Fréttasafn



25. jan. 2016 Iðnaður og hugverk

Virðing fyrir hráefnum sem falla til í framleiðslufyrirtækjum skilar bættri afkomu

Bætt nýting aukaafurða sem falla til við framleiðslu og endurvinnsla skila sér í bættri afkomu fyrirtækja. Þetta var samdóma álit fjögurra frummælenda á fundi Framleiðslu- og matvælasviðs Samtaka iðnaðarins um úrgangsstjórnun og endurvinnslu. Fundurinn var hluti af fundaröð SI um framleiðni. 

Endurvinnsla hefur stóraukist á undanförnum árum með aukinni flokkun úrgangs. Það hefur sýnt sig að eftir því sem fyrirtæki flokka meira lækkar kostnaður, sagði Ragna Dagbjört Davíðsdóttir, markaðsstjóri Gámaþjónustunnar. Þetta út af fyrir sig er jákvæð þróun en gera má enn betur með því að horfa til endurnotkunar sem undanfara endurvinnslu. Ragna telur að viðhorfsbreyting þurfi að eiga sér stað gagnvart því að fyrirbyggja að úrgangur verði til.

„Við eigum að bera virðingu fyrir þeim hráefnum sem falla til og skapa sem mest verðmæti úr auðlindunum.“ sagði Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðasviðs KS. Hjá KS er lögð áhersla á að nýta allt sem mögulegt er til manneldis, síðan til fóðurgerðar fyrir loðdýr og gæludýr, þar á eftir sem hráefni í handverk, lyfjaiðnað, eldsneyti og áburð. Ágúst taldi mikilvægt að reyna ávallt að skapa sem mest verðmæti og nauðsynlegt sé að hafa sveigjanleika og fleiri en eina afsetningarleið á hverjum tíma. Þá nefndi hann einnig mikilvægi þess að vinna með stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum að lausnum sem henta hverri grein. Sem dæmi nefndi hann litlar brennslustöðvar sem sláturleyfishafar eru að koma sér upp, í samráði við opinbera aðila, til að brenna áhættuvefi sem falla til í sláturhúsum en engin afsetningarleið hefur verið til fyrir.

Fyrirtækin Fengur og Pure North framleiða hráefni til iðnaðar úr efnum sem áður voru urðuð. Hjá Feng er tekið við úrgangstimbri og úr því unninn spónn til undirburðar undir skepnur og spónakögglar sem m.a. eru notaðir sem eldsneyti. Við vinnsluna er notuð jarðgufa og affall frá henni notað í hinu fyrirtækinu, Pure North, sem tekur við úrgangsplasti, þvær það og vinnur sem hráefni til endurvinnslu. Sigurður Halldórsson framkvæmdastjóri, telur mikla möguleika felast í endurnýtingu hráefna hér á landi og segir að stöðug vöruþróun eigi sér stað í samstarfi við þá sem útvega þeim hráefni til vinnslunnar og þeirra sem taka við hráefnum frá þeim.  

Markmið Elkem á Íslandi er að draga úr rykmyndun vegna starfseminnar og að hámarka meðhöndlun aukaafurða þannig að 95% þeirra fari til endurvinnslu og endurnýtingar. Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri sagði að Elkem hafi náð þeim árangri að hlutfall endurnýtingar hefur farið úr 65% árið 2010 í tæp 90% árið 2015. Haft er að leiðarljósi að kostnaður við nýtingu aukaafurða má ekki verða meiri en við urðun þeirra. Gestur segir að samstarf við aðra skili miklum árangir og fyrirtækið nýtir sér reynslu annarra greina svo sem frá matvælaframleiðslu, steinullarvinnslu og öðrum greinum. Engin töfralausn sé til, lausnir á sviði endurvinnslu hafa orðið til með stöðugri vinnu, samskiptum og ekki megi gefast upp þó hlutir gangi ekki í fyrsta sinn.