Mikill meirihluti vill aðildarviðræður við ESB
Tæplega 70% félagsmanna Samtaka iðnaðarins vilja taka upp aðildarviðræður við ESB og um 60% vilja taka upp evru í stað krónu.
Tæplega 70% félagsmanna Samtaka iðnaðarins vilja taka upp aðildarviðræður við ESB og um 60% vilja taka upp evru í stað krónu.
Á Iðnþingi morgun voru kynntar niðurstöður viðhorfskönnunar sem Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins um Evrópumálin og eru þær um margt forvitnilegar.
Könnunin tók til félagsmanna Samtaka iðnaðarins og voru 500 af 1.150 félagsmönnum í úrtaki könnunarinnar. Og var svarhlutfallið 80%. Þegar eingöngu er litið til þeirra sem taka afstöðu kemur fram að þegar spurt var að því hvort félagsmenn væru hlynntir eða andvígir aðild að ESB sögðust 43% hlynntir en 57% andvígir. Hlutföllin hafa nánast snúist við frá því í ágúst árið 2000 þegar Gallup spurði félagsmenn síðast sömu spurningar. Þá sögðust 59% hlynntir aðild en 41% andvígir.
Áfram var spurt og þá sögðust 78% félagsmanna hlynnt því að taka upp aðildarviðræður við ESB en 22% andvíg. 57% telja aðild að ESB hagstæða fyrir íslenskan efnahag í heild en 43% telja hana óhagstæða. 66% telja aðild hagstæða fyrir sitt fyrirtæki en 34% óhagstæða. 65% félagsmanna sögðust hlynnt því að taka upp evru en 35% andvíg. Gallup spurði líka hvort félagsmenn væru sáttir við málflutning Samtaka iðnaðarins í Evrópumálum. 69% kváðust sátt við hann en 31% ósátt.
Þegar litið er nánar á þessar niðurstöður má sjá að meirihlutinn vill taka upp aðildarviðræður, telur aðild hagstæða fyrir efnahag Íslands og hagstæða fyrir sitt fyrirtæki. Hann vill taka upp evru og er sáttur við málflutning Samtaka iðnaðarins í Evrópumálunum. Þrátt fyrir þetta er meirihluti á móti aðild þegar könnunin er gerð. Eðlilegt er að velta því fyrir hverju þetta sæti.
Formaður Samtaka iðnaðarins, Vilmundur Jósefsson, sagði í ræðu sinni á Iðnþingi í dag „greinilegt að hin efnahagslegu rök, sem við höfum haldið á lofti í málinu, eigi góðan hljómgrunn meðal félagsmanna og þeir vilja taka upp aðildarviðræður. Hins vegar virðast einhverjir aðrir þættir valda því að þrátt fyrir þetta eru fleiri, á þessu stigi, andvígir aðild. Mér dettur helst í hug að óbilgjarnar fjárkröfur ESB í tengslum við stækkun EES, staða heimsmálanna og augljós pirringur Frakka og Þjóðverja vegna breyttra valdahlutfalla í ESB í kjölfar stækkunar sambandsins, auki andstöðu við aðild. Þá má auðvitað ekki gleyma því að forsætisráðherra hefur á síðasta ári hert mjög á andstöðu sinni við aðild að ESB og talað tæpitungulaust. Ég er ekki talsmaður þess að skipta um skoðun og stefnu eftir því sem vindurinn blæs í skoðanakönnunum. Niðurstaða mín er sú, að stjórn og ráðgjafaráð verði að skoða þessi mál sérstaklega á næsta stefnumótunarfundi sínum í vor. Við teljum ákaflega mikilvægt að þekkja vel hug félagsmanna okkar í Evrópumálum sem eru án nokkurs vafa meðal þeirra stærstu og mikilvægustu sem við stöndum frammi fyrir á næstu misserum og árum. Þess vegna höfum við látið gera þessar kannanir og birt þær opinberlega og munum gera það áfram.“
- Könnun Gallups meðal félagsmanna SI
- Könnun Gallups meðal almennings
- Glærur Jóns Steindórs, aðst.framkv.stj. SI um kannanirnar