Ræða Haraldar Sumarliðasonar formanns SI

- Flutt á Iðnþingi 26. febrúar 1999 -

Rekstur íslenskra fyrirtækja er afar blómlegur um þessar mundir. Verðmætasköpun þeirra hefur vaxið hratt undangengin ár bæði á alþjóðlegan mælikvarða og í sögulegu samhengi. Nú er svo komið að við erum í einu af efstu sætunum á lista yfir tekjuhæstu þjóðir heims. Atvinna er mikil í landinu og atvinnuleysi með því lægsta sem þekkist.

Blómlegur rekstur
Rekstur íslenskra fyrirtækja er afar blómlegur um þessar mundir. Verðmætasköpun þeirra hefur vaxið hratt undangengin ár bæði á alþjóðlegan mælikvarða og í sögulegu samhengi. Nú er svo komið að við erum í einu af efstu sætunum á lista yfir tekjuhæstu þjóðir heims. Atvinna er mikil í landinu og atvinnuleysi með því lægsta sem þekkist.

Bætt starfsskilyrði
Það er að mörgu leyti gott að reka fyrirtæki hér á landi og auðveldara en verið hefur. Fyrirtæki í mismunandi greinum fá í ríkari mæli en áður jöfn tækifæri til vaxtar. Ég hygg að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sé tvímælalaust einn stærsti áhrifavaldurinn í þessum efnum. Samningurinn hefur leyst úr höftum flæði vinnuafls, fjármagns, vöru og þjónustu milli Íslands og helstu viðskiptalanda í Evrópu. Hann hefur einnig fært íslensk fyrirtæki undir aga alþjóðlegrar samkeppni og knúið íslensk stjórnvöld til að skapa þeim skilyrði til vaxtar.

Blikur á lofti
Þegar velgengni líðandi stundar er fagnað ber þó að hafa hagsöguna í huga. Hún geymir mörg mistök sem á augabragði geta breytt góðæri í efnahagslega kollsteypu. Við hjá Samtökum iðnaðarins höfum minnt á söguna og bent á gríðarlegan viðskiptahalla og varað við því að mistökin geti endurtekið sig. Í haust birtu Samtökin niðurstöður úr könnun á afkomu í samkeppnisiðnaði árin 1997 og 1998. Niðurstöður þeirra rannsóknar gáfu sláandi vísbendingu um að hækkandi launakostnaður, hátt gengi íslensku krónunnar og háir vextir væru að vega að samkeppnisstöðu og markaðshlutdeild innlends samkeppnisiðnaðar.

Nauðsyn sparnaðar
Til að hamla gegn þessari óheillaþróun hafa Samtökin lagt áherslu á aukinn þjóðhagslegan sparnað. Aukinn sparnaður dregur úr spennu í hagkerfinu og hamlar gegn verðbólgu og skapar einnig grundvöll fyrir lægri vexti og hagstæðara gengi fyrir atvinnureksturinn í landinu.

Einstaklingar spari
Þjóðhagslegum sparnaði má skipta milli einkaaðila og hins opinbera. Samtök iðnaðarins hafa ítrekað sagt að stjórnvöld gætu og ættu að auka þjóðhagslegan sparnað við þessar aðstæður með því að auka eigin sparnað, halda útgjöldum í skefjum en nýta auknar tekjur vegna góðærisins til að greiða niður skuldir. Það er einnig mat Samtakanna að stjórnvöld geti haft áhrif á einkaaðila til aukins sparnaðar, og hafa þau ítrekað bent á ýmsar leiðir í þeim efnum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur undir
Bæði innlendir og erlendir aðilar hafa tekið undir greiningu, varnaðarorð og tilmæli Samtakanna í þessum efnum. Má þar nefna Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka Íslands og Efnahags- og framfarastofnunina. Í síðasta mánuði var sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins stödd hér á landi til að sinna sínu reglubundna eftirliti með þróun íslenskra efnahagsmála. Í áliti sem nefndin gaf út segir að árangur okkar í efnahagsmálum hafi undanfarið verið eftirtektarverður. Mikill hagvöxtur, tekjuaukning og næg atvinna hefur fylgt lágri verðbólgu, auknu frjálsræði og samkeppni í atvinnulífinu. Meginviðfangsefni hagstjórnar um þessar mundir sé því að koma í veg fyrir ofþenslu og verja þar með það sem áunnist hefur. Ná þarf jafnvægi í landinu á milli sparnaðar og fjárfestingar. Stefnan í fjármálum ríkis og sveitarfélaga gegnir þar lykilhlutverki.

Stuðningur við nýsköpun og þróun
Stjórnvöld víða um heim leggja stöðugt meiri áherslu á að efla nýsköpun og þróunarstarf á öllum sviðum atvinnulífsins. Stjórnvöld geta hvatt til nýsköpunar með ýmsum hætti t.d. jákvæðu skattkerfi, aðgangi að áhættufé, eflingu nýsköpunar- og rannsóknasjóða og með því hvetja til frekari þátttöku í alþjóðlegu rannsókna- og þróunarstarfi. Í reynd er engin ein leið í stuðningi stjórnvalda sú eina rétta. Þess vegna þarf stöðugt að huga að því sem við getum gert betur og prófa nýjar leiðir.

Núverandi ríkisstjórn gaf í upphafi kjörtímabilsins út þau fyrirheit, að verulegum hluta þess fjármagns sem aflaðist við sölu ríkisfyrirtækja yrði varið til nýsköpunar og rannsókna í þágu atvinnulífsins. Sala á hlutabréfum í ríkisfyrirtækjum hefur gengið vel að undanförnu sem að óbreyttu hefði átt að skila umtalsverðu fjármagni í nýsköpunar- og þróunarstarfið. Það var fagnaðarefni þegar ríkisstjórnin samþykkti nýlega að veita Rannís 580 milljónir til þróunarstarfsemi á sviði upplýsingatækni og umhverfismála. Því miður virðist ríkisstjórnin nú hætt við að tengja sölu ríkisfyrirtækja við framlag til rannsókna og þróunarmála, og er þannig mikil hætta á að þessi jákvæða ákvörðun standi ekki þegar á reynir

Skipulagsumræða
Á fundi stjórnar og ráðgjafaráðs um mitt ár 1997 var samvinna og verkaskipting milli Samtaka iðnaðarins og Vinnuveitendasambands Íslands á dagskrá. Kom greinilega fram að félagsmenn okkar vilja ein öflug heildarsamtök atvinnurekenda. Því var áhersla lögð á að sameina VSÍ og Vinnumálasambandið. Tilgangurinn er að sameina kraftana til að samræma sem best bæði starfsskilyrðin og launastefnuna í landinu.

Segja má að viðræður hafi staðið með hléum um skipulagsmál atvinnurekendasamtaka allt síðastliðið ár.

Öflug heildarsamtök
Atvinnurekendur eru í aðalatriðum sammála um að skynsamlegt sé að hafa með sér ein öflug heildarsamtök. Aftur á móti er ekki jafn auðvelt að koma sér saman um það hvernig skipulag slíkra samtaka á að vera og hversu víðtæk samvinnan á að vera. Þeir sem lengst vilja ganga í þessum efnum sjá fyrir sér ein deildaskipt samtök allra atvinnurekenda þar sem núverandi aðildarsamtök VSÍ á borð við SI og LÍÚ yrðu lögð niður. Hinir sem skemmst vilja ganga sjá ný samtök sem litla sérhæfða skrifstofu sem einungis sinnir kjaramálum og kjarasamningum.

Það er mín trú að við munum ná landi með niðurstöðu sem er þarna mitt á milli með sameininingu Vinnuveitenda- og Vinnumálasambandsins og fleiri aðila sem nú standa utan þessara heildarsamtaka í ný Samtök atvinnulífsins. Hin nýju samtök munu verða byggð upp af tiltölulega fáum en öflugum aðildarsamtökum eða stoðum. Verkefni nýrra Samtaka atvinnulífsins eru menn orðnir sammála um að eigi, auk kjaramála og þjónustu á því sviði, að vera sameiginleg stefnumótun í almennum starfsskilyrðum atvinnulífsins á borð við efnahags- og skattamál en einnig önnur stefnumótun, til dæmis á sviði mennta- og umhverfismála.

Jafnræði
Við hjá Samtökum iðnaðarins höfum bæði átt frumkvæði að því að þessar umræður fóru af stað og einnig lagt á það þunga áherslu að þær skiluðu árangri. Við höfum einnig lagt á það áherslu að ný samtök þurfi að vera lýðræðislega upp byggð og þar verður að vera jafnræði milli félagsmanna og atvinnugreina hvað varðar greiðslur. Afleiðingar þessa málflutnings okkar má meðal annars sjá af því að á síðasta aðalfundi VSÍ var í fyrsta sinn í rúmlega 60 ára sögu félagsins kosið um formann á aðalfundi. Ég held að reynslan sýni að slík kosning hefur ekki veikt VSÍ heldur þvert á móti.

Félagsgjöld
Á síðasta ári var einnig að okkar frumkvæði veittur 15% afsláttur af félagsgjöldum þeirra til VSÍ sem greiða fullt árgjald samkvæmt reglu. Sama gerðum við hjá Samtökum iðnaðarins í fyrra og hækkuðum nú afsláttinn úr 10% í 15%. Síðasta ár er raunar þriðja árið í röð sem við gefum umtalsverðan afslátt af félagsgjöldum. Við reiknum með að hafa enn sama hátt á nú ef samþykkt verður á aðalfundi okkar síðar í dag.

Útflutningsráð
Eftir nokkrar sviptingar voru samþykkt lög sem tryggja starfsemi Útflutningsráðs Íslands út árið 2001. Okkur hjá Samtökum iðnaðarins þótti undarlegt að fulltrúar þeirra fyrirtækja úr iðnaði og fiskvinnslu sem mesta áherslu hafa lagt á tilvist Útflutningsráðs og sennilega notað þjónustu þess mest, skuli ekki hafa verið kallaðir til þegar skipað var í nefnd til þess að fjalla um framtíð ráðsins. Samtökin eru ánægð með að starf ráðsins er tryggt næstu árin en hefðu viljað að þjónusta við fyrirtæki í útflutningi byggði á einu samfelldu þjónustuneti en ekki tvöföldu kerfi með tilheyrandi kostnaði og óhagræði. Því miður sýnir reynslan að sú verður raunin með starfi Útflutningsráðs annars vegar og Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins hins vegar. Ákvæði um samvinnu þarna á milli í lögunum tryggja að mati Samtakanna ekki nægilega að um eitt samfellt þjónustunet verði að ræða. Það er þó gleðiefni að ríkið tekur nú á ný þátt í rekstri Útflutningsráðs með breytingum á gjaldstofni markaðsgjaldsins sem verður fellt inn í tryggingagjaldið.

Upplýsingavefur
Á síðastliðnu ári var lögð áhersla á að þróa heimasíðu Samtakanna, sem við raunar kjósum að nefna upplýsingavef. Þar eru í hverri viku birtir fréttamolar sem varða rekstrarumhverfi í iðnaði, nýjungar í einstökum greinum iðnaðarins og afskipti Samtakanna af málum sem varða iðnaðinn í heild eða að hluta. Slóðina er mjög auðvelt að muna: www.si.is.

Ástæða er til að benda fundarmönnum á að fylgjast vel með upplýsingasíðunni því þar er margt fróðlegt að finna og sumt að því birtist ekki annars staðar.

Starfsgreinahópar
Starfsemi Samtaka iðnaðarins í þágu einstakra starfsgreina og starfgreinahópa hefur frá upphafi verið einn af megin hornsteinum starfseminnar. Í þessu sambandi hafa Samtökin á undanförnum árum lagt áherslu á að móta skýra framtíðarsýn og áherslur innan hverrar starfsgreinar.

Stefnumótun
Þannig var á síðasta ári unnið að slíkri stefnumótun í upplýsingatækniiðnaði og iðnaði á sviði heilbrigðistækni. Áður hefur slík vinna farið fram í byggingariðnaði, matvælaiðnaði, skipaiðnaði og prentiðnaði. Byggt er á sömu aðferðafræði og lögð var til grundvallar við heildarstefnumörkun Samtakanna sjálfra, en sú stefnumótun var einmitt kynnt á síðasta Iðnþingi. Stefnumótunin gerir félagsmönnum kleift að móta áherslur í starfsemi Samtakanna og er grundvöllur þess að þau séu ávallt reiðubúin að bregðast við breytingum í starfsumhverfinu og geti brugðist fljótt við málum sem upp koma, hvort sem um er að ræða lagafrumvörp eða annað. Skýr stefnumótun hjálpar okkur þannig í daglegu starfi.

Málaflokkar í brennidepli
Þeir málaflokkar sem ásamt hinum almennu starfsskilyrðum hafa verið mest í brennidepli eru markaðs- og kynningarmál, nýsköpun og þróunarmál, menntamál og gæðamál auk orku- og umhverfismála.

Markaðs- og kynningarmál
Á sviði markaðs- og kynningarmála hefur verið lögð áhersla á endurnýjun kynningarefnis, m.a. annars í þeim tilgangi að efla ímynd iðnaðarins í hugum ungs fólks. Nefna má aðild Samtakanna að verkefninu „Taktu hugmynd í fóstur" sem tengt er Nýsköpunarkeppni grunnskóla. Þá hefur verið lögð áhersla á átaksverkefni í anda „íslenskt já takk" sem nú er meira sérsniðið að þörfum hverrar starfsgreinar. Í þessu sambandi má nefna verkefni eins og Heilsudaga og Skólabakarí í samstarfi við bakarameistara. Þá má nefna verkefnin Íslensku innkaupakörfuna og Vörulista íslenskra framleiðenda fyrir jólin, einnig verkefnin „Málmur 2000" sem er fræðsluefni um íslenskan málmiðnað fyrir sjónvarp og sýningar í skólum. Þá var unnið að umfangsmikilli herferð undir kjörorðinu „Í höndum meistara" í samstarfi við félög meistara.

Samtök iðnaðarins hafa einnig komið að margs konar sýningarhaldi á sl. ári meðal annars sýningunum Matur 98, Tvíefldir byggingadagar og Jólahöllin 98. Öll hafa þessi verkefni tekist með miklum ágætum.

Nýsköpunar- og þróunarmál
Á sviði nýsköpunar- og þróunarmála hafa Samtökin lagt áherslu á að móta starfsumhverfi fyrirtækja. Þetta hafa þau m.a. gert með þátttöku í stefnumótun rannsóknastofnana atvinnuveganna, Nýsköpunarsjóðs og Rannís auk þess að koma að ýmsum úttektum og átaksverkefnum. Við höfum einnig haft frumkvæði að því að koma á nýju samstarfsformi, þar sem lögð er áhersla á samstarf notenda og framleiðenda. Samtök iðnaðarins áttu frumkvæðið að stofnun Samstarfvettvangs sjávarútvegs og iðnaðar sem þegar hefur sannað ágæti sitt m.a. með mörgum vel heppnuðum þróunarverkefnum. Á síðasta ári var lagður grunnur að nýjum Samstarfsvettvangi iðnaðar og heilbrigðiskerfisins. Þá eru Samtökin virk í norrænu og evrópsku rannsókna- og þróunarsamstarfi, en mikilvægi þess fer stöðugt vaxandi.

500 framsæknustu fyrirtæki Evrópu
Við höfum ásamt iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu verið þáttakendur í gerð lista yfir 500 framsæknustu fyrirtæki og frumkvöðla í Evrópu. Í þessum hópi eru nú sjö íslensk fyrirtæki sem er frábær árangur. Listinn er niðurstaða umfangsmikils samstarfsverkefnis fjölda aðila í Evrópu. Tilgangurinn er auðvitað sá að leita að sameiginlegum einkennum og læra af reynslu þeirra sem best hafa gert. Með þátttöku sinni vilja Samtökin örva frumkvöðlastarfsemi og efla umræðu um gildi nýsköpunar hér á landi.

Samstarfsvettvangurinn, Northern Software Alliance (NSA)
Á fyrri hluta árs 1998 var ákveðið, að frumkvæði hagsmunasamtaka upplýsingatækni- iðnaðar í norðanverðri Evrópu, að koma á fót samstarfi milli þessara samtaka. Samstarfið, sem fengið hefur heitið Northern Software Alliance (NSA), er á milli helstu samtaka hugbúnaðarframleiðenda á Norðurlöndum, Skotlandi og Írlandi.

Meginmarkmiðið er að koma á fót samstarfi upplýsingatæknifyrirtækja í norðanverðri Evrópu um sameiginleg hagsmunamál auk ýmis konar viðskiptalegs samstarfs.

Í framhaldi af útboði á vegum Evrópusambandsins er nú unnið að stóru samstarfsverkefni sem fengið hefur heitið VIKING (Virtual Information and Knowledge In the Northern Software Alliance Group). Ætlunin er að koma á fót netsamstarfi þar sem upplýsinga- og fjarskiptatækni er notuð til að gera niðurstöður rannsókna og þekkingu aðgengilega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Með þátttöku Samtaka iðnaðarins í þessu verkefni skapast nýir möguleikar í samskiptum við félagsmenn auk áhugaverðra tengsla við fyrirtæki og samtök í öðrum löndum.

Menntamál
Á undanförnum árum hafa Samtök iðnaðarins lagt vaxandi áherslu á menntun í þágu atvinnulífsins. Miklum fjármunum er varið til menntunar í landinu, á öllum skólastigum. Það er í þágu fyrirtækjanna og starfsfólks þeirra að þessum fjármunum sé varið eins vel og kostur er. Miklu máli skiptir því að atvinnulífið setji fram óskir sínar um menntun við hæfi með eins skýrum hætti og kostur er.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa verið gagnrýndir fyrir að setja ekki fram nægilega skýra stefnu í þessum málum. Umræður hafa lengi átt sér stað um nauðsyn þess að aðilar vinnumarkaðarins tækju höndum saman á sviði menntamála og mörkuðu sér vettvang þar sem þeir gætu unnið saman að stefnumótun í menntamálum.

Til að leysa úr þessari þörf var MENNT (Samstarfsvettvangur atvinnulífs og skóla) stofnuð í nóvember 1998 með þátttöku um þrjátíu félaga, skóla og samtaka, þar á meðal heildarsamtaka atvinnurekenda og launafólks. Markmið Menntar er að efla samkeppnishæfni og framleiðni fyrirtækja með virku samstarfi atvinnulífs við framhaldsskóla og háskóla.

Gæðamál
Á sviði gæðamála hafa Samtök iðnaðarins lagt áherslu á áframhaldandi uppbyggingu gæðastjórnunar í byggingariðnaði, en gæðastjórnun hefur víða verið áhersluverkefni starfsgreinahópa. Í fyrra var farið af stað með gæðastjórnunarverkefni í lagnagreinum, en starfið hefur byggst á því að staðfæra verkefni frá systursamstökum okkar í Noregi. Í haust var ákveðið útvíkka þetta uppbyggingarstarf þannig að fleiri greinar innan byggingariðnaðarins ættu kost á að innleiða hjá sér gæðastjórnun byggða á sama grunni. Nú er unnið að því að laga grunn gæðastjórnunarkerfa lagnagreinanna að þörfum fyrirtækja í fleiri greinum byggingariðnaðar.

Þá hafa Samtökin áfram unnið náið með Gæðastjórnunarfélagi Íslands á sviði gæðamála. Í því samstarfi ber einna hæst verkefni um þróun Evrópskrar ánægjuvogar (European Customer Satisfaction Index). Verkefnið verður kynnt hér á Iðnþingi síðar í dag, þannig að ekki er þörf á að fjölyrða frekar um það nú.

Umhverfis- og orkumál
Samtök iðnaðarins hafa lagt áherslu á að fylgjast náið með löggjöf og þróun umhverfis- og orkumála. Þá höfum við átt virkan þátt í starfsemi Ískem ehf., sem stofnað var 1994 í þeim tilgangi að auka innlenda og erlenda fjárfestngu í iðnaði sem nýtir innlenda orku. Þetta er gert með því að vinna að nýjum viðskiptahugmyndum og úttektum á þeim og afla nauðsynlegra tengsla hér á landi og erlendis til að hrinda þeim í framkvæmd.

Ískem ehf. - tækifæri í efnaiðnaði
Á vegum Ískem ehf. eru í gangi nokkrar athuganir á nýjum tækifærum í efnaiðnaði. Á síðasta ári var lokið úttekt á framleiðslu á polyol úr sykri eða sterkju með nýjum aðferðum en eldri aðferðir byggjast á hráefnum frá olíuiðnaði. Úttektin leiddi í ljós að hagkvæmt er að reisa slíka verksmiðju hér á landi enda þarf mikla gufu til framleiðslunnar.

Þá stóð Ískem ásamt iðnaðarráðuneyti fyrir ferð til Suður-Afríku þar sem m.a. var rætt við aðila sem er að taka í notkun tilraunaverksmiðju sem framleiðir polyol úr mólassa. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins tók ásamt iðnaðarráðherra þátt í þeirri ferð. Þar var rætt um mögulegt samstarf í tækni- og hráefnamálum. Í því sambandi má geta þess að Samtökin hafa ákveðið að senda tvo námsmenn í sumar til starfa við tilraunaverksmiðjuna.

Spilliefnanefnd
Umræðan um umhverfismál verður stöðugt fyrirferðarmeiri og ljóst er að verkefni okkar á því sviði fara vaxandi. Samtökin hafa tekið virkan þátt í störfum spilliefnanefndar, en nefndin hélt sinn fyrsta ársfund á síðasta ári þar sem gefið var yfirlit yfir starfsemina.. Þar kom m.a. fram að áætlað er að spilliefni séu um fjögur prósent af öllum úrgangi sem fellur til á landinu. Þau eru að undanskilinni úrgangsolíu og hluta af leysiefnum flutt út til eyðingar með ærnum kostnaði. Með spilliefnagjaldskerfinu eru skapaðar hagrænar forsendur til að eyða eða endurnýta meira af þessum efnum hér á landi. Þá er framundan mikil vinna við að ná metnaðarfullum markmiðum tilskipunar Evrópusambandsins um endurnýtingu og endurvinnslu umbúða og umbúðaúrgangs sem nást eiga fyrir mitt ár 2001.

Góðir áheyrendur. Ég hef í þessu spjalli reynt að draga upp nokkra mynd af því sem Samtökin hafa unnið að að undanförnu. Hér er auðvitað ekki um neina heildarupptalningu að ræða, en ætti þó að gefa nokkra vísbendingu um starfið.

Miklar breytingar
Atvinnulífið hér á landi hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum. Nú víkja sértækar aðgerðir og höft óðum fyrir almennum leikreglum í opnu hagkerfi eins og hjá flestum nágrannaþjóðum okkar. Samt sem áður eru enn einskonar eftirhreytur af gamla hafta og neyslustýringarkerfinu við lýði sem leggja ber af hið fyrsta.

Íslenskur iðnaður spjarar sig
Það er komin á það reynsla að íslenskur iðnaður getur vel staðið sig í harðri samkeppni ef þess er gætt að starfsskilyrði hans séu sambærileg við það sem annarsstaðar gerist. Á það hefur lengi skort. Mikið hefur þó áunnist á síðustu árum og ég tel að nú sé lag til að bæta hér það sem eftir er, til að jafna starfsskilyrðin við helstu samkeppnislönd okkar. Að því munum við vinna.

Ég vil að lokum þakka meðstjórnarmönnum mínum sérlega ánægjulegt samstarf á liðnu ári. Framkvæmdastjóra og starfsfólki Samtakanna þakka ég frábær störf og mikla fórnfýsi í baráttunni fyrir hagsmunamálum iðnaðarins í landinu.