Einkavæðing

Forsendur og verkefnin framundan

Í ræðu sinni á Iðnþingi sagði Geir H. Haarde m.a. að hugmyndin um einkavæðingu ríkisfyrirtækja hér á landi eigi rætur að rekja langt aftur í tímann en hún varði kjarnann í hugmyndafræðilegum ágreiningi um hlutverk ríkisins í atvinnurekstri, þjóðnýtingu og eignaraðild ríkisins að framleiðslutækjum.

Geir H. Haarde á Iðnþingi 2001Í ræðu sinni á Iðnþingi sagði Geir H. Haarde m.a. að hugmyndin um einkavæðingu ríkisfyrirtækja hér á landi eigi rætur að rekja langt aftur í tímann en hún varði kjarnann í hugmyndafræðilegum ágreiningi um hlutverk ríkisins í atvinnurekstri, þjóðnýtingu og eignaraðild ríkisins að framleiðslutækjum.

Slíkar hugmyndir hafi átt erfitt uppdráttar hér á landi í u.þ.b. hálfa öld vegna pólitískra aðstæðna. Fyrir um 25 árum hafi verið gerðar tilraunir til að koma hreyfingu þessi mál en þau áform hafi hvorki komist lönd né strönd. Fáein ríkisfyrirtæki hafi verið seld um miðjan níunda áratuginn en fyrst hafi verið farið að vinna skipulega að þessum málum í upphafi tíunda áratugarins og nú tíu árum síðar sjái fyrir endann á því mikilvæga verkefni að koma samkeppnisrekstri ríkisins á hendur einkaaðila og leysa þar með úr læðingi þá miklu fjármuni almennings sem í slíkum rekstri eru bundnir. Nú megi segja að pólitískur ágreiningur um þessi mál sé í raun lítill.

RÍKIÐ DREGUR SIG ÚR ATVINNUREKSTRI
Geir sagði að við myndun ríkisstjórnar árið 1991 hafi verið mörkuð skýr stefna um að draga úr afskiptum ríkisins af atvinnurekstri og þeirri stefnu hefði verið fram haldið síðan. Fjögur markmið hafi einkum verið höfð að leiðarljósi fyrir utan það mikilvæga verkefni að draga úr fjárbindingu ríkisins:

  • að auka almennan sparnað í þjóðfélaginu
  • að auka efnahagslegt hagræði
  • að hvetja almenning til almennrar hlutabréfaeignar.
  • að auka tekjur ríkissjóðs til að greiða niður skuldir ríkisins

Ráðherrann gat þess að frá árinu 1991 hafi ríkið selt eign sína í 26 fyrirtækjum að hluta eða öllu leyti. Það endurspegli þá gífurlegu hugarfarsbreytingu sem orðið hafi hérlendis varðandi einkavæðingu og hugmyndafræðina sem þar búi að baki. Á örfáum árum hafi markaðurinn, þar sem áður starfaði ein ríkisstofnun í krafti einokunar, breyst í lifandi torg þar sem fjöldi fyrirtækja hafi hafið stafsemi í umhverfi öflugrar samkeppni.

VERKEFNIN FRAMUNDAN
Helstu verkefnin framundan sagði Geir vera að ljúka sölu á hlut ríkisins í Landsbanka, Búnaðarbanka og í Landssíma Íslands. Með sölu á eftirstandandi hlut ríkisins í bönkunum tveim dragi ríkið sig algerlega út úr starfsemi á fjármálamarkaði og gera megi ráð fyrir að því verkefni ljúki á þessu kjörtímabili. Þá sé fyrirhugað að ríkið selji hlut sinn í fyrirtækjum eins og Íslenskum aðalverktökum og Steinullarverksmiðjunni og sagðist Geir vænta þess að íslensk fyrirtæki sjái sér fært að kaupa hlut í þeim fyrirtækjum sem brátt verði föl.

SKULDIR LÆKKAÐAR
Geir sagði að tekjum af sölu eigna verði fyrst og fremst varið til að lækka almennar skuldir ríkissjóðs og til að grynnka á lífeyrisskuldbindingum með því að styrkja eiginfjárstöðu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Auk þess verði hluta teknanna m.a. varið til að efla upplýsingasamfélagið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Mikilvægast sé að þessum tekjum verði ráðstafað með skynsamlegum hætti til framtíðar og alls ekki í rekstur.

BREYTINGAR Á LAGALEGU UMHVERFI
Þá gat hann þess að þegar fyrirtæki, sem rekin eru í einokunarumhverfi, séu einkavædd sé mikilvægt að huga að hinu lagalega umhverfi og því að innleiða samkeppni jafnvel þótt ríkið ætli sér að eiga áfram meirihluta í fyrirtækinu. Markmið ríkisins með eignaraðildinni sé þá að mynda arð með fjárfestingunni.

Þá sagði Geir að í undirbúningi séu lagabreytingar sem muni laga raforkuumhverfið hér að kröfum Evrópusambandsins en það sé aftur forsenda fyrir samkeppni á þessu sviði og mögulegri einkavæðingu síðar meir.

HUGARFARSBREYTING
Fjármálaráðherra sagði að eins og sjá megi sé atvinnurekstur á vegum ríkisins á hröðu undanhaldi. Annar ríkisrekstur snúist um þá ábyrgð ríkisins að tryggja almenningi tiltekna þjónustu. Í því felist þó ekki endilega að ríkið þurfi sjálft að veita þjónustuna. Aðrir geti gert það jafn vel eða betur þótt ríkið greiði fyrir. Þá gat hann þess að með auknum útboðum á þjónustu og rekstrarþáttum hafi tekist að ná fram hagræðingu í rekstri og þjónusta á vegum ríkisins hafi verið skilgreind með nákvæmari hætti. Þannig hafi tekist að beita hagkvæmustu aðferðum hverju sinni og hámarka þannig gæði þeirrar þjónustu sem unnt er að veita fyrir þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru.

EINKAVÆÐING Í VELFERÐARKERFINU
Þá vék Geir að þætti einkavæðingar í velferðarkerfinu og sagði einkum tvær ástæður fyrir aukinni áherslu á rekstrarnýjungar í því kerfi. Annars vegar stöðugar kröfur um skilvirkni og hagkvæmni í opinberum rekstri en hins vegar síauknar kröfur almennings um bætta þjónustu jafnhliða kröfum um aukið aðhald og minni skattheimtu. Með því að innleiða samkeppni og skilgreina þjónustu hafi fyrst orðið mögulegt að bera saman ólík rekstrarform. Samanburður af þessu tagi sé nauðsynlegur til að tryggja viðunandi aðhald í rekstri ríkisstofnana.

Þess séu mörg dæmi að markaðurinn hefði tekið við af ríkisrekstri með góðum árangri og hagkvæmari rekstri í krafti samkeppni en skilvirkt og öruggt aðhald með hinu lagalega og faglega umhverfi sé hins vegar enn nauðsynlegra í þessari tegund þjónustu en ella.

Öll ræða fjármálaráðherra.