Vilmundur Jósefsson formaður SI

- Útdráttur úr ræðu á Iðnþingi 14. mars 2003 -

Vilmundur gat þess m.a. í setningarræðu sinni á tíunda Iðnþingi að á slíkum tímamótum væri við hæfi að staldra við og meta hvað hefði áunnist og hvað væri framundan. Starf Samtakanna hefði verið farsælt og vel hefði tekist að sinna fjölbreyttum og gerólíkum þörfum og óskum félagsmanna. Félagsmenn kæmu úr öllum greinum iðnaðarins allt frá handverki til stóriðju.

Vilmundur Jósefsson - ræða á Iðnþingi 2003Vilmundur gat þess m.a. í setningarræðu sinni á tíunda Iðnþingi að á slíkum tímamótum væri við hæfi að staldra við og meta hvað hefði áunnist og hvað væri framundan. Starf Samtakanna hefði verið farsælt og vel hefði tekist að sinna fjölbreyttum og gerólíkum þörfum og óskum félagsmanna. Félagsmenn kæmu úr öllum greinum iðnaðarins allt frá handverki til stóriðju.

Yfirgnæfandi meirihluti sáttur við störf SI
„Frá upphafi hafa Samtök iðnaðarins lagt áherslu á að virkja félagsmenn við stefnumótun og stjórn Samtakanna. Stefnumótunarfundir hafa verið haldnir reglulega og afrakstur þeirra verið hafður að leiðarljósi í starfinu. Viðhorfskönnun, sem Gallup gerði nýlega meðal félagsmanna fyrir Samtökin, leiddi í ljós að 85% eru sátt við málflutning SI og 81% ánægð með þjónustuna. Þessi niðurstaða er Samtökunum mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut.

idnthing-2003-konnun1 idnthing-2003-konnun2

Evrópumálin

Allt frá upphafi hafa samtök iðnaðarins látið sig Evrópumálin miklu skipta. Það er algerlega óumdeilt að EES-samningurinn var mikið heillaspor fyrir Íslendinga og hefur leitt af sér, beint og óbeint, mestu og bestu breytingar á starfsskilyrðum íslensks atvinnulífs. Stöðugleiki er það sem við þurfum umfram allt að tryggja iðnaðinum og raunar öllu atvinnulífi. Samtökin hafa litið svo á að til að tryggja stöðugleika og vaxtakjör sambærileg þeim, sem tíðkast í samkeppnislöndum okkar, sé brýnt að Ísland verði fullgildur aðili að Evrópumarkaðinum og þar sé mikilvægast að taka upp evruna eins og fram kom í ályktun Iðnþings 2002. Í nýlegri viðhorfskönnun, sem Gallup gerði fyrir SI um Evrópumálin, kemur fram að meirihluti vill taka upp aðildarviðræður og telur aðild hagstæða fyrir sitt fyrirtæki. Hann vill að evran verði tekin upp og er sáttur við málflutning SI í Evrópumálum. Þrátt fyrir það er meirihluti á móti aðild þegar könnunin var gerð. Hin efnahagslegu rök eiga góðan hljómgrunn meðal félagsmanna og þeir vilja að teknar verði upp aðildarviðræður en einhverjir aðrir þættir valda því að þrátt fyrir það eru fleiri andvígir aðild á þessu stigi.

Iðnþing 2003. Tæplega 70% félagsmanna Samtaka iðnaðarins vilja taka upp aðildarviðræður við ESB og um 60% vilja taka upp evru í stað krónu.

Arðsemi höfð að leiðarljósi

Samtökin hafa jafnan hvatt til þess að arðsemi sé höfð að leiðarljósi þegar ráðist er í framkvæmdir. Varlega þarf að fara við ráðstöfun opinbers fjár og reyna að beina því í þann farveg að það verði til hagsbóta fyrir landslýð allan og stuðli að vexti og framþróun atvinnulífsins. Þetta er sérstaklega mikilvægt núna þegar við stöndum frammi fyrir mestu framkvæmdum Íslandssögunnar og höfum náð mikilvægum áföngum í einkavæðingu með sölu ríkisbankanna. Á sama tíma skortir tilfinnanlega fé til vísinda-, og tækniþróunar og nýsköpunarstarfs í landinu. Samtökin hafa miklar áhyggjur af að Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði verði ekki tryggt nægilegt fjármagn og ég skora á stjórnvöld að veita fé til Tækniþróunarsjóðs og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Með því væri horft til framtíðar og búið í haginn fyrir atvinnulíf sem verður að vera fært um að vera uppspretta atvinnu og hagsældar þegar framkvæmdaaldan, sem nú er að rísa, hnígur á ný.

Samkeppni sama hvað hún kostar

Samtök iðnaðarins hafa alltaf talið einn af helstu kostum EES-samningsins að með honum fengum við löggjöf í takt við það sem tíðkast í öðrum Evrópulöndum. Ný samkeppnislög breyta því ekki að íslenski markaðurinn er smár og fákeppni, jafnvel einokun, einkennir hann á mörgum sviðum. Hitt er verra að samkeppnisyfirvöld virðast stundum líta svo á að hlutverk þeirra sé að tryggja sem lægst vöruverð til skamms tíma en kemur lítið við þótt erlendir keppinautar beiti íslensk fyrirtæki bolabrögðum. Samkeppnislög Evrópuríkja eru ekki samræmd. Við eigum að nýta það svigrúm sem við höfum til að sníða íslenska löggjöf að eigin þörfum á þessu sviði sem öðrum. Markaður okkar er smár og fyrirtækin fá og smá í samkeppni við mun stærri fyrirtæki. Íslensk löggjöf á að taka mið af þessu.

Stöðugleikatímabil

Síðasti áratugur var lengsta tímabil stöðugleika í sögu íslenska lýðveldisins. Á þessum árum hafa iðnaður og aðrar samkeppnisgreinar blómstrað og stóraukið hlutdeild sína í landsframleiðslunni. Hagvöxtur hefur verið hér talsverður en það, sem tíðindum sætir, er að sá hagvöxtur kom ekki úr hafinu í formi aukins afla eða verðhækkana á fiskmörkuðum erlendis. Þetta er ánægjuleg þróun og ber vitni um að atvinnulíf okkar er að verða þróaðra og tæknivæddara. Þann skugga ber þó á að hagvöxtur undanfarinna ára var að hluta byggður á sandi eða öllu heldur tekinn að láni erlendis.

Undarlegt ástand

Gengi krónunnar var og er hins vegar ekki í neinu jafnvægi. Það hækkaði umtalsvert á ný á síðasta ári en var að meðaltali yfir árið nálægt því sem þarf til að viðskipti okkar við önnur lönd séu í jafnvægi og afkoma útflutnings- og samkeppnisgreina viðunandi en samkeppnisstaða iðnaðar, sjávarútvegs og annarra samkeppnisgreina hefur farið versnandi jafnt og þétt með frekari gengishækkun krónunnar. Svo er nú komið að þanþol þessara greina er að bresta.

Háir vextir í áratug

Allt frá 1994 hefur íslenskt atvinnulíf búið við mun hærri vexti en keppinautar austan hafs og vestan. Seðlabanki Íslands heldur vöxtum enn háum til að halda verðbólgu í skefjum. Það ýtir undir frekari hækkun íslensku krónunnar sem aftur þjarmar að afkomu samkeppnisgreina sem eru drifkrafturinn í efnahagslífi okkar. Vegna himinhárra vaxta hafa fyrirtækin tekið erlend lán til rekstrar og fjárfestinga. Hættan er sú að á byggingartíma virkjana og stóriðju verði háir vextir og hátt gengi íslensku krónunnar til þess að murka lífið úr landvinnslu á fiski, samkeppnisiðnaði og þjónustu. Þá munum við missa úr landi þá tæknivæddu framleiðslu sem hér hefur verið að þróast undanfarin ár. Það eru útflutningsfyrirtæki með starfsemi erlendis sem forða sér fyrst. Þau eru að efla starfsemi sína erlendis og færa framleiðsluna úr landi um þessar mundir.

Samstillingu vantar

Framundan eru Alþingiskosningar og mestu framkvæmdir Íslandssögunnar. Í senn er vaxandi atvinnuleysi en um leið miklar væntingar um þensluskeið. Ekki má einblína á verðbólgumarkmið og beita vaxta – og gengisstefnu sem kyrkir atvinnulífið. Á sama tíma og opinberir aðilar boða stóraukin framlög til framkvæmda og flýta þeim sem mest má verða heldur Seðlabankinn uppi stífu aðhaldi með háum vöxtum. Það vantar greinilega samstillingu í efnahagsstjórnina. Við þurfum á samstilltu átaki að halda eigi að vera nokkur von til þess að við komumst klakklaust gegnum þá umbrotatíma sem framundan eru. Þetta verkefni ætti að vera efst á lista yfir umræðuefni fyrir komandi alþingiskosningar.“

©Samtök iðnaðarins, 2003