Fréttasafn28. feb. 2018 Almennar fréttir

Þjóðarsjóður getur aukið stöðugleika

Þjóðarsjóðir geta gegnt mikilvægu hlutverki við hagstjórn. Slíkir sjóðir geta haft áhrif á opinber fjármál, peningastefnu og gengi gjaldmiðils. Ef rétt er á spilum haldið getur slíkur sjóður og stýring hans haft jákvæð áhrif á hagkerfi ríkja og aukið stöðugleika. Þannig geta þjóðarsjóðir bætt samkeppnisstöðu og aukið framleiðni og verðmætasköpun samfélaginu til heilla. Þetta kemur fram í grein Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag. Hann segir að höfuðmáli skipti að stjórnarhættir slíks sjóðs styðji ekki við freistnivanda sem óhjákvæmilega getur verið til staðar, til dæmis í opinberum fjármálum en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er stefnt að stofnun stöðugleikasjóðs sem er eitt afbrigði af þjóðarsjóði (e. sovereign wealth fund). Slíkan sjóð á að stofna utan um arð af auðlindum landsins og byrja á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum.

Norski olíusjóðurinn bæði stöðugleikasjóður og söfnunarsjóður

Sigurður segir að ríki heims hafa sett á laggirnar slíka sjóði í margvíslegum tilgangi og fjárfestingastefna hafi tekið mið af tilgangi sjóðsins. Hann tekur dæmi af norska olíusjóðnum sem er stærsti þjóðarsjóður heims. Sjóðurinn er í senn stöðugleikasjóður og söfnunarsjóður. Hlutverk hans er að einangra olíuauð Norðmanna frá hagkerfinu til þess að koma í veg fyrir „hollensku veikina,“ þ.e. að ráðstöfun olíuauðsins ryðji atvinnugreinum í erlendri samkeppni úr vegi, ekki síst með því að gengi norsku krónunnar styrkist um of og veiki þannig samkeppnisstöðu landsins. Hlutverkið er einnig að veita kynslóðum framtíðarinnar hlutdeild í olíuauðnum – afrakstri óendurnýjanlegrar auðlindar.

Íslenskur þjóðarsjóður gæti verið blanda af þrennu

Í niðurlagi greinarinnar segir Sigurðar að á Íslandi sé helstu náttúruauðlindum stýrt á sjálfbæran hátt og eru þær því endurnýjanlegar samanber sjávar­útveg, orkuauðlindir og tengdan iðnað og aðdráttarafl íslenskrar náttúru fyrir erlenda ferðamenn. Hér á landi sé einnig eitt öflugasta lífeyriskerfi í heimi sem sé vel fjármagnað til framtíðar litið. Hann segir að það kæmi til greina að íslenskur þjóðarsjóður væri stöðugleikasjóður, þróunarsjóður sem fjárfesti í innviðum landsins, varasjóður sem fjárfesti hluta gjaldeyrisvaraforðans eða blanda af þessu þrennu.

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.