Svigrúm til skattahækkana fullnýtt
Félagsfundur SI með ráðgjafaráði fór fram á Grand hóteli sl. fimmtudag. Umfjöllunarefni fundarins voru skattar og efnahagsmál. Tilgangur fundarins var að ræða margvísleg áhrif þeirra skattbreytinga sem eru í farvatninu á stöðu iðnaðarins og framvinduna í efnahagsmálum á næstu misserum.
Helgi Magnússon, formaður SI, hóf fundinn með ávarpi þar sem hann fjallaði um fyrirhugaðar skattahækkanir. Hann varaði eindregið við stórauknum skatti sem hann segir að muni lengja og dýpka kreppuna þar sem þeir skili sér ekki til hins opinbera eins og vonir standi til. Þá sagði hann hætt við að fyrirhugaðar breytingar aflagi flest það sem tekist hefur að að færa til betri vegar í skattamálum síðastliðin 20 ár og nefndi sem dæmi vörugjöld í iðnaði sem tók áratugi að fá felld niður en eru nú að koma til baka.
Helgi velti því síðan fyrir sér hvernig ætti að leysa vanda ríkissjóðs án þess að umturna skattakerfinu og nefndi fjölda dæma um sparnað sem þó myndi ekki bitna frekar á velferðar- eða menntakerfinu.
Sjá úrdrátt úr erindi Helga hér.
Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri SI fjallaði um hagsmunagæslu SI í skattamálum. Jón tæpti á helstu baráttumálum Samtakanna undanfarin ár og áratugi og nefndi meðal annars baráttu gegn margþrepa virðisaukaskatti, gegn svartri vinnu og skattsvikum og afnám vöru- og stimpilgjalda. Þá fór hann yfir skattabreytingar þessa árs og næsta og velti upp þeirri spurningu hvort þær gangi gegn stöðugleikasáttmálanum.
Sjá glærur Jóns Steindórs hér.
Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI, fór yfir hvaða áhrif breytingar á skattkerfinu hefðu á iðnaðinn. Í máli hans kom skýrt fram að staðan í ríkisfjármálum væri afar erfið og því yrði að mæta með aukinni tekjuöflun og samdrætti í ríkisútgjöldum. Skattahækkanir væru sársaukafullar en afleiðingar hallareksturs væri líka slæmar fyrir efnahagslífið í heild. Áhrif þeirra breytinga sem kynntar hafa verið eru bæði beinar og óbeinar. Þær greinar sem skattlagðar eru sérstaklega, t.d. drykkjarvöruiðnaður, verða illa úti. Skattlagningin hefur einnig óbein áhrif því með hækkun beinna og óbeinna skatta er verið að taka fjármagn úr umferð í hagkerfinu sem annars hefði verið varið til framleiðslu og neyslu. Ljóst er að aðlögunarþörf ríkissjóðs á næstu árum er líka mikil en að mati SI þarf að mæta henni með samdrætti í ríkisútgjöldum – svigrúm til skattahækkana hefur þegar verið fullnýtt og vel það.
Sjá glærur Bjarna Más hér.
Að erindum loknum var opnað fyrir mælendaskrá og voru margir sem kvöddu sér hljóðs og lýstu yfir ánægju með fundinn. Menn voru sammála um að umræða af þessu tagi væri þörf og nauðsynlegt fyrir Samtökin, fyrirtæki þeirra og félagsmenn að fylgjast vel með gangi mála og vinna áfram að því að gæta hagsmuna iðnaðarins. Iðnaðurinn mun skipa stórt hlutverk við enduruppbyggingu íslensks efnahagslífs og forsenda þess er að atvinnlífið búi við stöðug og samkeppnishæf starfsskilyrði.