Hvað er í lagi og hvað þarf að bæta?

Erindi Steinþórs Ólafssonar forstjóra Sæplasts hf. á Iðnþingi 15. mars 2002

Í erindi sínu fjallaði Steinþór um útflutning á framleiðsluvörum og hugviti eins og hann horfir við Sæplasti en fyrirtækið hefur flutt út framleiðsluvörur sínar frá 1985 og útflutningurinn aukist ár frá ári. Fyrirtækið rekur söluskrifstofur víða um heim og þar starfa 220 af 260 starfsmönnum þess og þaðan koma 90% af tekjum fyrirtækisins.

Steinþór Ólafsson á Iðnþingi 2002Í erindi sínu fjallaði Steinþór um útflutning á framleiðsluvörum og hugviti eins og hann horfir við Sæplasti en fyrirtækið hefur flutt út framleiðsluvörur sínar frá 1985 og útflutningurinn aukist ár frá ári. Fyrirtækið rekur söluskrifstofur víða um heim og þar starfa 220 af 260 starfsmönnum þess og þaðan koma 90% af tekjum fyrirtækisins.

Helstu kostir við rekstur hérlendis
Steinþór gat þess m.a. að ýmsar aðgerðir hins opinbera, s.s. í skattamálum hafi lagað samkeppnisstöðu íslenskra iðnfyrirtækja talsvert á síðustu misserum og það geri rekstur þeirra hér á landi mun fýsilegri kost en áður. Meðal annarra jákvæðra þátta í rekstri Sæplasts hér á landi nefndi hann m.a. að sveigjanleiki í starfsmannahaldi sé meiri en annars staðar, starfsmenn séu meðvitaðri um gang fyrirtækisins og þeir séu reiðubúnir að leggja mikið á sig til að því vegni sem best. Þá sé vinnutíminn sveigjanlegri en t.d. í Noregi og Kanada og mikilvægt sé að viðhalda og jafnvel auka þann sveigjanleika. Almenn þekking, hátt menntunarstig og gæðavitund starfsfólks skipti miklu máli og skriffinnska hér á landi sé hverfandi lítil miðað við það sem hann þekki til annars staðar.

Helstu ókostir
Þá vék Steinþór máli sínu að þáttum í fyrirtækjarekstri hér á landi sem betur mega fara og nefndi fyrst smæð heimamarkaðarins sem hann telur helsta veikleikann í íslenskum iðnrekstri, einkum hvað varðar vöruþróun og arðsemi af rekstri. Fjarlægðin frá mikilvægustu mörkuðum skapaði einnig mikið óhagræði en til að draga úr því hafi Sæplast í auknum mæli komið á fót söluskrifstofum á helstu markaðssvæðum sínum til að skapa nálægð og öflug tengsl sem séu nauðsynleg til að halda við góðum viðskiptasamböndum og mynda ný.

Steinþór telur afar mikilvægt að stjórnvöld tryggi með samningum að hagsmunir íslenskra fyrirtækja gagnvart evrópskum keppinautum verði tryggðir. Að hans mati tryggi EES-samningurinn ekki að fullu framtíðarhagsmuni íslenskra fyrirtækja á markaði í Evrópu og athugandi sé hvort hagsmunum okkar sé ekki best borgið innan Evrópusambandsins. Steinþór telur íslensku krónuna mjög veikan gjaldmiðil og því sé áleitin spurning hvort taka eigi upp evruna. Að hans mati ríkir hér fákeppni á fjármálamarkaði og hún endurspeglist í háum vaxtagjöldum sem íslenskur iðnaður geti ekki staðið undir til lengdar.

Þá gerði Steinþór hækkun flutningsgjalda til og frá landinu að umtalsefni og sagði að á þeim þætti yrði að taka með öllum hugsanlegum ráðum enda byggju íslensk fyrirtæki við hæstu farmgjöld við norðanvert Atlantshaf. Steinþór telur að viðskiptahindranir muni falla ein af annarri en bankakerfið verði líka að vera með á nótunum og auðvelda íslenskum fyrirtækjum að sækja út á erlenda markaði með því að eiga samstarf við erlendar fjáramálastofnanir.

Hann sagði fyrirtæki búa við lakari samkeppnisskilyrði úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu og sagðist gera þá kröfu að stjórnvöld gerðu þeim jafnhátt undir höfði, t.d. með því að leggja af tvöfalda innheimtu uppskipunar- og vörugjalda og þungaskatt af landflutningum.

Sóknarfæri erlendis
Að mati Steinþórs eru helstu sóknarfærin fólgin í framleiðslu á erlendri grund og í mörgum tilvikum kunni að vera hagkvæmara að hluti starfseminnar fari fram erlendis þótt efla eigi framleiðsluna hér heima eins og kostur er. Hann velti fyrir sér af hverju fleiri íslensk fyrirtæki hafi ekki komið sér fyrir erlendis. Á því séu ýmsar skýringar en þar felist mikil tækifæri gætu nýst okkur til frekari vaxtar á næstu árum.

Að lokum sagði Steinþór að öflugt iðnfyrirtæki byggist fyrst og síðast á þeim mannauði sem í því býr. Íslendingar eigi gott og vel menntað starfsfólk sem sé sveigjanlegt og fljótt að tileinka sér tækninýjungar. Mikilvægt sé að leggja áherslu á að við eigum að nýta gott vinnuafl okkar í arðsöm verkefni og ef hagkvæmni sé fólgin í að flytja tiltekna framleiðsluþætti úr landi þá eigum við ekki að vera feimin við það.

Erindi Steinþórs í heild

Gærur Steinþórs