Samkeppnisstaða Íslands í samfélagi þjóðanna

Erindi Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra á Iðnþingi 15. mars 2002

Ráðherrann sagði umrót undanfarinna mánaða í kjölfar hryðjuverkanna 11. september hafa haft víðtæk áhrif í alþjóðaviðskiptum og því væri ríkari ástæða en oftast áður að huga að samkeppnisstöðu Íslands sem muni marka velmegun okkar og framtíð umfram flest annað.

Halldór Ásgrímsson á Iðnþingi 2002Ráðherrann sagði umrót undanfarinna mánaða í kjölfar hryðjuverkanna 11. september hafa haft víðtæk áhrif í alþjóðaviðskiptum og því væri ríkari ástæða en oftast áður að huga að samkeppnisstöðu Íslands sem muni marka velmegun okkar og framtíð umfram flest annað.

Samkeppnisstaða og hnattvæðing
Ráðherrann sagði m.a. að frjáls og opin milliríkjaviðskipti séu forsenda þeirrar hagsældar sem við búum við hér á landi og stjórnvöld og atvinnulífið séu samherjar í að skapa þær aðstæður. Viðskipti milli landa séu háð reglum sem eiga sér stoð í samningum margrar ríkja sín í milli. Þeir eigi það sammerkt að veita útflutningsfyrirtækjum tækifæri til sóknar á erlendum mörkuðum og er ætlað að stuðla að frjálsum viðskiptum og aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar nýverið samþykkt að hefja nýja viðræðulotu til að greiða enn frekar fyrir alþjóðaviðskiptum. Það verði okkur til hagsbóta að stofnunin nái fram markmiðum sínum um greiðari alþjóðaviðskipti en mikilvægt sé að atvinnulífið skilgreini hagsmuni sína á erlendum mörkuðum því að það sé forsenda þess að samningarnir skili ávinningi.

Samningar um fríverslun, tvísköttun og fleira
EFTA hefur á undanförnum árum gert verulegt átak í gerð sérstakra fríverslunarsamninga sem eru viðbót eða ganga lengra en samningar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og nú eru senn í gildi 18 slíkir samningar vítt og breitt um heiminn að sögn utanríkisráðherra. Á næstunni er gert ráð fyrir að samningar náist við Chile og Canada og samningaviðræður við Suður-Afríku eru framundan.

EES–samningurinn
Utanríkisráðherra telur EES-samninginn mikilvægasta samning okkar enda sé ljóst að innri markaður EES sé mikilvægasti markaður okkar. Nauðsynlegt sé að tryggja stöðu okkar sem best á þeim markaði þar sem ætla megi að mikilvægi hans aukist í takt við aukna hagsæld í nýjum aðildarríkjum. Fjárfestingar milli landa á svæðinu séu að mestu frjálsar, fjármagn í frjálsu flæði svo og vörur og fólk. Aðildarríki innri markaðarins séu í innbyrðis samkeppni og fyrirtæki keppa án tillits til landamæra. Því sé enn mikilvægara en ella að stjórnvöld tryggi að hér á landi séu allar aðstæður sambærilegar því sem gerist á EES-svæðinu. Íslensk fyrirtæki hafi í auknum mæli tileinkað sér þetta og æ fleiri komi starfsemi sinni fyrir í öðrum EES-ríkjum eða verðandi EES-ríkjum í Mið-og Austur-Evrópu, einkum með því að fjárfesta þar í starfandi félögum og sú útrás sé mikið fagnaðarefni

Áhrif alþjóðasamninga
Utanríkisráðherra segir m.a. að alþjóðasamningar tryggi íslenskum fyrirtækjum erlendum mörkuðum, kjör sem eru með því besta sem gerist en það sé undir fyrirtækjunum komið hvernig þau nýta tækifæri af þessu tagi. Hins vegar sé það hlutverk stjórnvalda að vera þeim stoð og stytta svo að þau megi nýta þau tækifæri sem þessir samningar bjóða.

Utanríkisþjónustan og atvinnulífið
Ráðherrann sagði að utanríkisþjónustan veiti fólki og fyrirtækjum þjónustu. Meginmarkmið í uppbyggingu hennar undanfarin ár hafi verið að styrkja þá þætti sem snúa að utanríkisviðskiptum og þar með þjónustu við útflytjendur. Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins sé dæmi um þjónustu sem veiti útflytjendum mikilvæga aðstoð við að koma vörum og þjónustu á markað erlendis.

Hagvöxtur og útflutningur
Ráðherrann sagði að með sífellt opnari markaði verði mikilvægara að umgjörð atvinnulífsins hér á landi sé á við það besta sem gerist í samkeppnislöndum okkar. Erfitt verði að halda stöðu okkar í hópi fremstu iðnríkja heims nema hagvöxtur verði á næstu árum meiri en hann hefur verið síðustu tvo áratugi og forsenda þess að ná því markmiði sé sterk samkeppnisstaða Íslands. Til að styrkja hana sé nauðsynlegt að viðhalda hagstæðu og stöðugu raungengi krónunnar og í því efni sé almennur stöðugleiki í efnahagsmálum lykilatriði.

Evran og Ísland
Utanríkisráðherra sagði að með fullri gildistöku evrunnar hafi stórum áfanga verið náð í samstarfi aðildarríkja ESB á innri markaði. Flest bendi til að þau aðildarríki ESB sem enn standa utan evrunnar taki hana upp innan fárra ára en um leið sé ljóst að evran leiki stórt hlutverk í íslensku efnahagslífi. Evran feli í sér að ríkjum séu settar skorður um stjórn efnahagsmála og tilteknum aðgerðum eins og í gengismálum verði ekki lengur beitt til að jafna sveiflur. Þjóðhagsstofnun hafi áætlað að verði evran tekin upp hér á landi kunni raunvaxtastig að lækka um eitt og hálft til tvö prósentustig eða um 15 milljarða króna á ári. Þá telur ráðherra ekki síður mikilvægt að horfa til afleiddra áhrifa evrunnar. Þar megi nefna að lækkun vaxtakostnaðar hefði í för með sér að landsframleiðslan yrði 25 milljörðum meiri en ella eftir 25 ár. Einnig sé nauðsynlegt að horfa til þess að áhætta, sem lántakendur á erlendum markaði búa nú við, yrði úr sögunni.

Umræður um hugsanlega aðild
Undir lok ræðu sinnar vék utanríkisráðherra máli sínu að umræðunni um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hinn sameiginlegi gjaldmiðill verði að sínu mati mesti áhrifavaldurinn í þeirri umræðu. Stóra spurningin væri hvort Ísland þyldi til lengdar þá skertu samkeppnishæfni sem kynni að fylgja því að standa utan evrunnar og spurði m.a. hvort við séum tilbúin að sætta okkur við það að heimilin í landinu þurfi að bera meiri vaxtabyrði af þessum sökum.

Eigin gæfu smiðir
Utanríkisráðherra sagði markvissar aðgerðir hafa skapað forsendur fyrir þeirri sókn sem verið hefði í íslensku efnahagslífi undanfarin ár. Að viðhalda þeirri stöðu krefjist þess að við höldum vöku okkar og það eigi bæði við fyrirtæki og stjórnvöld. „Í þessum efnum erum við Íslendingar eigin gæfu smiðir en ekki verður horft framhjá því að ytri aðstæður hafa sterk áhrif á efnahagslegar forsendur hér á landi. Því verðum við að fylgjast grannt með þróun mála og meta sífellt stöðu okkar í samkeppni þjóðanna. Þar skiptir Evrópa og innri markaðurinn mestu máli. þar ræðst framtíði iðnaðarins, þar ræðst framtíð Íslands.“

Erindi utanríkisráðherra í heild