Fréttasafn



5. mar. 2021 Almennar fréttir

Þarf samstillt átak svo atvinnulífinu verði unnt að hlaupa

Árni Sigurjónsson, formaður SI, sagði meðal annars í ávarpi sínu á Iðnþingi 2021 að við verðum að slíta og afnema eins marga fjötra og unnt er með markvissum hætti og samstilltu átaki, svo atvinnulífinu verði unnt að hlaupa, og á sumum sviðum hlaupa hraðar, skapa ný, eftirsótt störf og sækja fram í markaðsstarfi til að afla aukinna gjaldeyristekna.

Hér fyrir neðan er ræða formanns SI í heild sinni:

Iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, félagsmenn og aðrir góðir áheyrendur,

Ég býð ykkur velkomin á Iðnþing 2021.

Á Iðnþingi síðasta árs beindum við sjónum okkar að langtímamarkmiðum í atvinnusköpun og hvernig móta megi hagkerfi okkar, þannig að það hvetji til aukinnar verðmætasköpunar á nýjum grunni á næstu 30 árum. Á Iðnþingi í dag stillum við fókusinn örlítið nær okkur í tíma og kjósum að beina sjónum okkar að skammtímamarkmiðunum, næstu fjögur árin eða svo, undir yfirskriftinni Hlaupum hraðar – slítum fjötrana og sækjum tækifærin.

Ástæðan er einföld – við erum búin að leggja niður fyrir okkur hver áfangastaðurinn er og nú þurfum við að velja bestu leiðina þangað. Verkefnið framundan er skýrt: að efnahagsleg lífsgæði landsmanna verði að minnsta kosti jafngóð eða meiri en þau voru fyrir það efnahagsáfall sem við glímum enn við í kjölfar Covid-19 heimsfaraldurs. Markmið okkar er að ljúka því verkefni á næstu fjórum árum. Til að það megi nást, þarf á tímabilinu að auka landsframleiðslu okkar um 545 milljarða króna, auka gjaldeyristekjur um 300 milljarða og skapa 29 þúsund störf, meðal annars til þess að ná niður atvinnuleysinu og mæta fjölgun landsmanna.

Þetta kann að hljóma sem torfær leið eða óklíft fjall, sérstaklega að loknu kreppuári sem leiddi til samdráttar í áætlaðri landsframleiðslu á mann um 8,2% að raungildi, að teknu tilliti til mannfjöldaaukningar. Er það mesti samdráttur í landsframleiðslu á mann sem mælst hefur hér á landi frá upphafi mælinga eða frá árinu 1946. Þá er ágæt brýning að rifja upp Fjallgöngu borgarskáldsins, Tómasar Guðmundssonar, þar sem segir:

Leiðin er að vísu varla, vogandi nema hraustum taugum,

en mér fannst bara, best að fara, beint af augum,

því hversu mjög sem mönnum finnast

fjöllin há, ber hins að minnast,

sem vitur maður mælti forðum

og mótaði í þessum orðum,

að eiginlega er ekkert bratt,

aðeins mismunandi flatt.

Það er nefnilega margt til í þessu og það hjálpar að rifja upp að við höfum svo sannarlega klifið svipaða tinda áður. Á árunum 2014-2018 var árlegur hagvöxtur nefnilega að meðaltali 4,9%, útflutningur óx að meðaltali um 6,6% á ári og störfum fjölgaði um 28 þúsund. Til að setja þetta í samhengi við tölurnar sem ég nefndi áðan er markmiðið að vöxturinn næstu fjögur ár verði aðeins lægri en á tímabilinu 2014-2018. Þetta er því vel hægt, við höfum gert þetta áður og ætlum að gera þetta aftur.

En ekkert gerist af sjálfu sér og á næstu 12 mánuðum verða teknar ákvarðanir sem munu ráða miklu um efnahagslega endurreisn á Íslandi næstu árin. Eins og fram kemur í ályktun Iðnþings, sem samþykkt var á aðalfundi Samtaka iðnaðarins nú fyrr í dag, leggjum við til að stjórnvöld slíti margvíslega fjötra með markvissum hætti á næstu mánuðum og velji leið vaxtar, svo atvinnulífinu verði sköpuð þau skilyrði að hlaupa hraðar og skapa eftirsótt störf og aukin verðmæti. Verði hins vegar leið aukinnar skattlagningar og áframhaldandi fjötra fyrir valinu mun það hefta vöxt atvinnulífs og tefja endurreisnina.

Hindranir og fjötrar hafa því miður allt of lengi tilheyrt starfsumhverfi íslensks atvinnulífs. Fáar þjóðir hafa eins mikla reynslu af hvers konar höftum í sinni hagsögu og Íslendingar, hvort sem það hefur verið í milliríkjaviðskiptum, gjaldeyrismálum eða erlendum fjárfestingum. Tímabundnar hindranir, sem vafalítið var gripið til af góðum hug eða í neyðarvörn vegna aðsteðjandi ógnar fyrir efnahag landsins, en höfðu þá tilhneigingu að dragast á langinn og verða að varanlegu ástandi. Enn þann dag í dag virðist okkur hins vegar ekki auðnast að koma okkur út úr slíku hugarfari við setningu laga og reglugerða í stórum sem smáum efnum eða álagningu óhóflegra skatta og gjalda, þrátt fyrir að engin augljós eða brýn nauðsyn kalli á hindranir eða fjötra. Allt eru þetta mannanna verk sem hægt er að breyta. Engir fjötrar eru meitlaðir í stein.

Við getum rétt ímyndað okkur hvernig afreksfólkinu okkar í íþróttum liði, ef settur væru á þau 20 kílóa bakpoki fyrir hverja keppni – og væntingar þjóðarinnar um framúrskarandi árangur þeirra í samkeppni við erlenda keppinauta væru engu minni þrátt fyrir það! Það nákvæmlega sama gildir um íslenskt atvinnulíf. Við verðum að slíta og afnema eins marga fjötra og unnt er með markvissum hætti og samstilltu átaki, svo atvinnulífinu verði unnt að hlaupa, og á sumum sviðum hlaupa hraðar, skapa ný, eftirsótt störf og sækja fram í markaðsstarfi til að afla aukinna gjaldeyristekna.

Ein skýrasta birtingarmynd samstillts átaks væri atvinnustefna fyrir Ísland – leiðarljós fyrir stjórnvöld og atvinnulíf og skýr skilaboð til umheimsins hvert við stefnum í atvinnumálum. Atvinnustefna er í sinni einföldustu mynd samhæfing á stefnumótun þeirra málaflokka sem einna helst hafa áhrif á framleiðni og samkeppnishæfni. Í okkar huga eru málaflokkarnir sem einkum þarf að samhæfa, og gera þannig úr garði að þeir styðji hver við annan, menntun, innviðir, nýsköpun, starfsumhverfi og orka og umhverfi.

Til þessa dags hefur skort mjög á samhæfingu, sem við virðumst eiga í stökustu vandræðum með, þrátt fyrir stuttar boðleiðir. Í umræðum á Alþingi í vikunni um innviði og þjóðaröryggi undirstrikaði forsætisráðherra mikilvægi þess að stefna okkar sem samfélags sé samhæfð, að ólík ráðuneyti og stofnanir vinni vel saman að skýrum markmiðum. Ég tek heils hugar undir með þeim orðum forsætisráðherra að þótt við séum lítið samfélag þá virðist það allt of oft brenna við að stofnanir og ráðuneyti eigi erfitt með að vinna saman. Hver og einn vilji bara sjá um sína torfu og átti sig ekki á því að öll erum við þjónar heildarinnar, þjónar samfélagsins alls.

Við verðum að hrista af okkur slenið og leggja tafarlaust af stað í þessa vegferð.

Á sjöunda áratug síðustu aldar tóku stjórnvöld og atvinnulíf sig saman og unnu að því að sækja tækifæri þess tíma hingað til lands, sem hafa sannarlega skipt sköpum fyrir íslenskt efnahagslíf á þeim áratugum sem liðnir eru. Til að bæta við þeim 300 milljörðum króna í gjaldeyristekjur sem þarf á næstu fjórum árum er nauðsynlegt að sækja tækifæri til frekari gjaldeyrissköpunar, en hvar liggja tækifærin nú og hvaða tækifæri viljum við sækja?

Til að byrja með er mikilvægt að hlúa að því sem fyrir er og skapað hefur frjósaman jarðveg fyrir næsta tímabil vaxtar, því allir geirar atvinnulífsins skipta okkur máli í okkar litla hagkerfi. Það er segin saga að grunnstoðirnar styðja við nýja atvinnuvegi. Tvær af fjórum útflutningsstoðum hagkerfisins tilheyra iðnaði, hugverkaiðnaður og orkusækinn iðnaður og á þeim sviðum er eftir miklu að slægjast. Breið samstaða ríkir um tækifæri í nýsköpun og virkjun hugvitsins, þar sem við verðum að vera óhrædd við að hugsa stórt, bæði til skemmri og lengri tíma.

Þá stöndum við frammi fyrir miklum orkutengdum tækifærum, til að mynda að laða til landsins orkusækin fyrirtæki í þeim greinum sem vaxa hratt um þessar mundir vegna alþjóðlegra krafna um að markmiðum í loftlagsmálum verði náð. Nýsamþykkt Orkustefna til ársins 2050 gefur góð fyrirheit hvað þetta varðar og sannarlega hægt að sækja tækifæri á grundvelli hennar að því gefnu að við getum tryggt samkeppnishæft starfsumhverfi hér á landi. Ekkert virði er í raforku nema hún sé nýtt og Ísland getur hæglega orðið leiðtogi og leiðarljós annarra ríkja í þessum efnum. Við munum varpa frekara ljósi á þessi tækifæri, sem og önnur, hér á Iðnþingi í dag.

Sameining sex helstu samtaka íslensks iðnaðar á haustmánuðum ársins 1993 í ný heildarsamtök iðnaðarins var stórt og mikilvægt skref í framþróun atvinnugreinarinnar hér á landi. Fram að því, hafði helstu verkefnum og hagsmunamálum iðnrekenda og iðnaðarmanna verið sinnt á víð og dreif og eðlilega gekk misjafnlega að ná árangri í helstu stefnumálum iðnaðar og undirgreina hans. Við sameininguna var sett á oddinn að Samtök iðnaðarins töluðu einni röddu, en það hafði veikt stöðu iðnaðarins gagnvart stjórnvöldum að vera ekki samstíga, þó ekki væri ágreiningur um lykilmálin. Höfuðmarkmið hinna nýju samtaka var að auka áhrif iðnaðar í þjóðfélaginu, vinna að bættum starfsskilyrðum, hvetja til hagkvæmni í rekstri og leggja áherslu á markvissa vöruþróun, markaðsstarfsemi og menntamál.

Enn þann dag í dag, tæpum 30 árum síðar, er þetta að meginstefnu til, kjarninn í starfsemi Samtaka iðnaðarins. Með árunum hafa fleiri samtök, meistarafélög og iðnfyrirtæki gengið til liðs við Samtök iðnaðarins og innan þeirra eru nú um 1.400 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda. Stefna og skipulag samtakanna hefur þó reglulega tekið breytingum í takt við þróun í atvinnu- og efnahagslífi, því annars er hætt við að starfsemin þjónaði ekki lengur hlutverki sínu. Í hverjum mánuði bætast við nýir félagsmenn og aðrir kjósa að stíga frá borði af margvíslegum ástæðum. Iðnaðurinn er afar kvik og víðfem grein og fjölbreytileiki hans er raunar mikill styrkur fyrir hagkerfið.

Allt frá upphafi samtakanna hafa félagsmenn og þeir sem starfa á okkar vegum, verið meðvitaðir um hversu fjölbreyttur þessi hópur er, hvort sem litið er til stærðar, starfsemi, staðsetningu eða markaða. Endrum og sinnum kemur þó upp umræða með kunnuglegum stefjum, oftar en ekki frá utanaðkomandi aðilum, um að Samtök iðnaðarins séu orðin of stór, stefnan sé óskýr af þeim sökum, að lítil og meðalstór fyrirtæki fari halloka vegna ægivalds og áhrifa stórfyrirtækja og hagsmunir þeirra minni séu fyrir borð bornir. Að sama skapi koma upp tilvik þar sem stærri félagsmenn telja of mikinn fókus á þjónustu og hagsmuni minni félagsmanna.

Við þessu er ekkert einhlítt svar eða einföld lausn. Fjöldi og fjölbreytni félagsmanna okkar gefur samtökunum okkar mikinn styrk en um leið er það áskorun að standa vörð um hagsmuni sem kunna að vera ólíkir. Blessunarlega hafa einstaklingar úr ólíkum geirum og fulltrúar lítilla, meðalstórra og stórra fyrirtækja valist til forystustarfa innan samtakanna allar götur frá stofnun þeirra. Fjölbreyttur hópur félagsmanna kemur að stefnumótun samtakanna með reglulegu millibili og í öllu starfi samtakanna er lögð áhersla á það sem er sameiginlegt, um leið og tekið er tillit til sértækari mála einstakra aðildarfyrirtækja. Málefnaleg gagnrýni félagsmanna á þó alltaf rétt á sér og hjálpar okkur að þroska starfsemina og að ná því markmiði að gera ávallt betur í dag en í gær. Samtök iðnaðarins eru og verða hreyfiafl og málsvari iðnaðar á Íslandi.

Þegar ég lít til baka yfir þetta fyrsta ár mitt sem formaður Samtaka iðnaðarins hef ég vissulega saknað þess að eiga ekki kost á að hitta félagsmenn með hefðbundnum og reglulegum hætti. Það hefur engu að síður verið aðdáunarvert að fylgjast með því úr fjarlægð hvernig íslenskur iðnaður hefur náð að halda uppi sköpun verðmæta við einstaklega erfiðar og krefjandi aðstæður.

Það er því full ástæða til að líta björtum augum til framtíðar í íslenskum iðnaði, það eru spennandi tímar framundan og tækifæri til vaxtar hagkerfisins ótalmörg, sem við megum ekki láta fram hjá okkur fara. Eftir síðasta efnahagsáfall veitti iðnaður viðspyrnu umfram umfang sitt og það mun hann svo sannarlega gera nú ef rétt er á málum haldið. Verkefnið næstu fjögur árin er ærið, en við göngum áfram bjartsýn til verka, fullviss um að þær áherslur og hugmyndir sem við leggjum af mörkum muni áfram hljóta brautargengi. Ef það syrtir í álinn á þeirri vegferð skulum við hafa í huga að eiginlega er ekkert bratt, aðeins mismunandi flatt.

Si_idnthing_2021-2