukning í tilkynntum slysum til lögreglu aukast um 56 tilkynningar yfir vetrarmánuðina. Dauðsföllum fjölga um 1,8 og alvarlega slösuðum um 13,1 einstakling. Ef notkun nagladekkja færi í 20% myndi tilkynningum um slys fjölga um 140,3, dauðsföllum um 4,4 og alvarlega slösuðum um 33 einstaklinga yfir vetrarmánuðina.

Hjálmar Sveinsson hefur fullyrt í viðtölum að nagladekk slíti götum 60-100 sinnum meira en venjuleg dekk. Þar er Hjálmar að vísa í rannsókn frá árunum í kringum 1990, eða um 27 ára gamla rannsókn sem var viðurkennd á þeim tíma sem mjög ónákvæm rannsókn. Samkvæmt rannsókn frá því í fyrra (BR Denby et al. 2016) kemur fram að slit vegna nagladekkja er 20 sinnum meira en vegna bíla á ónegldum dekkjum, ekki 60-100 sinnum meira eins og Hjálmar fullyrðir. Eins og augljóst er og flestir vita þá hefur mikil þróun verið í gerð og búnaði ökutækja síðan 1993. Naglar í dekkjum eru núna allt öðruvísi hannaðir sem og léttmálmar eru notaðir í dag en voru ekki áður fyrr, til að draga úr sliti á götum og hávaða. Bent hefur verið á að draga megi verulega úr sliti gatna og svifryks með því að nota betra efni í gatnagerð en gert er. Einnig megi rykbinda og sópa götur en það er eitthvað sem aldrei eða afar sjaldan er gert. Enginn deilir um verðmæti mannslífa á móti kostnaði við viðhald gatna.

Það er alvarlegur hlutur að skattleggja öryggi borgaranna með villandi rökum og vísa í gamlar rannsóknir því til stuðnings. Þá hlýtur maður að spyrja sig hvort aðrar ákvarðanatökur er koma frá borgaryfirvöldum séu byggðar á rannsóknum frá síðustu öld.

Hins vegar er alveg ljóst að margir hafa lítið með nagladekk að gera undir bíla sína og duga í mjög mörgum tilfellum góð ónegld vetrardekk og ættu því að velja þann kost. Borgaryfirvöld ættu frekar að setja meiri kraft í að fræða fólk með réttum upplýsingum en að koma með boð, bönn og sektir.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.

Morgunblaðið, 29. júní 2017.